Sex hressar og með afbrigðum hraustar konur, sem kalla sig Sækýrnar, eru komnar til Dover á Englandi þar sem þær ætla að synda 34 km boðsund yfir Ermasund til styrktar MS-félaginu. Sundið tekur um 16-17 klukkustundir. Þetta eru þær Anna Guðrún Jónsdóttir, Birna Hrönn Sigurjónsdóttir, Kristbjörg Valgarðsdóttir, Kristín Helgadóttir, Ragnheiður Valgarðsdóttir og Sigrún Geirsdóttir. Kristbjörg er iðjuþjálfi á MS-Setrinu. Takist sundið verða Sækýrnar fyrsti íslenski boðsundshópurinn sem samanstendur aðeins af konum sem nær þessum áfanga. Vinkonurnar hafa einnig látið í veðri vaka að ef færi gefst á, þá ætli þær einnig að synda Ermasundið til baka!!

Með í för er fararstjóri sem einnig er reynd sjósundkona og vinkona sem ætlar að vinna heimildamynd um afrekið. Sækýrnar eiga pantaðan bát og skipstjóra í Dover frá 22. júní og hafa þá viku til að bíða eftir nægilega góðu veðri til að leggja af stað. Þegar færi gefst er lagt af stað, hvort sem er að nóttu eða degi. Svona boðsund yfir Ermasund er engan veginn á færi allra sundmanna. Álagið er bæði líkamlegt og andlegt og þær þurfa að takast á við sterka sjávarstrauma, kulda, myrkur, báta- og skipaumferð og passa sig á reköldum sem velkjast um í sjónum.

Eðlilega, þá eru þær ekki með öllu óvanar sjósundi en þær hafa stundað sjósundið um árabil og synt nokkur boðsund. Meðal annars hafa þær synt boðsund upp á Akranes, yfir Eyjafjörðinn og út í Hrísey, Bessastaðasundið og út í Grímsey.

Þetta eru því ótrúlegar konur og ekki að efa að þær nái takmarki sínu J

 

Sækýrnar ætla að styrkja MS-félagið með sundinu. Hægt er að leggja beint inn á reikning Sækúnna 515-14-407491 kt. 551012-0420 eða með því að hafa samband með tölvupósti á 6manatees@gmail.com.

Hægt er að fylgjast með ferðum þeirra og sundi á fésbókarsíðunni https://www.facebook.com/Saekyrnar?fref=ts

 

ÁFRAM SÆKÝR J

 

BB