Ósýnileg einkenni

 

Var prinsessan á bauninni með MS?

 

Fullyrða má að ósýnileg einkenni MS falli í skugga þeirra sýnilegu. Einnig, að einkenni eins og lamandi þreyta, hugrænir erfiðleikar og persónuleikabreytingar, njóti takmarkaðs skilnings og samúðar samfélagsins. Fólk virðist almennt eiga erfitt með að átta sig á því sem það ekki sér og skilur og velur þá gjarnan að líta undan og látast hvorki sjá né heyra.

Þetta er miður, því ósýnileg einkenni eru ekki síður erfið að takast á við og jafn hamlandi í daglegu lífi og hin sýnilegu einkenni.

Hér á eftir verður ýmsum ósýnilegum einkennum MS lýst. Upptalningin er löng svo hafa verður í huga að enginn fær öll einkennin og margir, sem betur fer, upplifa aðeins fá eða jafvel engin ósýnileg einkenni.

Með því að smella á fyrirsagnir og appelsínugul orð getur þú nálgast frekari upplýsingar.

 

Breytingar á persónuleika og háttalagi

Þegar talað er um breytingar á persónuleika og háttalagi einstaklings þýðir það að viðkomandi bregst við á annan hátt en honum var áður eiginlegt.

Þessar breytingar eru yfirleitt erfiðar viðureignar, ekki aðeins fyrir fólkið sem gengur í gegnum þær heldur einnig fyrir þeirra nánustu.

Skellur (blettir) í heila geta valdið breytingunum og ræður staðsetning og umfang blettanna miklu um hverjar þær verða og þ.a.l. hverjar afleiðingarnar verða á daglegt líf einstaklingsins. Lyf geta stundum valdið tímabundnum breytingum á háttalagi eða skapi og sorgarferli í kjölfar greiningar og breytinga á högum, sérstaklega ef sjúkdómsgangur ágerist hratt, getur valdið atferlisbreytingum.

Hins vegar þurfa breytingarnar alls ekki að tengjast MS-sjúkdómnum heldur einhverju allt öðru.

 

Algengustar eru:

Sýnt hefur verið fram á að meira er um þunglyndi hjá einstaklingum með MS, borið saman við einstaklinga með aðra alvarlega sjúkdóma, þar sem rannsóknir benda til að MS-skellur á ákveðnum stöðum í heila geta valdið þunglyndi.

Þreyta og áhugaleysi er einkennandi fyrir þunglyndi en einnig getur þunglyndi komið fram sem reiði gagnvart öðrum. Þunglyndir einstaklingar geta upplifað uppgjöf og litla lífslöngun, þeir geta haft áhyggjur, verið kvíðnir, með sjálfsásakanir og sektarkennd, fundist þeir vera lítils virði og jafnvel verið í sjálfsvígshugleiðingum.

Sumir fela þunglyndi sitt á bak við glaðlegt yfirbragð. Þeir geta virst vera mjög kátir og áhyggjulausir, jafnvel ofurkátir, en ef þeir eru spurðir nánar um líðan sína viðurkenna þeir að á bak við kátt yfirbragð eða gleðigrímu sé að finna sorg og uppgjöf.

Þunglyndi ber alltaf að taka alvarlega og er best, fyrr en síðar, að leita aðstoðar fagfólks, t.d. heilbrigðisstarfsfólks, hjálparsímans 1717 eða netspjalls Rauða krossins. Þá býður MS-félagið upp á þjónustu sálfræðings fyrir MS-greinda og aðstandendur þeirra, sem um að gera er að nýta sér.  

 

Ef einstaklingur glímir við miklar tilfinningasveiflur þýðir það að hann getur ekki stjórnað tilfinningum sínum á viðeigandi hátt. Viðkomandi ræður þá ekki við að hemja grát sinn, hvort sem er yfir gleðiviðburðum eða dapurlegum atburðum, auk þess sem hann getur orðið reiður vegna smámuna. Geta reiðiviðbrögðin jafnvel orðið ofsafengin og úr öllu samhengi við eðli atburðarins.

