Lög MS-félags Íslands, samþykkt á aðalfundi 10. maí 2022
- tóku gildi 22. júlí 2022 við skráningu sem félag til almannaheilla

 

1. grein

Nafn félagsins er MS-félag Íslands fta. (The MS-Society of Iceland). Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagið starfar samkvæmt lögum nr. 110/2021 um félög til almannaheilla. Félagið er aðili að Öryrkjabandalagi Íslands (ÖBÍ) svo og alþjóðlegum samtökum MS-félaga.


2. grein

Tilgangur félagsins er að vinna að velferð fólks sem haldið er MS-sjúkdómnum með því að veita því og aðstandendum þess stuðning og stuðla að öflugri félags- og fræðslustarfsemi. Félagið er málsvari félaga gagnvart hinu opinbera og öðrum aðilum.


3. grein

Félagar geta verið fólk með MS-sjúkdóminn, aðstandendur þess og þau sem áhuga hafa á málefnum félagsins. Ákvörðun um félagsaðild samkvæmt umsókn þar um er að öllu jöfnu í höndum starfsfólks félagsins.
Félagar bera ekki persónulega ábyrgð á skuldum eða öðrum skuldbindingum félagsins nema með félagsgjaldi sínu.

4. grein

Félagið aflar tekna með árgjöldum félaga, gjöfum og styrkjum sem því kann að áskotnast ásamt sölu á vörum og þjónustu. Tekjur félagsins renna til almennrar félagsstarfsemi, fræðslu, stuðnings, reksturs og hagsmunagæslu.

5. grein

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins og skal hann haldinn innan sex mánaða frá lokum reikningsárs ár hvert. Aðalfundur er löglegur sé til hans boðað með sannanlegum hætti með í það minnsta tveggja vikna fyrirvara og skal dagskrá aðalfundar tilgreind í fundarboði. Framboð til stjórnar og nefnda skal tilkynna til skrifstofu eigi síðar en viku fyrir aðalfund.
Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa félagar sem eru skráðir í félagið eigi síðar en viku fyrir aðalfund og hafa greitt árgjald til félagsins. Hver atkvæðisbær félagi hefur eitt atkvæði og ræður afl atkvæða úrslitum mála, nema annars sé getið í lögum félagsins.

6. grein

Á aðalfundi skulu þessi mál tekin til meðferðar:
a) Kosning fundarstjóra og fundarritara.
b) Skýrsla stjórnar.
c) Endurskoðaðir ársreikningar félagsins lagðir fram.
d) Umræður og afgreiðsla á skýrslu stjórnar og ársreikningum.
e) Upphæð árgjalds ákveðin.
f) Lagabreytingar.
g) Kosning stjórnar, fyrsta og annars varastjórnarmanns.
h) Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
i) Kosning aðalfundarfulltrúa og varamanna á aðalfund ÖBÍ skv. lögum ÖBÍ.
j) Kosning nefnda.
k) Önnur mál

7. grein

Boða skal til aukaaðalfundar svo fljótt sem auðið er ef meirihluti stjórnar eða a.m.k. tíundi hluti atkvæðisbærra félaga fer fram á það skriflega og leggur fram tillögu að dagskrá.

8. grein

Lögum félagsins má breyta á aðalfundi eða aukaaðalfundi með samþykki 3/4 hluta greiddra atkvæða. Tillögur til lagabreytinga skulu kynntar í fundarboði.

9. grein

Stjórn félagsins skipa 5 menn og 2 til vara; formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri, meðstjórnandi og tveir varamenn.
Allir stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára. Tveir til þrír stjórnarmenn eru kosnir hverju sinni og einn varamaður.
Formaður er kosinn sérstaklega, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.

10. grein

Stjórnarseta skal ekki vara lengur en 8 ár samfleytt og verður fólk kjörgengt á ný að ári. Fyrri stjórnarseta skerðir ekki formannstíð. Formaður skal að jafnaði ekki sitja lengur en 8 ár. Aðalfundi einum er heimilt að ákveða hvort greiða skuli stjórnarlaun.

11. grein

Stjórnin ræður málefnum félagsins milli aðalfunda. Hún tekur nánari ákvarðanir um starfsemi þess þ.m.t. ráðningu framkvæmdastjóra og ber ábyrgð á fjárreiðum. Á grundvelli bókaðra samþykkta á stjórnarfundi getur hún skuldbundið félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns og gjaldkera nægileg til þess. Stjórnin getur þó veitt einum eða fleirum sameiginlega prókúru fyrir félagið. Til meiriháttar ákvarðanatöku, svo sem kaupa, byggingu eða sölu fasteigna, skal ávallt boða til félagsfundar og skal til hans boðað á sama hátt og til aðalfundar. Ræður afl atkvæða úrslitum á slíkum fundum.

12. grein

Formaður boðar til stjórnarfunda, sem halda skal svo oft sem þurfa þykir. Stjórnarfund skal einnig halda ef í það minnsta tveir stjórnarmenn krefjast þess. Stjórnarfundur er löglegur og ályktunarbær ef þrír stjórnarmenn eða varastjórnarmenn sækja fundinn hið fæsta. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar.

13. grein

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Reikningarnir skulu endurskoðaðir af tveimur skoðunarmönnum sem aðalfundur kýs til eins árs í senn og skal annar þeirra vera löggiltur endurskoðandi.

14. grein

Komi fram tillaga um slit félagsins skal farið með hana eins og lagabreytingatillögu. Þó fæst hún eigi afgreidd nema a.m.k. fimmtungur félaga mæti til aðalfundar. Ef ekki næst tilskilin fundarsókn skal boða til framhaldsaðalfundar um tillöguna innan mánaðar. Sá fundur getur afgreitt tillöguna án tillits til fjölda fundargesta. Verði félagið lagt niður skal á sama fundi ráðstafa eignum þess í samræmi við tilgang félagsins.

15. grein

Þessi lög voru þannig samþykkt á aðalfundi MS-félagsins 10. maí 2022 og taka gildi við skráningu félagsins í almannaheillafélagaskrá og falla þá jafnframt eldri lög úr gildi.

 

Stefnumótun

Stefnumótun, 2023

Stefnumótun, vorið 2018

 

Fundargerðir aðalfundar 

Aðalfundur 2024

Aðalfundur 2023

Aðalfundur 2022

Aðalfundur 2021

Aðalfundur 2020

Aðalfundur 2019

Aðalfundur 2018

Aðalfundur 2017

Aðalfundur 2016

 

Áskoranir félagsins

Áskorun til heilbrigðisráðherra vegna greiðsluþáttöku fyrir sjúkraþjálfun, 23. febrúar 2018