Sumum MS-greindum finnst erfitt að einbeita sér í langan tíma í einu og sumir eiga í erfiðleikum með að muna hvað þeir eru að gera eða segja ef þeir eru truflaðir í miðju verkefni. Það getur líka verið erfiðara fyrir þá að gera fleiri en einn hlut í einu eða taka þátt í samræðum á meðan til dæmis útvarp eða sjónvarp er í gangi.

Margir lýsa þeirri tilfinningu að þeim finnst þeir ekki bregðast eins hratt við og áður, þ.e. þeir geta gert sömu hluti og áður en það tekur þá lengri tíma og krefst meiri vinnu.

Niðurstöður rannsókna benda til þess að vinnsla upplýsinga geti tekið lengri tíma hjá fólki með MS en hjá heilbrigðum einstaklingum.

 

Góð ráð: Erfiðleikar með athygli og einbeitingu

Ef þú telur að þú missir þráðinn þegar þú ert truflaður á einhvern hátt:

  • Reyndu að forðast það sem truflar þig þegar þú ert að tala við einhvern eða ert á kafi í verkefni. Slökktu á útvarpi og sjónvarpi og einbeittu þér að því að gera aðeins eitt í einu.
  • Reyndu að fá eigin vinnuaðstöðu þar sem minna er um utanaðkomandi áreiti.
  • Lækkaðu eða slökktu á símanum á meðan þú ert að vinna að verkefni svo þú verðir ekki fyrir truflunum.

Ef þú átt erfitt með að einbeita þér í lengri tíma í einu:

  • Reyndu að taka tillit til þreytu og farðu ekki fram úr sjálfum/sjálfri þér.
  • Skipuleggðu daginn vel svo þú vinnir mikilvægustu verkefnin þegar þú ert úthvíld/ur.
  • Reyndu að gera ekki of miklar kröfur til þín og getu þinnar til einbeitingar þegar þú ert þreytt/ur.
  • Reyndu að hægja á þér – það liggur ekki alltaf svo mikið á.
  • Skipuleggðu hvíld.

 

Góð ráð: Erfiðleikar með stýrifærni, einsog að skipuleggja, framkvæma og meta verkefni

  • Vertu skipulagður/skipulögð. Skipulagning á daglegu lífi gefur þér betri yfirsýn, einbeitingu og minni (sjá fleiri góð ráð undir öðrum köflum).
  • Notaðu dagatal til að skipuleggja daginn og vikuna, jafnvel með maka þínum eða samstarfsfólki.
  • Segðu fjölskyldu þinni og vinum frá því að þér þyki best ef viðburðir eru skipulagðir fyrirfram, eins og heimsóknir, bæjarferðir o.þ.h.
  • Ekki hika við að biðja um aðstoð.
  • Gerðu áminningarlista og listaðu verkefnið upp skref fyrir skref. Það getur hjálpað þér í gegnum erfið verkefni. Ef þú átt til dæmis von á gestum, skráðu nákvæmlega hvað þú þarft að gera, hvað þarf að kaupa inn og hvenær.