Þessi sami einstaklingur getur samt sýnt eðlileg reiði- og sorgarviðbrögð við aðstæður þar sem það á við.

 

Stjórnlaus hlátur og/eða grátur þýðir að einstaklingurinn getur, óháð því skapi eða ástandi sem hann er í, skyndilega sprungið úr hlátri eða farið að hágráta, án þess að vilja það og án þess að geta hætt. Það gerist vegna þess að sú starfsemi heilans sem á að draga úr tilfinningasveiflum er skert. Þegar viðbrögð einstaklings þykja óviðeigandi verður það oft vandræðalegt fyrir hann, sem og fólkið sem hann umgengst.

 

Við tilefnislausa bjartsýni, eða ofurkæti, er bjartsýni og gleði í hróplegu ósamræmi við raunverulegt ástand. Einstaklingurinn getur verið mjög óraunsær á hvað hann raunverulega getur, hann getur skort eða haft brenglaða skynjun á eigin veikindi og strítt við hugræn einkenni, eins og minniserfiðleika og skort á einbeitingu og yfirsýn.

Sumir telja tilefnislausa bjartsýni vera „þægilegt einkenni“ sem komi í veg fyrir að þeir séu eða verði sorgmæddir og langt niðri. Hins vegar upplifir nánasta fjölskylda og fagfólk oft vandamál í tengslum við þessa ofurkæti, sérstaklega þegar viðkomandi ofmetur getu sína í aðstæðum þar sem aðrir eru háðir honum.

 

Þegar tilfinningar dofna eða minnka vegna persónuleikabreytinga sýnir einstaklingur ekki eðlilegar tilfinningar eins og gleði, sorg eða reiði, sem kann að virka á aðra sem tómlæti. Í einhverjum tilvikum upplifa einstaklingarnir þennan tilfinningadoða sem óbærilegan eða óþolandi en í öðrum tilvikum finna þeir ekki fyrir honum vegna brenglaðrar vitundar um vandann. Erfitt getur verið að skilja þessi viðbrögð, sérstaklega fyrir nánustu fjölskyldu viðkomandi.

 

Einstaklingur getur að hluta eða öllu leyti misst hæfileikann til að skilja þá stöðu sem hann er í, þ.e. hann van- eða ofmetur eigin getu og tekur ekki rökum. Getur slíkt valdið ágreiningi í samskiptum, t.d. þegar kemur að því að ræða viðkvæm og erfið málefni eins og hæfileikann til að aka bíl.

Það getur verið erfitt fyrir hans nánustu að skilja að venjuleg rökhugsun og rökfærsla hefur ekkert að segja – ekki vegna þess að einstaklingurinn vill ekki skilja, heldur vegna þess að hann er ófær um það.

 

Sumir geta átt það til að hegða sér á óviðeigandi hátt, þ.e. þeir virðast missa tilfinninguna fyrir almennum félagslegum viðmiðunum. Dæmi um það er til dæmis skert dómgreind, skortur á samúð, tillitsleysi gagnvart tilfinningum og þörfum annarra og skilningsleysi á almennu velsæmi í félagsskap annarra.

Einstaklingurinn getur til dæmis komið með óviðeigandi athugasemdir eða truflað samtöl, eitthvað sem hann hefði aldrei gert fyrir veikindin.

 

Einstaklingur getur verið vel fær um að halda áfram með eitthvað sem honum er komið af stað með þó honum sé ómögulegt að byrja á einhverju. Hann hefur því kannski ekki frumkvæðið að því að raða í uppþvottavélina, þó honum gangi verkið vel sé honum komið af stað með það. Þetta er vegna þess að þessum tveimur aðgerðum, að byrja á einhverju og að vinna verkefni, er stjórnað frá mismunandi stöðum í heilanum og eru þær því ekki beintengdar aðgerðir. 

