Hjálpartæki létta notendum lífið og gera þeim kleift að hafa orku eða getu til að gera meira en ella. Það er því um að gera að líta jákvæðum augum á hjálpartæki og sem þægilegan ferðafélaga.

Sjá upplýsingar um verslanir með hjálpartæki, lista yfir hjálpartæki og viðgerðaþjónustu, ásamt lista yfir gagnlegar vefsíður og ýmsar greinar sem fólk hefur skrifað um snilldar hjálpartæki, hér í valstikunni til hægri.

 

Mörgum þykir þó erfitt að horfast í augu við að þurfa að nota hjálpartæki. Sumir þurfa jafnvel að gefa sér tíma til að venjast tilhugsuninni áður en sótt er um hjálpartæki eða eftir að það er komið í hús þar sem þeir telja að hjálpartækjanotkun staðfesti að þeir hafi beðið ósigur gagnvart framgangi sjúkdómsins. Svo vilja einhverjir ekki nota hjálpartæki vegna þess að þeir óttast fordóma eða eru feimnir við að sýna sig til dæmis með göngugrind, í hjólastól eða á rafskutlu.

Allt eru þetta eðlilegar hugsanir. Best er að gefa sér þann tíma sem þarf til að komast yfir „hjallann“ með því að vega og meta kosti þess að nota hjálpartæki. Flestum, ef ekki öllum, finnst hið daglega líf mun þægilegra þegar þeir eru komnir með hjálpartæki við hæfi.

hjalpartaeki

Dæmi um hjálpartæki eru ökklaspelkur sem eru mjög hentugar sem stuðningur fyrir þá sem draga fót/fætur við gang. Þær falla vel að fæti og sjást því ekki undir buxum en geta lagað göngulag til muna, lengt göngugetu og forðað ójöfnu álagi á grind, vöðva og liðbönd. Þvagbindi fyrir konur og karla eru ósýnileg hjálpartæki sem gera búðarferðir og ferðalög mun afslappaðri og þægilegri þar sem ekki þarf alltaf að svipast um eftir salerni. Baðstóll eða –seta í sturtuna eykur öryggi. Léttur hjólastóll eða (litlar) rafskutlur gera útivist og ferðalög mun þægilegri, ekki aðeins fyrir notandann heldur einnig fyrir samferðafólkið.

Hægt er að fá hjálpartæki til aðlögunar á heimili og vinnustað.

Gagnlegt getur verið að skoða vefsíður verslana og fyrirtækja sem selja hjálpartæki til að sjá hvaða hjálpartæki eru til. Hægt er að panta tíma hjá stoðtækjafræðingum í flestum verslunum sem selja hjálpartæki. Fyrir mörg hjálpartæki er hægt að sækja um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) að hluta eða öllu leyti. Hægt er að leita til sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa um val á hjálpartækjum og þeir geta einnig sótt um hjálpartæki til SÍ.

Víða erlendis er hægt er að leigja ýmis hjálpartæki til að gera ferðalögin auðveldari og þægilegri.