Um allan heim vinna vísindamenn að því að finna lausn á ráðgátunni um orsök og eðli MS og þróa lyf og meðferðir. MS er enn ólæknandi sjúkdómur en miklar framfarir hafa þó orðið í meðhöndlun sjúkdómsins á síðustu árum.

Ný og kröftugri lyf eru komin fram sem gagnast þeim einstaklingum sem fá MS-köst. Lyfin bæði milda og seinka framgangi sjúkdómsins og hafa þau áhrif að köstum fækkar og einkenni þeirra verða vægari og vara skemur. Sjá nánar um MS-lyf hér til hliðar.

Erfiðara hefur reynst að þróa lyf sem virkar á þá einstaklinga sem upplifa einhverja skerðingu án þess að fá greinileg MS-köst. Fyrsta lyfið er þó væntanlegt (staðan í árslok 2016). Mikil áhersla er nú lögð á að rannsaka hvað veldur þessari versnun og á þróun nýrra lyfja eða meðferða sem gætu gagnast. Einnig er verið að rannsaka hvort eldri MS-lyf sem notuð eru við MS í köstum og lyf við öðrum sjúkdómum geti haft jákvæð áhrif. Sjá nánar fréttir af lyfjamálum og um rannsóknir hér til hliðar.

Vonir standa til þess að senn verði mögulegt að halda sjúkdómnum alveg í skefjum, jafnvel að endurnýja skemmt mýelín og að einstaklingur endurheimti einhverja tapaða getu. Er þá bæði horft til lyfja og möguleika þess að nota stofnfrumur. Sjá umfjöllun um stofnfrumurannsóknir.

Mismunandi er hvaða lyfjameðferð hentar hverjum og einum og taka þarf tillit til ýmissa þátta. Nauðsynlegt er að vega og meta hvort ávinningur af notkun lyfs vegi upp á móti áhættu eða hugsanlegum aukaverkunum. Einstaklingurinn þarf að vera meðvitaður um aukaverkanir en jafnframt um hvaða gagn lyfið getur gert fyrir hann. Sjá upplýsingar um PML-heilabólgu hér til hliðar.

Nýjar aukaverkanir geta komið fram í mörg ár eftir markaðssetningu lyfs og því er alltaf ákveðin áhætta við notkun nýrra lyfja. Það skýrir hvers vegna öflug lyf með erfiðar aukaverkanir eru ekki notuð við vægum MS. Nýjasta og kröftugasta lyfið er því ekki endilega það besta fyrir alla. Mörgum dugar veikari og gamalreyndari lyf til að halda sjúkdómnum í skefjum en að sjálfsögðu er eðlilegt að nota kröftug lyf við erfiðum sjúkdómi.

 

Hægt er að meðhöndla mörg MS-einkenni með góðum árangri, svo sem ofvirka þvagblöðru, spasma og vöðvaspennu, verki og þreytu. Til er lyf sem getur bætt göngugetu. Þá geta lyf verið nauðsynleg við svefnvanda og til að lækna sýkingar. Oft getur þjálfun, eins og sjúkraþjálfun, hjálpað og aukið lífsgæði auk þess sem sérhæfð endurhæfing getur skipt máli.

 MSlyf