Þetta ástand getur verið mjög ergilegt fyrir aðra fjölskyldumeðlimi ef þeir skilja ekki vandamálið. Þeir telja jafnvel að einstaklingurinn sé latur, geri of miklar kröfur eða að hann geri alltaf ráð fyrir að aðrir geri það sem þarf að gera.

 

Sjóntruflanir

Þegar við fáum sjóntruflanir þá getur það haft margvísleg áhrif á þátttöku í daglegu lífi. Til dæmis má alls ekki aka bíl á meðan sjónin er skert og erfitt getur reynst að sinna skóla, vinnu og heimili.

Algengar sjóntruflanir MS-greindra er sjóntaugabólga sem getur byrjað sem mis sár verkur aftan eða við annað augað. Sjónin minnkar þá yfirleitt á nokkrum dögum en eftir nokkurn tíma, allt frá nokkrum dögum upp í vikur, dregur úr einkennum og sjónin fer að verða eðlileg aftur. Sumir fá þó varanleg einkenni með verri sjón og breyttu litaskyni, sérstaklega þeir sem fá síendurteknar sjóntaugabólgur.

Tvísýni getur verið til annarrar eða beggja hliða eða þegar horft er upp. Tvísýni getur fylgt sérstakt tif eða sláttur í sjónsviðinu vegna samtímis truflana í fylgihreyfingum augnanna. Rykkjast þá augun ósjálfrátt taktfast til þeirrar hliðar sem horft er til og nefnist slík truflun augntin.

 

Skyntruflanir

Margrét Sigríður, sem greind er með MS, fullyrðir að prinsessan á bauninni hafi ábyggilega verið með MS og þjáðst af skyntruflunum. Eins og svo margir MS-greindir, þjáðist prinsessan í ævintýrinu vegna ofurnæms líkama síns þegar hún fann fyrir agnarsmárri baun undir mörgum dýnum. Ofurnæmi er ein tegund skyntruflana.  

Skyntruflanir geta komið fram í hvaða hluta líkamans sem er, tekið yfir lítið eða stórt svæði og verið til staðar hvort sem húð er snert eða ekki. Þær geta verið vægar, frá dofa sem vart truflar viðkomandi, upp í illþolanlegan verk. Þær geta valdið mismiklum óþægindum og áhrifum á athafnir daglegs lífs. Til dæmis geta skyntruflanir valdið vandræðum í kynlífi.

 

Dæmi um skyntruflanir eru:

  • Dofi/náladofi
  • Kláði/ofsakláði
  • Verkur eða þyngsli fyrir brjósti
  • Rafstraumur
  • Tilfinningaleysi í húð
  • Ofurnæmi, eins og prinsessan í ævintýrinu þjáðist af
  • Breyting á hitaskynjun í húð, svo sem brunatilfinning, þ.e. eins og húðsvæðið sé yfir gasloga, eða kuldi, þ.e. innri kuldi, beinverkir, hand- og fótakuldi
  • Almenn óþægindi í húð, t.d. eins og haft sé gúmmíband um úlnlið, ökkla eða brjóstkassa

Sem dæmi, þá getur dofi í fingrum aukið hættuna á því að brenna sig þegar komið er við heita hluti eins og potta. Einnig getur verið erfitt að vinna fínvinnu, skrifa, klæða sig eða halda á bolla, hníf eða öðrum hlutum á öruggan hátt, því hætta er á að maður missi hluti úr höndum sér. Þá geta þeir sem eru dofnir í fótum átt það á hættu að detta. Mikill dofi í andliti getur síðan aukið hættuna á að bíta í munnholdið eða í tunguna á meðan maður borðar eða tyggur.

