Skyntruflanir

Skyntruflanir geta komið fram í hvaða hluta líkamans sem er. Þær geta tekið yfir lítið eða stórt svæði, verið t.d. eingöngu í andliti eða á handleggjum, tekið yfir aðra hvora hlið líkamans eða verið um allan líkamann. Skyntruflanirnar geta verið til staðar hvort sem húð er snert eða ekki. Skynjunin getur verið minnkuð, aukin, breytt eða öðruvísi en eðlilegt er. Skyntruflanir geta verið vægar, frá dofa sem vart truflar viðkomandi, upp í illþolanlegan verk.

Skyntruflanir geta verið margvíslegar; náladofi, tilfinningaleysi í húð, ofurnæmni, breyting á hitaskynjun í húð, svo sem brunatilfinning (eins og húðsvæðið sé yfir gasloga) eða kuldi (innri kuldi, beinverkir, hand- og fótakuldi), kláði/ofsakláði, verkur eða þyngsli fyrir brjósti, rafstraumur og almenn óþægindi í húð (til dæmis eins og haft sé gúmmíband um úlnlið, ökkla eða brjóstkassa).

 

Skynjun frá húð, við það eitt að strjúka hendi eftir húðinni, getur brenglast og gefið röng skilaboð. Einnig getur hita- og kuldaskyn truflast. Gæta þarf varúðar hvort sem skrúfað er frá vatni eða tekið um heita potta, diska, bolla eða annað viðlíka. Sama á við um kælipoka sem settir eru á húð.

Tilfinningin frá húðinni getur einnig verið óþægileg, jafnvel sársaukafull, við það eitt að fara í bað eða fá sand á milli tánna. Sumir upplifa þá tilfinningu að vera eins og með sandkorn í skónum þegar þeir ganga eða sem að þeir fletti blöðum með vettlinga á höndum þegar tilfinning í fingrum er lítil eða brengluð.

Í upphafi sjúkdómsferlis geta skyntruflanir verið hluti af eða eitt einkenna í kasti sem hverfa þegar kastið gengur yfir. Síðar í sjúkdómsferlinu geta þær orðið meira viðvarandi og þá átt það til að vera breytilegar í styrk og eðli.

 

Meðferð og góð ráð:

Eins og fyrr segir geta skyntruflanir verið tímabundnar í lengri eða skemmri tíma eða verið viðvarandi. Á meðan þær eru þolanlegar og hafa ekki mikil áhrif á daglegt líf er lyfjameðferð sjaldnast reynd. Sumum dugar að breyta venjum, eins og að hafa fyrir reglu að taka aldrei á pottum nema með ofnhönskum, aðrir lina óþægindi, eins og náladofa, með því að setja volga grjónapoka yfir dofna svæðið og enn aðrir nota íhugun, slökun eða öndunaræfingar til að útiloka einkennin,  sjá t.d. hér og hér.

Hinsvegar getur lyfjameðferð með taugaverkjalyfjum reynst nauðsynleg ef skyntruflanirnar hafa þeim mun meiri áhrif á líðan einstaklingsins og daglegt líf.

Í einhverjum tilfellum virðist því miður fátt annað til ráða en að bíta á jaxlinn og vona að óþægindin gangi fljótt yfir.

  • Iðjuþjálfar geta oft komið með góðar ábendingar og ráðlagt um hjálpartæki til að auka öryggi og þægindi.
  • Ef skyntruflanirnar koma fram við snertingu, hita eða einfaldlega með því að ganga úti í blæstri, gætir þú reynt að forðast orsakavaldinn, t.d. með því að klæðast fötum sem ekki þrengja að, hafa kælipoka tilbúinn í frystiskápnum eða nota trefil til að skýla andliti og hálsi þegar vindar blása.
  • Það getur verið gagnlegt að breyta venjum og rútínu. Spáðu í umhverfi þitt og hvernig þú gerir hlutina – Má ekki  prófa að breyta einhverju? Þú gætir t.d. prófað að nota öðruvísi penna, bolla eða hnífapör sem auðveldara er að halda á. Getur nýr stóll eða púði hjálpað þér til að líða betur?
  • Skyntruflanir geta valdið erfiðleikum í kynlífi. Slíkar truflanir skipta miklu máli og er full ástæða til að bera þær undir lækni eða hjúkrunarfræðing. Sjá fróðleikssíðuna um kynlíf og MS eða bæklinginn Daglegt líf með MS – um kynlíf, bls. 17-18.
  • Einhverjir gætu þurft að íhuga að hætta að keyra bíl. Ferðaþjónusta stendur til boða í flestum tilfellum.
  • Talaðu um einkenni þín við aðra einstaklinga með MS. Þú ert ekki ein/n um að finna fyrir skyntruflunum. Það er ótrúlegt hvað margir luma á góðum ráðum.

 

Góð ráð frá MS-fólki:

  • Það hefur gagnast mér að kæla húðina með kælipoka í stutta stund eða bera rakakrem á húðina og opna glugga eftirá. Til að minka sviða og bruna tilfinningu sérstaklega í fótum reyni ég að vera mikið berfætt. 
  • Ég fæ oft ofurviðkvæmni í fætur. Það hefur reynst vel að gera teygjuæfingar, það er sárt að gera æfingarnar en það léttir á skyntruflunum. Einnig nota ég gaddabolta/rúllu og nudda með þá staði sem eru að trufla mig.
  • Fæ stundum mikinn kláða í húðina, stundum það mikinn að mig langar að fá mér eitthvað hart til að klóra mér með. Besta ráðið fyrir mig er ískaldur þvottapoki sem hvílir á um stund. Ég fæ margar skrýtnar tilfinningar t.d. eins og séu að myndast hnútar eða kúlur í lærvöðvunum ég fann loks ráð við því, slá nokkrum sinnum þettings fast á blettinn þá slaknar. Það er svo margt í gangi að ég reyni ekki að segja frá held mér yrði ekki trúað.
  • Ég hef fengið svokallaða "second skin"-tilfinningu, þar sem ég hef ekki tilfinningu fyrir snertingu á svæði. Svo hefur mig klæjað voðalega en það gagnast ekkert að klóra, svæðið verður bara rautt og mig klæjar enn. Það hefur hjálpað fyrir mig að bera aloa vera á svæðið þar sem mig klæjar. Það hefur alla vega róað húðina nóg til þess að ég gæti sofnað.

 

Lumir þú á góðum ráðum um hvernig takast megi á við hinar ýmsu skyntruflanir, endilega deildu þeim með öðrum með því að skrifa á netfangið msfelag@msfelag.is.

 

 Fróðleiksmolar: