S-merkt MS-lyf verða greidd að fullu af hinu opinbera.

Nýtt greiðsluþátttökukerfi vegna kaupa á lyfjum tekur gildi 4. maí 2013, í samræmi við breytingar á lögum sem Alþingi samþykkti þann 1. júní 2012. Markmiðið er að auka jafnræði milli einstaklinga, óháð sjúkdómum og draga úr lyfjakostnaði þeirra sem nota mikið af lyfjum. MS-sjúklingar sem nota S-merkt fyrirbyggjandi MS-lyf, hafa verið í óvissu um hvort lyfin féllu undir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga(SÍ) eða yrðu undanþegin greiðsluþátttöku eins og verið hefur undanfarin ár. Þetta eru m.a. lyfin Avonex, Rebif, Copaxone, Tysabri og Gilenya. Samkvæmt samtali við fulltrúa SÍ munu þessi S-merktu lyf verða áfram greidd að fullu af SÍ, allavega fyrst um sinn.

Öll önnur lyf sem SÍ taka þátt í að greiða (þar með talin lyf sem einstaklingur hefur fengið samþykkt lyfjaskírteini fyrir) verða felld inn í greiðsluþrepin. Þetta á við um lyf sem margir MS-sjúklingar nota við t.d. spasma, taugaverkjum, þreytu, háum blóðþrýsting o.fl. Lyf sem falla ekki undir greiðsluþátttöku SÍ munu einstaklingar greiða að fullu eins og áður. Það eru lyf eins og t.d. LDN, svefnlyf, róandi lyf o.fl. Einnig greiðir einstaklingur að fullu verkjalyf og önnur lyf sem ekki eru lyfseðilsskyld.

Lesa má um þrepaskiptinguna inn á vef SÍ www.sjukra.is og þar er einnig reiknivél. Samkvæmt þrepaskiptingu greiðir örorkulífeyrisþegi aldrei hærri upphæð en 48.149 kr. á ári fyrir lyf sem SÍ tekur þátt í að greiða. Einstaklingur án örorku greiðir mest 69.415 kr. á ári fyrir lyf sem SÍ tekur þátt í að greiða.

BG

BG