Hita- og kuldaskyn getur einnig truflast. Þá þarf að gæta varúðar hvort sem skrúfað er frá vatni eða tekið um heita potta, diska, bolla eða annað viðlíka. Sama á við um kælipoka sem settir eru á húð.

Skynjun frá húð, við það eitt að strjúka hendi eftir húðinni, getur líka brenglast og gefið röng skilaboð. Tilfinningin frá húðinni getur einnig verið óþægileg, jafnvel sársaukafull, við það eitt að fara í bað eða fá sand á milli tánna. Sumir upplifa þá tilfinningu að vera eins og með sandkorn í skónum þegar þeir ganga eða sem að þeir fletti blöðum með vettlinga á höndum þegar tilfinning í fingrum er lítil eða brengluð.

Í upphafi sjúkdómsferlis geta skyntruflanir verið hluti af eða eitt einkenna í kasti sem hverfa þegar kastið gengur yfir. Síðar í sjúkdómsferlinu geta þær orðið meira viðvarandi og þá átt það til að vera breytilegar í styrk og eðli.

 

Þvagblöðruvandamál

Margir sem eiga við þvagblöðruvandamál að stríða hugsa ekki um annað en hvar næst verður komist á salerni, þeir skipuleggja ferðir með staðsetningu salerna í huga eða halda sig bara heima. Fólk freistast til að drekka mun minna en þörf er á eða jafnvel sleppir því að drekka.

Slíkt er mjög slæmt, því nauðsynlegt er að drekka nægjanlega, u.þ.b. 1,5-2 lítra á sólarhring, til að halda líkamsstarfseminni gangandi. Ef vökvainntaka er of lítil eykst hætta á þvagfærasýkingu, nýrnabilun o.þ.h.

Hafa skal í huga að erfiðleikar með þvagblöðruna eru ekki alltaf MS-sjúkdómnum að kenna, þó allt að 75% MS-greindra eigi í einhvers konar vandræðum með tæmingu þvagblöðrunnar. Einkennandi fyrir MS er að fólki verður „brátt“ og á af þeim sökum á hættu að ná ekki á salerni og missa þar með þvag.

 

Þvagblöðruvandamál geta verið:

  • Ofvirk þvagblaðra

Stöðug og skyndileg þörf fyrir að tæma blöðruna. Taugarnar senda boð til blöðru um tæmingu þó aðeins lítið magn af þvagi sé í blöðrunni.

  • Lausheldni

Erfiðleikar með að halda þvagi. Oft og skyndileg þörf fyrir losun.

  • Erfiðleikar við að tæma blöðruna

Einstaklingur getur bæði haft vandamál með að byrja þvaglát en einnig að hafa ekki tilfinningu fyrir því hvort blaðran sé tóm. Þvagflæðið er ekki mikið og kemur með hléum. Þetta kallar á tíðar klósettferðir og jafnvel þvagleka á milli þeirra.

 

Þvagfærasýking  

Þvagfærasýking er nokkuð algeng meðal einstaklinga með MS og getur verið sársaukafull. Ástæður hennar eru m.a. erfiðleikar við að tæma þvagblöðruna, notkun þvagleggja, erfiðleikar við að viðhalda góðu hreinlæti við grindarbotn, minni hreyfigeta og blöðrulömun. 

Hætta er á að sýkingin fari í nýrun ef ekki er brugðist fljótt við. Í apóteki er hægt að kaupa þvagprufuglös og sérstaka strimla til að kanna hvort um sýkingu sé að ræða eða ekki. Líka er hægt að fara með þvagprufu á heilsugæslustöð.

Mikilvægt er að vera á verði gagnvart einkennum þvagfærasýkingar því hún getur aukið á MS-einkenni og líkst MS-kasti.

