Kostnaðarhlutdeild í lyfjum mun aukast með hækkun á greiðsluþrepi lyfjakaupa vegna almennra lyfja og einnig á að fella undir lyfjagreiðslukerfið sjúkrahúslyf, s.k. S-merkt lyf, sem gefin eru utan sjúkrahúsa. Hins vegar munu sjúklingar sem fá lyf á göngudeildum eða liggja inni á sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum ekki greiða, frekar en nú, fyrir þau lyf sem þeir fá meðan á innlögn stendur. Þetta kemur fram í frumvarpi til fjárlaga sem lagt var fyrir Alþingi 9. þ.m. Frumvarpið getur þó breyst í meðförum þingsins áður en það verður að fjárlögum.

Með fyrirhugaðri breytingu þurfa MS-sjúklingar frá og með næstu áramótum því að greiða fyrir MS-lyf, svo sem Gilenya, Betaferon-lyf og Copaxone, til viðbótar við almenn lyf en þó að hámarki því sem lyfjagreiðslukerfið segir til um. Skv. lyfjaendurgeiðslukerfinu greiða aldraðir og öryrkjar nú 46.277 kr. að hámarki fyrir almenn lyf á ári, sjá greiðsluþrep lyfjakaupa hér og aðrir greiða að hámarki 69.415 kr. Skv. því sem boðað er í fjárlagafrumvarpinu munu þessar fjárhæðir koma til með að hækka eitthvað en um hve mikið er óvíst.

Tysabri er gefið á göngudeild og mun því ekki falla undir greiðslukerfið.

Áhrif breytinganna á einstaklinga eða ákveðna sjúklingahópa liggur ekki fyrir. Ráðherra hefur boðað að hópur fag-og hagsmunaaðila muni útfæra nákvæmlega breytingarnar þannig að þær valdi sem minnstu óhagræði fyrir notendur kerfisins. Það er því ekkert endanlegt enn.

 

MS-félagið á kröftugan og verðugan fulltrúa á Alþingi þar sem Steinunn Þóra Árnadóttir er. Hún tók þátt í umræðum um heilbrigðismál fjárlagafrumvarpsins á Alþingi í dag og spurði heilbrigðisráðherra út í fyrirhugaðar breytingar. Í máli Steinunnar Þóru kom fram að fjárlagafrumvarpið sýndi mjög uggvænlega og ranga þróun. Hún hefði viljað sjá öfuga þróun, þ.e. að ríkið væri að taka meiri þátt í kostnaði einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustu. S-merkt lyf væru ætluð til sérhæfðrar meðferðar en væru þó ekki alltaf notuð innan spítala. Þeir sem þyrftu á S-merktum lyfjum að halda væru alvarlega veikir og ættu margir hverjir erfitt með tekjuöflun.

 

 

Vefslóðir með fréttum af málinu:

http://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/34802

http://www.ruv.is/frett/greidsluthatttaka-sjuklinga-mun-aukast

http://www.ruv.is/frett/hlutdeild-i-lyfjakostnadi-eykst

 

Aðrar vefslóðir:

Fjárlagafrumvarp 2015 - http://www.althingi.is/altext/144/s/0001.html

Frétt um lyfjagreiðslukerfið - /is/moya/news/lyfjaendurgreidslukerfid-einfaldad

 

 

 

 

Bergþóra Bergsdóttir