Gönguerfiðleikar

Margir með MS eiga við einhvers konar gönguerfiðleika að stríða. Hjá sumum var það jafnvel einkennið sem rak þá til læknis eða í sjúkraþjálfun fyrir greiningu.

Gönguerfiðleikar í MS geta helst stafað af skyntruflun og dofa, sem skerðir stöðuskyn einstaklingsins, sjóntruflunum, jafnvægisleysi, ósamhæfðum hreyfingum, skjálfta, máttleysi eða skertum krafti í ganglimi/-limum, yfirleitt í mjöðm eða ökkla.

Einnig getur aukin vöðvastífni eða „spasticitet“ valdið því að fótur leitar niður um ökkla og truflað göngu. Þá getur stutt ganga verið í lagi en ekki þegar gangan lengist. Þá getur til dæmis annar fóturinn farið að „dragast aftur úr“ eða að einstaklingnum finnst hann ekki lengur ráða við stjórn fótarins.


Göngutruflanir geta þó stafað af öðru en MS, eins og öðrum sjúkdómum, slitnum liðþófum, slökum liðböndum eða mislöngum fótum. 

Gangtruflanir eru misjafnar meðal einstaklinga með MS. Þær geta komið fram í öðrum fæti eða báðum og verið mismiklar. Hjá sumum verður einkennið sjaldan áberandi, nema helst þegar viðkomandi er þreyttur, en hjá öðrum geta gönguerfiðleikar haft mikil áhrif á daglegt líf. 

Þegar einstaklingur fer að finna fyrir gangtruflunum á hann það til að styðja sig við veggi, húsgögn eða annað fólk. Þegar gangan fer að krefjast meiri áreynslu fer einstaklingurinn að þreytast við gönguna en þá er meiri hætta á því að hann hrasi eða detti og finni stoðkerfisverki í ökklum, hnjám, mjöðmum og mjóhrygg. Einstaklingurinn fer þá ósjálfrátt að taka hægari, meira hikandi og styttri skref.

 

Margir með gönguerfiðleika lýsa þeirri tilfinningu að hvert skref sé svo þungt að það sé eins og þeir dragi með sér sandpoka í hverju skrefi eða eins og segulstál togi til sín fæturnar svo erfitt sé að taka skrefin.

Aðrir finna fyrir það miklu máttleysi að þeir ná illa eða ekki að lyfta fæti eða þá að þeir treysta því ekki að stíga í fótinn því þeir óttast að missa undan sér fótinn og detta. Sumir draga fótinn eða fæturnar eftir gólfinu (drop foot), þeir „sletta“ eða „flapsa“ fótum eins og önd sé á göngu eða sveifla fæti/fótum til hliðar við gang til að reka tærnar ekki í. 

Einhverjum finnst erfiðara að ganga þegar þeir reyna að gera aðra hluti á sama tíma.

 

Meðferð og góð ráð

Fólk með gönguerfiðleika ætti alltaf að leita sér aðstoðar sem fyrst og fá ráðleggingar til að bæta líkamsstöðu og gang svo koma megi í veg fyrir mögulegan stoðkerfisvanda síðar meir. Fyrst er að komast að því hvað veldur gönguerfiðleikunum og á grundvelli þess finna bestu lausnina.

  • Taugalæknar, og jafnvel heimilislæknar, geta greint vandann og ráðlagt um meðferð eða úrlausn.
  • Sjúkraþjálfarar geta einnig greint vandann ásamt því að veita upplýsingar og gefa góð ráð um æfingar, líkamsstöðu og hjálpartæki. Þjónusta sjúkraþjálfara fellur undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands, sjá hér.
  • Til eru ökklaspelkur til stuðnings, sem létta gang, auk gönguhjálpartækja, s.s. göngustafir, hækjur eða göngugrindur. Sjá upplýsingar um verslanir með gönguhjálpartæki hér.
  • "Göngupillan" Fampyra hjálpar í einhverjum tilfellum, sjá hér.
  • Sum lyf geta dregið úr þreytu, spasma og verkjum en á móti geta sumar aukaverkanir lyfjanna valdið (meira) máttleysi.
  • Einhverjir gætu þurft að íhuga að hætta að keyra bíl. Ferðaþjónusta stendur til boða í flestum tilfellum.
  • Hugænar æfingar geta þjálfað líkamlega færni:
    • Beindu hugsun þinni að því sem þú ætlar að gera – sjáðu fyrir þér hreyfinguna áður en þú framkvæmir hana.
    • Tölvuleikir og/eða sýndarveruleikaleikir geta hjálpað til við að þjálfa heilann og bæta jafnvægi. Sjá myndbönd til útskýringar hér  (spænskt tal en enskur texti) og hér.
    • Tónlist og taktmælar geta hjálpað til við ná upp jöfnum gönguhraða og bætt göngulag.
    • Léttar æfingar, eins og jóga, geta aukið styrk og dregið úr þreytu.
  • Athugaðu hvort eitthvað í umhverfi þínu getur truflað göngu eða verið þér hættulegt, eins og lausar mottur.
  • Flýttu þér hægt!