 

Staðbundin einkenni geta verið, eitt eða fleiri:

  • Tíð þvaglát
  • Næturþvaglát
  • Lítið þvag í einu
  • Mikil þvaglátsþörf
  • Sviði við þvaglát
  • Þvagið er dökkt og/eða gruggugt
  • Illa lyktandi þvag
  • Blóð í þvagi
  • Verkur yfir blöðrustað
  • Kvið- og bakverkir
  • Þvagleki/þvagteppa

 

Almenn einkenni geta verið, eitt eða fleiri:

  • Hár líkamshiti (getur líka verið án hita)
  • Hrollur
  • Slappleiki
  • Ógleði/uppköst
  • Niðurgangur
  • Breyting á meðvitundarástandi

 

Hugrænir erfiðleikar

Hugrænir erfiðleikar eru ekki óalgengir meðal MS-greindra og geta verið mjög hamlandi. Eins og með persónuleikabreytingar geta hugræn vandamál verið erfið viðureignar fyrir alla aðila en þó er ýmislegt til ráða. 

 

Hugrænir erfiðleikar geta valdið vandkvæðum með:

Hugræn vandkvæði geta orsakast af MS-blettum í heila, verið af sálfræðilegum toga eða vegna aukaverkana lyfja. Hugræn vandamál eru þó ekki alltaf MS-sjúkdómnum um að kenna.

 

Hægðavandamál

Að eiga í einhvers konar vandræðum með hægðir er mörgum mikið feimnismál. Auðvelt er að segja að svo eigi ekki að vera, þar sem að hafa hægðir á að vera mönnum jafn eðlilegt og hvað annað. Sem betur fer eru vandræðin í langflestum tilvikum auðleysanleg.

Mikilvægt er að hafa reglulegar hægðir því annars eykst hættan á þvagfærasýkingu þar sem erfiðara verður að tæma þvagblöðruna auk þess sem öll almenn líkamleg og andleg óþægindi aukast.

Hægðavandamál þurfa alls ekki að tengjast MS. Í MS eru vandamálin tengd truflunum á skilaboðum á milli heila og ýmissa hluta meltingarkerfisins, aukaverkunum lyfja, hreyfingarleysis og þess háttar.   

 

Hægðavandamál geta verið: 

  • Hægðatregða og óreglulegar hægðir

Hægðartregða er þegar einstaklingur hefur hægðir sjaldnar en þrisvar í viku. Orsök hægðatregðu og óreglulegra hægða getur verið minni hreyfing, að viðkomandi drekkur ekki nægjanlega eða borðar ekki nóg af trefjaríku fæði. Einnig getur ástæðan verið aukaverkun lyfja, spasmar, þreyta og/eða minni tilfinning í grindarbotni.

  • Hægðaleki

Hægðaleki er það þegar viðkomandi hefur ekki stjórn á hægðum sínum og getur þ.a.l. misst hægðir. Orsökin getur verið framhjáhlaup (n.k. niðurgangur), minni tilfinning í endaþarmi eða minni stjórn á endaþarmsopi, ofnotkun á hægðalyfjum, ákveðið mataræði og sýkingar í meltingarvegi.

 

Lamandi þreyta (MS-þreyta)

Lamandi þreyta, öðru nafni MS-þreyta, er ekki venjuleg þreyta sem eðlilegt er að fólk finni fyrir eftir áreynslu eða erfiðan dag heldur er um íþyngjandi þreytu að ræða sem gerir einstaklingi erfitt fyrir í daglegum athöfnum. Þreytan hverfur yfirleitt ekki eftir stutta hvíld og er ekki auðveldlega hrist af sér.

MS-þreytan er algengt einkenni og er stundum ruglað saman við leti áður en sjúkdómurinn er greindur. Geta ásakanir um leti reynst þungbærar þegar einstaklingurinn er þjakaður af lamandi þreytu og ófær um verk.

MS-þreyta er ein helsta ástæða þess að MS-greindir hverfa snemma af vinnumarkaðnum.

