Sjúkdómsgerðir MS eru mismunandi en sjúkrasaga einstaklings gefur helst vísbendingu um sjúkdómsgerð hans. Langflestir einstaklingar greinast með MS í köstum, þar sem einkenni koma og fara og hvað flest og kröftugustu lyfin eru til við. 

 

MS í köstum

(Relapsing remitting MS/RRMS)

MSiKostum

Um 85% MS-sjúklinga upplifa tímabundna versnun með bata í kjölfarið, svo kallað MS í köstum, sem gerir það að algengustu sjúkdómsgerð MS. Flestir greinast með þessa gerð sjúkdómsins.

Ný einkenni koma þá fram eða viðvarandi einkenni versna. Eftir köstin verður fullur bati eða að einhver einkenni sitja eftir, sem þó eru þannig að hægt er að segja að líðan og ástand sé nokkuð stöðugt á milli kasta.

Sjúkdómsgerðin er mjög ófyrirséð. Sé sjúkdómsvirkni mikil geta komið nokkur köst á ári en það þekkist líka að mörg ár líði á milli kasta. 

Margs konar lyf eru til sem koma í veg fyrir köst, fækka þeim eða stytta tímann sem þau standa yfir, jafnvel að þau haldi sjúkdómnum alveg í skefjum. 

 

Síðkomin versnun MS

(Secondary progressive MS/SPMS)

sidkominversnun

Þessi sjúkdómsgerð byrjar með köstum en breytist síðan yfir í óreglulega framrás með versnun einkenna þar sem stöku kast og minniháttar bati getur átt sér stað. Síðan versnar einstaklingnum smám saman án greinilegra kasta. Það yfirgangstímabil tekur mislangan tíma. Hjá sumum versnar sjúkdómurinn með hægum stíganda á meðan öðrum versnar hraðar.

Lyf við þessari gerð sjúkdómsins eru ekki enn komin á markað (staðan í árslok 2018) en jákvæðar rannsóknarniðurstöður hafa nýlega verið kynntar. Fylgist með því nýjasta hér. Hægt er að meðhöndla einstaklinginn með MS-lyfjum á meðan hann fær köst.

Vel er hugsanlegt að árangursrík meðhöndlun með lyfjum á meðan einstaklingur er með sjúkdómsgerðina MS í köstum komi í veg fyrir síðkomna versnun.

 

Stöðug versnun MS

(Primary progressive MS/PPMS)

samfelldaukning

Sjúkdómsferlið fer hægt af stað og lýsir sér frá byrjun í vaxandi einkennum án hléa eða bata. Um þriðjungur verður þó var við stöku kast með hléum og tímabundnum minniháttar bata. Ferlið getur tekið langan tíma eða náð hámarki á einhverjum tímapunkti og haldist stöðugt eftir það.

Einstaklingar sem greinast með þessa sjúkdómsgerð eru nokkuð eldri en þeir sem eru með MS í köstum. Um 10% einstaklinga með MS eru með þessa gerð sjúkdómsins.

Fyrsta lyfið við þessari gerð sjúkdómsins er nú væntanlegt (staðan í árslok 2018).

 

Versnun MS með köstum

Progressive relapsing MS/PRMS

versnunmedkostum

Þessi sjúkdómsgerð einkennist af því að einstaklingur fær köst sem hann jafnar sig misvel af. Milli kasta er líka um hæga versnun að ræða.

Þessi sjúkdómsgerð er algengari hjá þeim sem greinast eftir fertugt. Talið er að um 5% einstaklinga með MS séu með þessa gerð sjúkdómsins.

 

Vægt MS

(Benign MS)

Hér er um mildasta form MS að ræða þar sem einstaklingur fær stöku milt kast með löngu millibili án þess að fá varanlega skerðingu. Margir upplifa þó versnun á sjúkdómnum eftir því sem árin líða.

 

Einkenni fyrir greiningu

(Clinically isolated syndrome (CIS))

Heitið CIS er notað yfir þá sem fá eitt kast með einkennum dæmigerðum fyrir MS og vara í að minnsta kosti 24 klukkustundir. Sumir geta fengið aðeins þetta eina einangraða kast sem gengur yfir og síðan ekki söguna meir en fyrir aðra er þetta byrjun á MS-sjúkdómnum, sér í lagi hafi þeir fleiri en einn bólgublett á segulómun og bólgumerki í mænuvökva.

 

MS í börnum (e. childhood MS / pediatric MS)

Greining MS í börnum og unglingum hefur færst í vöxt á undanförnum árum með betri greiningartækni og meiri þekkingu á sjúkdómnum. Nær öll ungmenni greinast með MS í köstum þar sem einkenni koma og fara.

Mjög erfitt og tímafrekt er að greina MS í börnum þar sem einkenni geta líkst einkennum annarra sjúkdóma.