Það voru þær Bryndís Guðmundsdóttir, formaður Svalanna, og Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður MS-félags Íslands, sem undirrituðu samninginn þann 13. maí 2009.

Í máli Sigurbjargar kom fram, að þetta væru tímamót í samstarfi MS-félagsins við Svölurnar, sem hafa stutt dyggilega við starfsemina með kaupum á tækjum og búnaði, allt frá opnun fyrstu þjálfunaraðstöðu og dagvistar félagsins, árið 1986. Nú væru, í fyrsta sinn í samstarfi félaganna, ákveðin verkefni tekin í fóstur, sem gerði félaginu kleift að skipuleggja starf sitt með markvissari hætti.

Bryndís sagði af þessu tilefni, að mikill einhugur væri hjá Svölunum um að styrkja MS-félagið til góðra verka. Svölurnar er félag núverandi og fyrrverandi flugfreyja, sem hefur það markmið að styðja fjárhagslega við bakið á þeim sem minna mega sín. Allur ágóði af árlegri sölu jólakorta Svalanna rennur óskiptur til líknarmála.

Umræddur samningur er samtals að verðmæti kr. 2.500.000. Í honum felst, að Svölurnar taka við fjármögnun á verkefninu jafnvægishópþjálfun, fræðsla og slökun, sem boðið var upp á í fyrsta sinn nú á vorönn í boði Pokasjóðs. Fyrir tilstuðlan Svalanna mun MS-félagið geta boðið félögum sínum upp á sambærileg námskeið veturinn 2009-2010, í samstarfi við Reykjalund endurhæfingarmiðstöð SÍBS. Reynslan af námskeiðinu nú á vorönn sýnir, að full þörf er fyrir sérhæfð námskeið af þessu tagi fyrir MS-fólk. Að sögn Sifjar Gylfadóttur, sérfræðings í taugasjúkraþjálfun á Reykjalundi, var almenn ánægja með námskeiðið og framfarir urðu á jafnvægisöryggi og jafnvægi hjá þátttakendum.

Bryndís og SigurbjörgTil þess að sem flestir geti nýtt sér styrktarþjálfun þá, sem felst einnig í námskeiðinu, hefur vantað svokallað sitjandi þrekhjól í tækjasal sjúkraþjálfunar hér á Sléttuveginum. Í samningnum felst einnig að Svölurnar munu gefa slíkt tæki og hefur þegar verið pantað hjól af gerðinni R3-5 Lifecycle Excercise Bike.

Eins og greint hefur verið frá hér á síðunni, var á dögunum haldið vel heppnað námskeið fyrir börn MS-fólks í samstarfi við Systkinasmiðjuna. Samningurinn við Svölurnar nær einnig yfir þetta námskeið. Þann 19. maí mæta börnin í eftirfylgni við námskeiðið og í framhaldinu verður skoðað hvernig við getum haldið áfram að styðja við þennan hóp.

Það er ljóst að hér er um mikilvægt skref að ræða fyrir félagið í átt að því að geta betur skipulagt starfsemina fram í tímann og er það von okkar að samningur þessi sé einungis upphafið að frekara samstarfi með þessum hætti við félög og fyrirtæki.

Áhugasamir um námskeiðin mega vinsamlega hafa samband við skrifstofu félagsins, en nánara skipulag og tímasetningar námskeiða munu þó væntanlega ekki liggja fyrir fyrr en í júní. Síminn er 568 8620 en einnig er hægt að senda tölvupóst á msfelag@msfelag.is.  

Svölurnar lógó