 

Talerfiðleikar

Talerfiðleikar eru mismunandi en fyrir flesta eru vandamálin tiltölulega væg og viðráðanleg. Talerfiðleikar eru helst þvoglumælgi eða óskýrt tal og að raddstyrkur og radd- eða taltaktur truflast.

Málstol er hins vegar sjaldgæft einkenni MS en það er þegar einstaklingur á erfitt með að finna orð eða skilja aðra. Viðkomandi getur átt í erfiðleikum með að skilja talað mál eða fylgjast með flóknum samræðum, lesa, tala og skrifa. Hann tjáir sig á annan hátt en áður, en hugræn færni hans er óbreytt, að öðru óbreyttu.

Orsök talerfiðleika geta verið MS-blettir á þeim svæðum heilans sem stýra málskilningi og tali eða sködduð taugaboð til andlits- háls- og brjóstvöðva, m.a. til lungna, þindar, raddbanda, vara, tungu og nefhols.

Talerfiðleikar aukast ef einstaklingur er undir álagi, finnur fyrir MS-þreytu eða máttleysi og hjá þeim sem eru með lengra genginn sjúkdóm. Einnig geta einkenni versnað þegar einstaklingur er í MS-kasti. 

 

Svefnraskanir

Svefntruflanir eru ekki dæmigerð MS-einkenni en eru samt algengar og oft ógreint vandamál. Svefnraskanir, þar á meðal svefnleysi, kæfisvefn og fótaóeirð, geta haft veruleg áhrif á getu einstaklingsins í daglegu lífi og aukið á MS-þreytu. Að meðhöndla svefntruflanir getur því bætt lífsgæði verulega og haft jákvæð áhrif á önnur MS-einkenni, einkum hugræna færni, þreytu, þunglyndi og verki.

Svefntruflanir geta verið erfiðleikar með að sofna, erfiðleikar við að viðhalda svefni (vakna um nóttina eða ekki geta sofnað strax) og/eða vakna of snemma.

 

Orsakir svefntruflana geta verið:

 

Taugaverkir

Taugaverkir tengjast sködduðum taugaboðum. Þeir geta verið mjög sársaukafullir og þreytandi og haft (mikil) áhrif á líðan og virkni í daglegu lífi. Taugaverkir koma skyndilega og einkennast af kröftugum verkjaskotum sem standa oftast yfir í 10-20 sekúndur í einu, en sjaldan meira en í mínútu. Einkennin koma oft í bylgjum, allt að 100 sinnum á dag.

Taugaverkir geta komið hvar sem er í líkamanum. Þegar taugaverkir koma fram í fótleggjum er það oft ranglega greint sem brjósklos.

 

Taugaverkir eru margskonar:

Talað er um MS-faðmlagið þegar einstaklingi finnst eins og hann hafi þéttbundið band eða teygju um brjóstkassann (á svæðinu á milli háls og mittis) eða finni fyrir þrýstingstilfinningu frá annarri hlið líkamans. Sumum finnst erfitt eða sárt að anda.

Þessi lýsing á einkenninu getur hins vegar átt við mun alvarlegra ástand, eins og brjóstverk eða hjartaverk. Það má því alls ekki skrifa brjóstverk sjálfkrafa á MS-faðmlagið, heldur leita tafarlaust á Bráðavaktina verði andþrengsla eða brjóstverkja vart, nema að höfðu samráði við lækni.

MS-faðmlagið er einnig að finna í höndum eða fótum, t.d. um úlnlið eða um ökkla, og líður einstaklingnum þá jafnvel eins og hann sé stöðugt með hanska, í þröngum sokkum eða í stígvélum. Sumir fá þessa tilfinningu um höfuðið.

MS-faðmlagið getur verið allt frá því að vera létt pirrandi til að vera mjög sársaukafull tilfinning. Tilfinningunni er helst lýst sem þrýstingi, verk, ertingi eða brunatilfinningu. Eins og með aðra taugaverki geta þeir staðið stutt og skarpt yfir í stuttan tíma en líka verið langvarandi.

