Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Alþjóðadagur MS, sem skipulagður er af MSIF (alþjóðasamtökum MS-félaga), verður haldinn miðvikudaginn 28. maí næstkomandi og nálgast því óðfluga. Í fyrra var áherslan á unga fólkið en nú er áherslan á AÐGENGIí víðasta skilningi þess orðs. Að því tilefni biðlar MS-félagið til MS-fólks og aðstandenda þeirra um að það velti fyrir sér hvaða hindranir eru í vegi fyrir því að það fái óskir sínar uppfylltar um óheft aðgengi að samfélaginu, til dæmis aðgengi að lyfjum, heilbrigðisþjónustu, ferðaþjónustu, skóla, vinnu og tómstundum. Veltið því fyrir ykkur hvernig hin fullkomna framtíð án hafta lítur út.
Yfirskrift átaksins er FULLKOMINN DAGUR
ÞAÐ ER SAMFÉLAGIÐ SEM SETUR HÖFTIN – EKKI VIÐ
Ef við höfum aðgang að réttum hjálpartækjum og umhverfið er hannað þannig að allir komist um og hafi möguleika á að njóta, þá lifum við hvern dag sem
HINN FULLKOMNA DAG J
FULLKOMINN DAGUR – er þegar .... allar verslanir og veitingahús verða með merki á áberandi stað um aðgengi fyrir alla. Þannig veit ég að allir eru velkomnir og ég get þá óskað eftir aðstoð eða hjálpartæki, eins og rampi, til að komast inn og út ef tröppur hamla för.
FULLKOMINN DAGUR – er þegar .... búið er að ganga frá gatnamótum Hafnafjarðavegar og Vífilstaðavegar svo ég komist um þau á hjólastólnum mínum.
FULLKOMINN DAGUR – er þegar .... mér býðst ferðaþjónusta í heimabyggð minni, x-firði.
FULLKOMINN DAGUR – er þegar .... ég þarf ekki að ferðast um langan veg til að hitta lækni eða fá lyfjameðferð.
FULLKOMINN DAGUR – er þegar .... systir mín, sem er með MS, þarf ekki að bíða í marga mánuði eftir tíma hjá taugalækni.
FULLKOMINN DAGUR – er þegar ....
Sendið inn draum ykkar um hinn fullkomna dag á netfangið msfelag@msfelag.is.Ekki væri verra ef skemmtilegar myndir eða stutt myndskot fylgdu með. Það er einnig hægt að fara inn á þessa síðu hér og skrifa okkur en þá er ekki hægt að senda viðhengi með. Að sjálfsögðu má líka senda okkur bréf með gamla góða póstinum. Skrifið eins mikið og langt og ykkur lystir en ein setning er líka alveg nóg. Þið getið skrifað undir nafni en það er þó ekki nauðsynlegt.
Hver veit nema draumar ykkar um hinn fullkomna dag rætist....
Ef viðbrögð verða góð og við fáum nokkrar sögur, ábendingar, uppástungur eða hvað annað okkur kann að berast, mun verða opnuð sérstök vefsíða með pompi og prakt á Alþjóðadeginum 28. maí. Vefsíðan mun taka á sig þá mynd sem aðsenda efnið býður upp á og verður vefsíðan vettvangur fyrir athugasemdir MS-fólks og annarra um aðgengismál. Til dæmis væri hægt að setja fram áskorun um framkvæmdir til að bæta aðgengi á ákveðnum stöðum og setja upp lista yfir fyrirtæki með aðgengi til fyrirmyndar og lista yfir þau fyrirtæki sem mættu standa sig betur. Vefsíðan gæti þannig nýst okkur til að herja á rétta aðila eða yfirvöld til að gera úrbætur í aðgengismálum. Hér gætum við virkilega haft áhrif og komið áfram ábendingum um það sem betur mætti fara og hrósað þeim sem gera vel.
Við skorum sérstaklega á landsbyggðahópana okkar. Er aðgengi gott að öllu í heimabyggð ykkar eða er eitthvað ekki ásættanlegt? Hvað þarf að gera til að draumurinn um hinn fullkomna dag og framtíð án hafta rætist?
Skilafrestur er til 15. maí en því fyrr því betra J
Sjá vefsíðu MSIF um World MS Day 2014 þar sem nálgast má margvíslegar upplýsingar og tengla um Alþjóðadag MS.
Bergþóra Bergsdóttir