Talerfiðleikar

 

Talerfiðleikar eru mismunandi en fyrir flesta eru vandamálin tiltölulega væg og viðráðanleg. Orsök talerfiðleika geta verið MS-blettir á þeim svæðum heilans sem stýra málskilningi og tali eða sködduð taugaboð til andlits- háls- og brjóstvöðva, m.a. til lungna, þindar, raddbanda, vara, tungu og nefhols.

 

Talerfiðleikar eru helst þvoglumælgi eða óskýrt tal og að raddstyrkur og radd- eða taltaktur truflast.

Málstol er hins vegar sjaldgæft einkenni MS en það er þegar einstaklingur á erfitt með að finna orð eða skilja aðra. Viðkomandi getur átt í erfiðleikum með að skilja talað mál eða fylgjast með flóknum samræðum, lesa, tala og skrifa. Hann tjáir sig á annan hátt en áður, en hugræn færni hans er óbreytt, að öðru óbreyttu.

Talerfiðleikar aukast ef einstaklingur er undir álagi, finnur fyrir MS-þreytu eða máttleysi og hjá þeim sem eru með lengra genginn sjúkdóm. Einnig geta einkenni versnað þegar einstaklingur er í MS-kasti.

 

Meðferð og góð ráð:

Þjálfun andlitsvöðva og öndunar vill oft gleymast en er ekki síður mikilvæg en þjálfun annarra vöðva.

  • Talmeinafræðingur getur veitt góða aðstoð
  • Hægt er að mæla öndun/lungnarýmd til að kanna ástand lungna og þindar. Framkvæmt af t.d. sjúkraþjálfara á LSH, Fossvogi
  • Bæta má grunnöndun með því að æfa daglega með Pep-öndunarflautu til að þenja út lungnablöðrurnar. Pep-flautu má fá í gegnum Sjúkratryggingar Íslands eða kaupa t.d. í apóteki eða hjá Rekstrarvörum.
  • Gera andlits- og raddæfingar, sjá m.a. hér (neðarlega á síðu).
  • taka tónstigann er ágætis æfing en eins að spila á munnhörpu.
  • Gera öndunaræfingar

 

Talaðu um einkenni þín við aðra einstaklinga með MS. Þú ert ekki ein/n um að finna fyrir talerfiðleikum. Það er ótrúlegt hvað margir luma á góðum ráðum.

 

Meðferð og góð ráð fyrir aðstandendur og vini einstaklinga með málstol:

  • Sýndu þolinmæði og gefðu viðkomandi nægan tíma til að tjá sig
  • Notaðu stuttar setningar
  • Notaðu látbragð og svipbrigði
  • Leggðu áherslu á lykilorð eða aðalatriði
  • Prófaðu að teikna eða skrifa
  • Notaðu bendingar til að sýna það sem þú talar um

 

Góð ráð frá MS-fólki:

  • Segðu fólki að þú eigir við talerfiðleika að stríða, svo forða megi fordómum, en einhverjir gætu dregið þá fljótvirknislegu ályktun að eitthvað væri að þér andlega ef þú átt erfitt með mál.

 

Lumir þú á góðum ráðum um hvernig takast megi á við talerfiðleika, endilega deildu þeim með öðrum með því að senda tölvupóst á netfangið msfelag@msfelag.is.

Góðu ráðin verða birt og varðveitt hér – aðgengileg og öllum til góðs. 

 

 

Mynd