Orsökina er að leita í skemmdum taugaboðum og, í tilviki faðmlags um brjóstkassa, spasma í litlum vöðvum sem liggja á milli rifbeinanna sem hjálpa til við að þenja út brjóstkassann þegar andað er.

 

Lhermitte´s er dæmi um taugaverki sem geta komið skyndilega en vara stutt. Það stafar af truflun ofarlega í hálsmænu og lýsir sér eins og að rafstraumur skjótist niður mænuna og jafnvel út í útlimi þegar einstaklingur beygir höfuðið fram.

 

Verkurinn lýsir sér eins og rafstraumsverkur öðrum megin í andliti. Þríburataugin stýrir því að kyngja og tyggja. Geta verkirnir verið það slæmir að erfitt verður að borða og drekka, bursta tennur eða brosa á meðan þetta ástand varir.

 

Einstaklingur finnur þá ekki eingöngu fyrir dofa, heldur náladofa, aukinni snertiviðkvæmni, kulda, brunatilfinningu o.fl.

 

Verkir

Margir þjást af verkjum frá vöðvum og liðamótum. Verkirnir geta stafað af spasma, rangri líkamsbeitingu og bólgum, frá meltingarvegi og vegna kyrrsetu eða hreyfihömlunar.

Tiltölulega algeng einkenni við mænutruflunum eru dofi og ónot í höndum og fótum. 

Verkir geta komið og farið snögglega, verið tímabundnir eða varanlegir. Þeir geta verið þolanlegir, en líka verið óbærilegir og stöðugir og haft áhrif á líðan og virkni í daglegu lífi.

Verkir geta aukist við hita, kulda, eftir lélegan svefn, þreytu, hreyfierfiðleika, lágt sjálfsmat, einmannaleika eða þunglyndi. Þá getur hjálpað að leita lausna við þessum einkennum samhliða meðhöndlun verkja.

 

Svimi

Svimi stafar af taugaskaða á svæðum sem samræma skynjun og viðbrögð við upplýsingum sem einstaklingurinn fær frá augum og útlimum um líkamsstöðu sína. 

Svimi er algengt MS-einkenni og getur tengst kasti en einnig verið viðvarandi einkenni. Svimi getur valdið óstöðugleika, fallhættu og ógleði. 

Rétt er að hafa í huga að svimi er algengt einkenni meðal fólks og getur því orsakast af mörgu öðru en MS.

 

Myndband um ósýnilegu einkennin

MS-félagið í Ástralíu, MS Australia, gaf út myndband um hin ósýnilegu einkenni MS í tilefni af alþjóðadegi MS, 30. maí. Myndbandið er með íslenskum undirtexta.

Í myndbandinu, sem er um 2 mínútur að lengd, talar Sonia, kona með MS, við okkur um hin margvíslegu ósýnilegu MS-einkenni. 

 

Framleiðandi myndbands: Mark Campell, framkvæmdastjóri stafrænnar miðlunar MS Australia

Íslenskur undirtexti: Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi MS-félagsins

 

Slóð á myndbandið á YouTube er hér

(til að fá upp íslenskan undirtexta, veldu stillingar hnappinn neðst hægra megin á myndskjánum, þar undir skjátextar og að lokum íslenska.)

 

Slóð á myndbandið á fésbókinni er hér

(til að fá upp íslenskan undirtexta, veldu stillingar hnappinn neðst hægra megin á myndskjánum og smelltu á litla táknið við hlið Myndatexti sem verður þá blár eða smelltu á cc-táknið efst hægra megin á myndskjánum.)

 

 

 

Heimildir:

Fræðslubæklingar MS-félagsins:

mstrust.org.uk

Aðalbjörg Albertsdóttir (orsakir svefnvanda)

Lyflækningadeild A7 LSH (einkenni þvagfærasýkingar)