Nær ómögulegt er að segja fyrir um hvernig sjúkdómsferli einstaklings kemur til með að þróast. Sjúkdómurinn er mjög einstaklingsbundinn og fáir ef nokkrir geta algjörlega samsvarað sig öðrum einstaklingum með MS.

Sumir einstaklingar fá strjál og væg köst, aðrir fá verri köst og tíðari. Í milda forminu virðist sjúkdómurinn liggja í dvala og engin köst koma fram, jafnvel svo árum skiptir. Aðrir geta fengið mörg slæm köst á stuttum tíma. Þegar líður á sjúkdómsferlið getur sumum einstaklingum versnað smám saman án þess að um köst sé að ræða (síðkomin versnun).

Með nýjum lyfjum sem hefta köst og framþróun sjúkdómsins er hins vegar ástæða til bjartsýni. Hjá mörgum einstaklingum halda lyfin sjúkdómseinkennum alveg í skefjum eða draga verulega úr þeim.

Margir hafa væg eða engin einkenni eftir mörg ár með sjúkdóminn og enn fleiri lifa virku og sjálfstæðu lífi í mörg ár eftir greiningu.

Heilbrigður lífsstíll, regluleg hreyfing og endurnærandi svefn ásamt góðu og fjölbreyttu mataræði, getur haft jákvæð áhrif á þróun sjúkdómsferlisins. Of mikið álag eða stress getur aukið einkenni og jafnvel framkallað MS-köst.

HealthyLiving