Spasmi 

 

Spasmi:

Spasmar felast í auknum ósjálfráðum vöðvasamdrætti (auknum vöðvatónus) sem getur orsakast af þreytu, álagi, sýkingum, verkjum og öðrum þáttum, eins og líkamsstellingu, og valda stundum sársauka.

Fjögur afbrigði spasma (*):

  • Flexor spasmi: Veldur því að útlimur beygist, t.d. fóturinn hreyfist upp í átt að líkamanum.
  • Extensor spasmi: Það teygist eða réttist úr útlim t.d. spennist fótur frá líkamanum.
  • Adductor spasmi: Útlimur dregst inn að líkamanum svo erfitt er að aðskilja fætur/skilja lendar að.
  • Spasmi sem hefur áhrif á búkinn: Bakið eða búkurinn spennist frá rúmi eða stólbaki.

 

Vöðvaspenna:

Aukinn vöðvasamdráttur veldur vöðvaspennu sem veldur erfiðleikum við hreyfingu handa og fóta og dregur úr þreki og jafnvægi. Erfitt getur reynst að beygja útlim um liðamót og jafnvel getur vöðvi fests í ákveðinni stöðu.

Vöðvaspenna getur meðal annars valdið vandræðum við gang og með tal, með kyngingu og með stjórn þvagblöðru. Sumir nýta sér hins vegar stífleikann til að hjálpa sér við gang eða til að fara á milli stóls og rúms.

 

Spasmar og vöðvaspenna geta verið í hvaða vöðva/vöðvum líkamans sem er og staðið yfir í stuttan eða lengri tíma.

 

Orsök spasma og vöðvaspennu:

Það sem gerist þegar við til dæmis beygjum handlegg er að biceps-vöðvinn (vöðvinn framan á handleggnum) styttist eða herpist og samtímis lengist eða slaknar á triceps-vöðvanum sem er aftan á handleggnum.

Ef MS-skemmdir valda truflunum á taugaboðum á milli heila og vöðva geta báðir vöðvarnir haldist í styttingu, þ.e. annar vöðvinn slakar ekki á, sem veldur því að handleggurinn stífnar og erfitt getur reynst að hreyfa hann. Truflun á taugaboðum getur einnig valdið ofvirkni vöðva og ósamhæfðum hreyfingum sem leiða til spasma.

 

Spasmar og vöðvaspenna geta haft áhrif á önnur einkenni eins og:

  • Verki – Ef verkir fylgja þá er besta ráðið að breyta um stöðu, ef hægt er, gera teyjuæfingar og/eða taka verkjalyf.
  • Máttleysi – Vöðvar geta verið stífir og/eða máttlausir, þess vegna samtímis í sama útlim. Besta meðferðin er að minnka stífnina að því marki að hún komi að gagni við að bæta upp máttleysið svo viðkomandi geti nýtt sér stífleikann t.d. við að standa.
  • Klónus, sem eru hraðir, taktfastir vöðvakippir sem koma oftast fram í fótum um ökkla. Besta ráðið til að reyna að losna við þá er að hrista fætur, standa í þá eða halla sér fram með þungann á fótunum.

 

Meðferð og góð ráð:

Gulls ígildi og góð forvörn er að hreyfa sig eins og hægt er, t.d. með gönguferðum eða sundi, gera teygjur og æfingar daglega og gefa sér tíma í djúpslökun. Á vefsíðunni fá finna fjölbreyttar æfingar hér.

Meðhöndlun felst hins vegar í sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og lyfjameðferð. Athugið að nú fellur greiðsla vegna sjúkraþjálfunar og iðjuþjálfunar undir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga.

Iðjuþjálfi eða sjúkraþjálfari geta mögulega aðstoðað við að yfirfara aðstæður á heimili eða á vinnustað með tilliti til líkamsstöðu við vinnu og hvíld og ráðlagt um notkun hjálpartækja ef á þarf að halda.

  • Hvers kyns hreyfing, sjúkraþjálfun og teygjur eru grundvallaratriði í meðferð ásamt réttri líkamstöðu í hvíld og við vinnu.
  • Mikilvægt að átta sig á hvað getur valdið vöðvaspennu og spasma.
  • Forðast þreytu og passa upp á að fá endurnærandi svefn.
  • Athuga hvort líkamlegt eða andlegt álag sé of mikið.
  • Athuga hvort um sýkingu sé að ræða.
  • Er sjúkraþjálfun ábótavant ?
  • Gera / bæta við teygjuæfingar eða eigin æfingar.
  • Gönguhjálpartæki geta komið mörgum að gagni.
  • Magnesium og bananar.
  • Krampahamlandi lyf, t.d. Baclofen, Rivotril og Sifrol.  

 

Talaðu um einkenni þín við aðra einstaklinga með MS. Þú ert ekki ein/n um að fá spasma eða þjást af vöðvaspennu. Það er ótrúlegt hvað margir luma á góðum ráðum.

 

Góð ráð frá MS-fólki:

  •  

 

Lumir þú á góðum ráðum um hvernig takast megi á við spasma of vöðvaspennu, endilega deildu þeim með öðrum með því að senda tölvupóst á netfangið msfelag@msfelag.is. 

Fróðleiksmolar:

 

 

Mynd