Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Í Læknablaðinu frá 2015 má finna niðurstöður rannsóknar sem unnin var af læknum á taugalækningadeild LSH og frá læknadeild Háskóla Íslands.
Markmið rannsóknarinnar var að meta hugarstarf og tengsl þess við líkamlega færni, þreytu og þunglyndi hjá sjúklingum með MS í köstum (relapsing remitting multiple sclerosis, RRMS).
Greinin er hér óbreytt:
Skert hugarstarf í MS sjúkdómnum og tengsl þess við líkamlega færni, þreytu og þunglyndi
Sólveig Jónsdóttir¹ ², Hilmar P. Sigurðsson¹, Haukur Hjaltason¹ ², Sóley Þráinsdóttir¹ ²
¹Taugalækningadeild Landspítala, ²læknadeild Háskóla Íslands
soljonsd@landspitali.is
Inngangur: Erlendar rannsóknir hafa sýnt, að um helmingur sjúklinga með MS er með skert hugarstarf. Markmið þessarar rannsóknar var að meta hugarstarf og tengsl þess við líkamlega færni, þreytu og þunglyndi hjá sjúklingum með kastaform MS (relapsing remitting multiple sclerosis, RRMS).
Efniviður og aðferðir: Þátttakendur í rannsókninni voru 64 sjúklingar með virkan RRMS sjúkdóm, sem voru að hefja natalizumab [red. Tysabri] meðferð á Landspítala og 24 heilbrigðir einstaklingar til samanburðar. Líkamleg færni sjúklinga var metin með EDSS kvarðanum (Expanded Disability Status Scale). Ítarlegt taugasálfræðilegt mat var lagt fyrir alla þátttakendur. Þreyta og þunglyndi var einnig metið.
Niðurstöður: Þáttagreining á niðurstöðum taugasálfræðilegra prófa hjá sjúklingum leiddi í ljós sex hugræn svið. Frammistaða sjúklinga var marktækt verri en heilbrigðra á fimm þessara sviða. Skerðing kom fram á Yrtu og óyrtu hugarflæði, Sjónhreyfihraða, Málhraða og athygli, Orðaminni og Sjónminni. Sjúklingar stóðu sig jafn vel og heilbrigðir á sviðinu Sjónræn rökhugsun. Þegar eingöngu var tekið tillit til taugasálfræðilegra prófa, sem ekki reyndu á fingrafimi, kom fram skert hugarstarf hjá 53% sjúklinga. Líkamleg færni var marktækt tengd öllum hugrænum sviðum nema Sjónminni og Sjónrænni rökhugsun. Alvarleg þreyta kom fram hjá 81,3% sjúklinga og 45,3% töldust þunglyndir. Þreyta og þunglyndi höfðu engin áhrif á hugarstarf.
Ályktun: Verkefni, sem reyna á mál og hreyfihraða munns og handa, eru erfiðust sjúklingum með RRMS. Þeir eru jafnvígir heilbrigðum á sjónrænum verkefnum, sem ekki reyna á fingrafimi. Niðurstöður þessar styðja rannsóknir, sem hafa fundið meiri þynningu á heilaberki í vinstra heilahveli MS sjúklinga en því hægra. Skert líkamleg færni er tengd skertu hugarstarfi, en þreyta og þunglyndi er það ekki.
Greinina er að finna í „Ágripi örfyrirlestra“ nr. 8 í fylgiriti Læknablaðsins nr. 85 frá 2015 - Vísindi á vordögum, þing Landspítala, sjá hér.
Um EDDS-kvarðann hér.
BB