Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Alþjóðlegu samtökin Progressive MS Alliance*, sem eru undir stjórn MSIF, alþjóðasamtaka MS-félaga, veittu á dögunum fjárstyrk að jafnvirði 1.638 milljóna króna (12,6 milljónum evra) til þriggja sérvalinna rannsókna sem leiða eiga til meðferðar á frumkominni og síðkominni versnun í MS. Hvert verkefni fær því yfir hálfan milljarð króna í sinn hlut.
Er þetta í annað sinn sem samtökin styrkja rannsóknarverkefni af þessu tagi en fyrir tveimur árum fengu 22 rannsóknarverkefni styrk að fjárhæð 22 milljónir evra, að núvirði 2.860 milljóna kr., sjá frétt hér.
Verkefnin þrjú eru:
Þróun lífmerkja (biomarker) til að mæla framvindu versnunar í MS í klínískum rannsóknum.
Douglas Arnold, M.D. hjá McGill háskólanum, í samvinnu við 16 vísindamenn frá Hollandi, Bretlandi, Bandaríkjunum og Sviss hefur þróað „næstu kynslóð“ tækis sem mælt getur framvindu versunar í MS.
Teymi dr. Arnold er í fararbroddi þegar kemur að þróun á segulómunarmerkjum (merkjum frá MRI) sem gefa til kynna framvindu sjúkdómsins og sem hægt er að notast við, strax í klínískum fasa-II lyfjarannsóknum við versnun í MS.
Fasa-II rannsókn er undanfari stærri fasa-III rannsóknar, sem krafist er að fari fram áður en nýtt lyf er samþykkt til markaðssetningar af evrópskum og/eða bandarískum lyfjaeftirlitsstofnunum, og er þetta tæki afar mikilvægt til að undirbúa slíka rannsókn.
Þessi þekking gefur einnig góða möguleika til að segja til um fyrirbyggjandi meðferð fyrir einstaklinga sem ekki hafa (enn) augljós einkenni frum- eða síðkominnar versnunar í MS.
Lífupplýsingafræði og endurforritun frumna til að þróa lyf við versnun í MS
Þetta verkefni (BRAVEinMS) sameinar lífupplýsingafræði og taugavísindi. Að verkefninu koma 13 vísindamenn frá Ítalíu, Frakklandi, Þýskalandi, Kanada og Bandaríkjunum undir stjórn Gianvito Martino, M.D., taugavísindadeild San Raffaele spítala í Mílanó á Ítalíu.
Verkefni BRAVEinMS-liðsins felst í því að bera kennsl á sameindir sem mögulega geta verndað taugafrumur og/eða haft getu til að gera við skemmt mýelín, efnið sem myndar slíður utan um taugaþræði og ræður hraða og virkni taugaboða en brotnar niður í MS-sjúkdómnum.
Vísindamennirnir telja fullvíst að þeir muni geta fundið og skilgreint einhvern fjölda áður óþekktra sameinda sem geti haft mikla möguleika í meðferð á versnun í MS og að innan fjögurra ára hafi þeir yfir að ráða efnasambönd sem hægt verði að nota í klínískum fasa-I/-II rannsóknum á einstaklingum með frum-/síðkomna versnun í MS.
Þróun lyfja við frumkominni og síðkominni versnun MS
Rannsóknin er unnin undir forystu Francisco Quintana, Ph.D. við Brigham og Women Hospital í Bandaríkjunum, í samvinnu við 8 vísindamenn frá Bandaríkjunum, Kanada, Ísrael og lyfjafyrirtækinu Sanofi Genzyme.
Markmið verkefnisins er að finna lyf sem mögulega gætu verið áhrifarík til meðferðar á versnun í MS og sem hægt verði að rannsaka á MS-sjúklingum innan fjögurra ára.
Heimild hér
Bergþóra Bergsdóttir
Progressive MS Alliance eru samtök MSIF, alþjóðasamtaka MS-félaga, og MS-félaga frá Ástralíu, Bandaríkjunum, Belgíu, Bretlandi, Danmörku, Hollandi, Ítalíu, Kanada, Spáni og Þýskalandi.
Samtökin hafa það að markmiði að finna meðferðir við frum- og síðkominni versnun MS með því að efla og auka alþjóðlegt samstarf og samvinnu á sviði rannsókna í MS. Samtökin fjármagna bæði nýjar rannsóknir sem og aðrar sem þegar eru hafnar.