Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) hefur samþykkt markaðssetningu lyfsins Ampyra (fampridine) í Bandaríkjunum til þess að auðvelda sjúklingum með MS að ganga. Lyfið, sem er í pilluformi og gengur undir íðorðinu dalfampridine hefur reynzt auka göngugetu og gönguhraða MS-sjúklinga, að því er segir í upplýsingaskjali Lyfjaeftirlits BNA. Þetta er fyrsta göngulyfið, sem hlotið hefur opinbera viðurkenningu.
“Göngufötlun og hreyfihömlun er einn allra algengasti vandinn, sem hrjáir MS-sjúklinga,” er haft eftir dr. Russell Katz, forstöðumanni þeirrar deildar bandaríska lyfjaeftirlitsins, sem hefur eftirlit með leyfisveitingum á lyfjum við taugasjúkdómum í frétt UPI fréttaveitunnar.
Framleiðandi Ampyra-göngulyfsins er Acorda og Elan-lyfjafyrirtækið í Dyflinni á Írlandi. Elan er sama fyrirtæki og framleiðir Tysabri. Biogen Idec-lyfjafyrirtækið, sem einnig framleiðir Tysabri sótti um leyfi fyrir markaðssetningu dalfampridine (Ampyra) til Lyfjaeftirlits Evrópu (EMEA) 12. janúar á þessu ári.
Sverrir Bergmann, taugasérfræðingur MS-félagsins, segir um Ampyra, að hér sé á ferðinni lyf sem beri ágætan árangur, í sem stytztu máli með því m.a. að auka flæði kalíums og styrki þannig taugaboð.
Spurður um hvort ekki verði sótt um leyfi fyrir Ampyra á Íslandi sagði Sverrir, að ekki væri ólíklegt, að svo verði enda hafi sjúklingar talið lyfið efla göngufærni sína.
Svo sem föstum lesendum MS-vefjarins er kunnugt er ákaflega erfitt að segja fyrirfram um sjúkdómseinkenni MS auk þess sem birtingarform þeirra geta verið mjög mismunandi, t.d. allt frá vægum dofa í höndum og fótum til lömunar, sjónskerðingar, skertrar skynjunar og þunglyndis.
Vísindamenn, sem tjáð hafa sig um Ampyra, segja það lofa góðu og bera því sérstaklega góða sögu, þar sem það hemur göngutregðu og eykur reyndar göngugetu og gönguhraða MS-sjúklinga, eins aðalvandamáls fólks með multiple sclerosis.
Þeir, sem finna fyrir aukaverkunum af Ampyra hafa nefnt svefnleysi, svima, höfuðverk, ógleði, almennan slappleika og bakverk. Árangurinn af notkun Ampyra hefur þó borið það góðan árangur án aukaverkana, að Bandaríkjamenn hafa samþykkt sölu lyfsins í sérvöldum apótekum í marz n.k.
Um Ampyra gildir það sama og um önnur MS-lyf, að það hemur einkenni en læknar þau ekki. Fyrir skemmstu sögðum við frá tilraunum með pillur við MS sem kæmu í stað sprautulyfja. Ampyra er í þessum flokki lyfja þótt það beinist að því að efla göngugetu MS-sjúklinga sérstaklega.
Mikið hefur verið skrifað um nýja göngubætandi lyfið.
Lesið t.d. frétt frá NMSS.
Skoðið myndband frá sömu samtökum.
Upplýsingablað frá Multiple Sclerosis Society.
Veftímaritið Medscape. (Nauðsynlegt að búa til aðgang til að geta lesið greinina. Aðgangurinn er ókeypis).
- hh