Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Rannsóknir benda til að MS-skemmdir á ákveðnum stöðum í heila geti valdið þunglyndi. Sýnt hefur verið fram á að meira er um þunglyndi hjá einstaklingum með MS borið saman við einstaklinga með aðra alvarlega sjúkdóma.
Þunglyndir einstaklingar geta upplifað uppgjöf og litla lífslöngun, haft áhyggjur, verið með sjálfsásakanir og sektarkennd. Þeim finnst þeir vera lítils virði og geta verið í sjálfsvígshugleiðingum.
Þunglyndi getur líka komið fram sem reiði gagnvart öðrum. Einstaklingurinn getur átt erfitt með að fá góðan og ótruflaðan nætursvefn og hann vaknar upp áður en hann er úthvíldur. Hann fær þannig ekki nauðsynlegan endurnærandi nætursvefn. Þreyta og áhugaleysi er líka einkennandi fyrir þunglyndi og bitnar óhjákvæmilega á félagslegri virkni viðkomandi.
Anna hefur haft MS í 12 ár. Undanfarið hafa sjúkdómseinkenni hennar versnað. Hún getur séð um sig sjálfa heimavið en utan heimilis þarf hún aðstoð. Anna var sannfærð um að manni hennar og syni gæti ekki þótt vænt um hana eins og ástatt væri fyrir henni. Eiginmaður hennar sagðist elska hana ennþá en hún trúði honum ekki. Anna talaði aðeins um hvað hún myndi gera ef henni liði betur. Eftir samtöl við sálfræðing auk þunglyndislyfja horfir Anna nú frekar á möguleikana fremur en höftin. Nú trúir hún aftur á ást og væntumþykju fjölskyldu sinnar.
Sumir einstaklingar með MS virðast vera mjög kátir og áhyggjulausir, jafnvel ofurkátir, en ef þeir eru spurðir nánar um líðan sína viðurkenna þeir að á bak við kátt yfirbragð eða gleðigrímu sé að finna sorg og uppgjöf. Slíkt þunglyndi getur verið erfitt að koma auga á vegna þess hve falið það er en nánir ættingjar og vinir geta hjálpað til með því að segja frá raunverulegri líðan einstaklingsins.