Nýlegar fréttir af tilraunum ítalsks læknis við leit að lækningu MS hafa vakið mikla athygli og hafa MS samtök í Bandaríkjunum og Kanada hvatt til þess, að kenning læknisins verði könnuð með tilraunum í stórum stíl. Kenningin byggir á þeirri niðurstöðu, að bláæðar í hálsi og brjóstkassa 90% MS-sjúklinga séu of þröngar eða hálfstíflaðar. Þetta valdi slöku blóðstreymi frá heila og hafi þannig áhrif á miðtaugakerfið. Skiptar skoðanir eru um kenninguna. Sverrir Bergmann taugafræðingur kvaðst kannast við þessa hugmynd, en vill ekki leggja dóm á tilraunirnar án frekari upplýsinga.

Höfundur nýrrar útfærslu kenningarinnar er ítalski læknirinn dr. Paolo Zamboni í Ferrara á Ítalíu. Hann kallaði saman hóp 65 MS-sjúklinga með versnunar-bötnunar afbrigði MS, gerði einfalda æðaskurðaðgerð á þessum einstaklingum til að efla takmarkað blóðstreymi frá heila – og tveimur árum eftir aðgerðina höfðu öll einkenni MS horfið í 73% sjúklinganna. Kenning Zambonis er einfaldlega sú, að æðagalli, sem hann nefnir CCSVI (krónískt takmarkað mænublóðflæði) sé skaðvaldurinn, sem verði til þess, að fólk fái taugafræðileg einkenni MS. Skurðaðgerðin er framkvæmd með aðferð, sem ítalski læknirinn hannaði sérstaklega í þessu skyni.

Zamboni birti niðurstöður frumrannsóknar sinnar í virtu riti um taugafræði, taugaskurðlækningar og geðlækningar. Samanburðarhópurinn í rannsókninni voru 235 manns, sem ýmist var heilbrigt fólk eða einstaklingar með taugasjúkdóma af ýmsum toga. Grundvallarniðurstaðan var sú, að mjög öflug fylgni var á milli þess að vera með MS og bláæðaþrengsli, sem benti til þess að skolun á súrefnissnauðu blóði í æðum geri usla í miðtaugakerfinu og valdi eða ýti undir skemmdir á taugavefjum.

“Æðakenningin” vekur
athygli vestan hafs og austan
Brýnt er að taka fram, að hér er um fyrstu skref þessarar rannsóknar að ræða, en engu að síður hafa t.d. MS-samtökin í Kanda og Bandaríkjunum tekið sig saman um að bjóða vísindamönnum um heim allan að leggja fram tillögur að rannsóknum á “æðakenningunni”. Auk Kanada- og Bandaríkjamanna hafa MS samtök í Þýzkalandi, Írlandi og Ítalíu fjallað sérstaklega um hina hugsanlegu nýju lækningu á MS.

Þess má geta, að ástæður þess að Dr. Zamboni hóf rannsóknir á MS voru af mjög persónulegum toga. Eiginkona hans greindist með MS og hrakaði henni hratt. Hann sökkti sér í MS-fræðin og rakst m.a. á aldagamlar kenningar um afleiðingar af of miklu járni í líkamanum. Þessar kenningar tengdust óskyldum rannsóknum, sem hann hafði unnið að um hvernig járn gæti skaðað blóðæðar í fótum. Í framhaldi af því varpaði hann fram spurningunni hvort verið gæti að uppsöfnun járns kynni með einhverjum hætti að valda skemmdum í æðum heilans. Þessar spurningar voru reistar á grunni eldri hugmynda um lélegt blóðstreymi og slaka upptöku súrefnis, sem Sverrir Bergmann kannaðist við, þegar MS-vefurinn bar fréttina undir hann. Að því leyti er kenningin ekki ný, en útfærsla og ný aðferð við æðavíkkun í þessu samhengi er ný af nálinni.

Eiginkonan fékk MS –
Kastalaus í 3 ár
Til að kanna hvort eitthvað væri til í kenningunni notaði hann ómtæki og rannsakaði hóp MS-sjúklinga. Niðurstaðan var sú, að rösklega 90% MS-sjúklinga þjáðust af einhvers konar galla eða stíflu í æðum, sem flytja blóð frá heilanum. Í þessum hópi var kona hans. Hann þróaði hættulitla og einfalda aðferð til að laga æðarnar, eða öllu heldur auka blóðstreymið, gerði m.a. aðgerð á konu sinni – og niðurstaðan bar strax árangur. Í þau þrjú ár, sem liðin eru frá aðgerðinni, hefur eiginkona hans ekki fengið eitt einasta kast.

Standist þessar niðurstöður frekari rannsóknir er niðurstaðan sú, að fundizt hefur lækning við MS hjá þeim sem eru með sjúkdóminn vegna æðaþrengslavanda í heila. Og samkvæmt frumrannsóknum virðast flestir MS-greindir vera með þennan æðagalla.

Niðurstöðurnar hingað til eru mjög jákvæðar. Hins vegar verður ekki kveðið upp úr um gildi og gagn “æðakenningarinnar” fyrr en miklu frekari og nákvæmari rannsóknir hafi farið fram. Í því sambandi gæti verið um að ræða nokkur ár.

hh