 

Talaðu um einkenni þín við aðra einstaklinga með MS. Þú ert ekki ein/n um að finna fyrir göngutruflunum. Það er ótrúlegt hvað margir luma á góðum ráðum.

 

Góð ráð frá MS-fólki

  • 1. Drop fótaspelkur, frá Stoð eða Össur - tilbúnar eða sérsmíðaðar eru nauðsyn fyrir mig. 
    2. Fampyra. 
    3. Það versta sem ég geri er að gera ekki neitt. Reyna að halda styrk í fótleggjum með því að ganga eins mikið og mögulegt er. Góður sjúkraþjálfari sem æfir gönguna hjá viðkomandi er nauðsynlegur.
    4. Ég vil frekar nota staf innandyra heldur en að styðja við veggina, þannig geng ég meira og veggir verða ekki kámugir.
  • Ég hef alltaf samanbrjótanlegan göngustaf með mér þegar ég fer út og geymi hann í töskunni minni. Þá er það ekki áberandi að ég sé með göngustaf en ef ég verð þreytt þá er gott að nota hann.
  • Hópþjálfunin hjá Styrk er frábær til að styrkja mann.
  • Ég er búin að vera með MS-greiningu í 35 ár og minn veikleiki eru gangtruflanir. Hendur og sjón virka vel. Ég er með máttarminnkun í hægri fæti. Veikleiki í hægri mjöðm og ökkla. Ég er einnig með verki og dofa í báðum fótum. Ég er oftast verkjalaus að morgni en verkir og dofi eykst þegar líður á daginn. Ég nota oft eina hækju, stundum tvær þegar ég þarf að fara eitthvað lengra. Ég er nýbúin að fá mér göngugrind svo ég geti gengið lengra. Það sem mér finnst reynast best til að takast á við gangtruflanir og verki er að stunda reglulega hreyfingu, gera æfingar og teygjur. Viðhalda vöðvastyrk í fótum. Mjög mikilvægt er fyrir mig að ganga eins mikið og ég get. Þess vegna nota ég gönguhjálpartæki og fékk leiðbeiningar hjá sjúkraþjálfaranum mínum hvernig ég gæti bætt göngulagið og gengið sem réttast. Það er verst að sitja lengi. Ég tek lyfið Pregabalin(taugaverkjalyf) við verkjum.
  • Ég fer á göngu á hverjum degi mislangar göngur reyndar en ég verð alveg ómöguleg ef ég sleppi því :-)
  • Reyni eftir getu að labba sem mest, annars finnst mér ég svo stirð eitthvað.
  • ....

 

 

Lumir þú á góðum ráðum um hvernig takast megi á við göngutruflanir, endilega deildu þeim með öðrum með því að senda tölvupóst á netfangið msfelag@msfelag.is.

 

Fróðleiksmolar:

  • Styrktarþjálfun

    Hjá Styrk, sjúkraþjálfun, miða æfingar að því að efla styrk, færni, jafnvægi og úthald. Þjálfunin fer fram í tveimur hópum sem miða við getu og færni einstaklinganna. Þjálfunin er þó einstaklingsmiðuð.

    Mjög góð aðstaða er hjá Styrk, bæði til hópþjálfunar og æfinga í tækjasal. Öllum er frjálst að koma og taka prufutíma eða fylgjast með. Æfingarnar þykja mikil áskorun, einstaklega fjölbreyttar og skemmtilegar. Enginn tími er eins. Sjá nánar hér.