Góður árangur af Tysabri á hinum Norðurlöndunum
Sigurbjörg Ármannsdóttir
Sigurbjörg Ármannsdóttir
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.

Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur
elva@mbl.is
"ÞAÐ voru allir undrandi," segir Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður MS-félagsins, um viðbrögð fulltrúa norrænna MS-félaga á aðalfundi í Stokkhólmi fyrr í mánuðinum, við þeirri staðreynd að enn sé ekki farið að bjóða fólki með MS hér á landi að nota nýja lyfið Tysabri.
Lyfið var fyrst notað fyrir nokkrum árum en tekið úr notkun eftir að hættuleg aukaverkun kom í ljós. Frá því í fyrra hefur Tysabri verið notað með góðum árangri í Evrópu.
Sigurbjörg segir að á fundinum hafi MS-félögin borið saman bækur sínar. "Við erum sorglega langt á eftir," segir Sigurbjörg. Á öllum hinum Norðurlöndunum sé farið að nota Tysabri með góðum árangri. T.d. sé um eitt og hálft ár síðan farið var að nota það í Svíþjóð.
Baráttan fyrir aðgengi að lyfinu hefur þó ekki verið þrautalaus á Norðurlöndunum. Í áskorun sem samþykkt var á fundi MS-félaganna í Stokkhólmi segir að alls staðar hafi þurft að berjast hart fyrir því að koma meðferð með Tysabri á gott ról. Staða mála sé enn víða óviðunandi. Á Íslandi hafi enginn fengið lyfið enn sem komið er og í Finnlandi sé fólki aðeins boðið upp á hálfs árs meðferð.
Sigurbjörg segir að áskorunin hafi verið send Norrænu ráðherranefndinni, en Halldór Ásgrímsson er framkvæmdastjóri hennar. "Það var beðið um fund með honum sem tveir eða þrír fulltrúar frá Íslandi og Noregi munu fara á," segir hún. Þar verði gerð grein fyrir málinu og óskað eftir því að farið verði að lögum um réttindi sjúklinga.
Um 330 manns með MS
Um 330 manns á Íslandi eru með MS. Sigurbjörg segir að talið sé að um 15-20% sem prófa muni Tysabri muni ekki þola það og aðrir kunni að nota önnur lyf. Því megi ætla að um 50-60 manns muni notað Tysabri að jafnaði. Það sé erfitt fyrir fólk að vita af meðferð sem gagnist en ekki er í boði hérna. "Við höfum ekki tíma [til að bíða]," segir Sigurbjörg. Margir hafi beðið lengi án vonar.
Á Tysabri af öðrum lyfjum
SUMIR þeirra MS-sjúklinga sem munu fá Tysabri við sjúkdómi sínum eru ekki á þeirri fyrirbyggjandi meðferð sem nú er fyrir hendi, að sögn Hauks Hjaltasonar, taugalæknis á taugadeild Landspítala. Haukur segir ástæður þessa ýmsar, meðal annars að þau lyf hafi ekki dugað nægilega eða sjúklingur ekki þolað lyfið.
Haukur segir að í dag séu til fjögur mismunandi lyf sem gefin eru fólki með MS-sjúkdóminn í fyrirbyggjandi tilgangi. Þeir sjúklingar sem eru á fyrirbyggjandi meðferð við MS eru nú um 140 talsins. Kostnaður við þessi lyf sé á bilinu 1,3-1,7 milljónir króna á ári á hvern einstakling.