Sumir einstaklingar eiga það til að hegða sér á óviðeigandi hátt. Þeir virðast missa tilfinninguna fyrir almennum félagslegum viðmiðum. Dæmi um það er til dæmis skortur á tillitsemi við aðra, tillitsleysi gagnvart tilfinningum og þörfum annarra og skilningsleysi á almennu velsæmi í félagsskap annarra.

Einstaklingurinn getur til dæmis komið með óviðeigandi athugasemdir eða truflað samtöl, eitthvað sem hann hefði aldrei gert fyrir greiningu.

Í þessum tilfellum áttar einstaklingurinn sig ekki á óviðeigandi hegðun sinni né hefur skilning á hvernig hegðun hans virkar á aðra.

Sumir með MS hafa bæði skerta sjúkdómsvitund og hömlulaust háttalag. Aðrir eru meðvitaðir um óviðeigandi háttalag sitt en hafa ekki tök á að stöðva óhefta hegðun sína.

 

Góð ráð:

  • Nauðsynlegt er að ættingjar og vinir þekki einkennin til að minnka eða forðast misskilning.
  • Munið að þessi hegðun er vegna sjúkdómsins. Einstaklingnum er ekki sjálfrátt og ekki dugar að segja honum að hætta þessari hegðun.
  • Við tilteknar aðstæður getur þó stundum hjálpað að benda einstaklingnum á að háttsemi hans sé óviðeigandi.
  • Ekki skammast. Það hjálpar ekki og kannski verða það aðeins skammirnar sem einstaklingurinn man en ekki ástæða þeirra.
  • Talið um vandamálið við aðra sem þið treystið. Það gæti gert vandamálið minna viðkvæmt og auðveldara að vinna með.
  • Árangursríkt getur verið að ræða málin við lækni, sálfræðing eða aðra fagaðila.