Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Dofi er með algengustu byrjunareinkennum MS. Hann getur komið í stórum eða litlum hluta líkamans og varað í styttri eða lengri tíma.
Tilfinningin er einkennileg þegar komið er við dofin húðsvæði þar sem viðkomandi finnur minnkað skyn eða bara öðruvísi tilfinningu en venjulega.
Náladofi flokkast undir skyntruflanir og er talinn til taugaverkja.
Að vera dofinn í fótum er eins og að ganga á svampi sem getur aukið fallhættu. Þegar fingur eru dofnir getur verið erfitt að vinna fínvinnu en einnig getur verið erfitt að skrifa, klæða sig eða halda á bolla, hníf eða öðrum hlutum á öruggan hátt. Þá er hætta á að maður missi hluti úr höndum sér.
Mikill dofi í andliti getur aukið hættuna á að bíta í munnholdið eða í tunguna á meðan maður borðar eða tyggur. Eins getur dofi í einhverjum hluta líkamans aukið hættuna á því að brenna sig þegar komið er við heita hluti, eins og potta, eða ekki skynjað heita vatnið fyrr en of seint.
Dofi getur valdið erfiðleikum í kynlífi. Sjá fróðleikssíðuna um kynlíf og MS eða bæklinginn Daglegt líf með MS – um kynlíf, bls. 17-18.
Eins og fyrr segir getur dofi verið tímabundinn í lengri eða skemmri tíma eða verið viðvarandi. Á meðan hann er þolanlegur og hefur ekki mikil áhrif á daglegt líf er lyfjameðferð með taugaverkjalyfjum sjaldnast reynd.
Sem betur fer er ýmislegt hægt að gera til að vinna á móti dofanum og þeim aðstæðum sem hann skapar:
Talaðu um einkenni þín við aðra einstaklinga með MS. Þú ert ekki ein/n um að finna fyrir skyntruflunum. Það er ótrúlegt hvað margir luma á góðum ráðum.
Ég fæ oft dofa í fæturnar. Er oftast með dofa í iljum og hann er minnstur á morgnana. Á kvöldin er dofinn komin upp fyrir hné. Ég reyni að vera á hreyfingu, ekki sitja lengi í sömu stellingu. Teygja á fótum og hreyfa ökklann(snúa í hringi). Dofinn minnkar ekki við þetta en fæturnir haldast liðugri og þar með á ég auðveldara með hreyfingu.
Lumir þú á góðum ráðum um hvernig takast megi á við dofa, endilega deildu þeim með öðrum með því að skrifa á netfangið msfelag@msfelag.is.