Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Það voru vísindamenn við Cleveland Clinic í Bandaríkjunum sem greindu þetta afbrigði MS, sem fengið hefur heitið „myelocortical MS“ eða MCMS. Niðurstöðurnar voru birtar í Lancet Neurology á dögunum.
MS er langvinnur bólgusjúkdómur í miðtaugakerfinu, þ.e. heila og mænu, þar sem ónæmiskerfið ræðst á mýelín, efnið sem myndar slíður utan um taugasíma (taugaþræði) og ræður hraða og virkni taugaboða.
Afleiðingarnar felast í örum eða sárum á mýelínið (taugaskemmdir) sem hafa áhrif á leiðni taugaboða þannig að boð um til dæmis hreyfingu, tal eða hugsun truflast og ná illa eða ekki fram til tilætlaðra líkamshluta og einkenni sjúkdómsins koma fram.
Við greiningu á MS er meðal annars stuðst við MRI.
Taugakerfið samanstendur af svokölluðu hvítu og gráu efni. Mýli myndar hvíta efni taugakerfisins.
Í heilanum er það kallað heilahvíta og er um helmingur af þyngd heilans. Það finnst fyrir innan svokallaðan heilagrána sem er úr gráa efni taugakerfisins og myndar ysta hluta heilans.
Hvítt efni finnst einnig í mænunni þar sem það er kallað mænuhvíta. Hún liggur utan um mænugrána sem er umhverfis mænugöngin innst í mænu. Enn fremur finnst hvítt efni í taugum um allan líkamann.
Heimild hér.
Vísindamennirnir við Cleveland Clinic skoðuðu heila og mænu 100 MS-sjúklinga sem höfðu látist á sjúkrahúsinu. Þeir tóku þá eftir því að tólf heilanna höfðu engin merki um niðurbrot mýelíns í hvíta efni heilans, eins og talið er einkenna einstaklinga með MS. Þessir einstaklingar höfðu hins vegar dæmigerðar MS-skemmdir í mænu og í heilaberki (í gráa efninu).
Þeir báru því saman vefjasýni úr heila og mænu þessara 12 MCMS-sjúklinga við vefjasýni úr 12 MS-sjúklingum með dæmigerðan MS auk vefjasýna úr heilbrigðum einstaklingum.
Niðurstaðan var sú að aðeins hópurinn sem var með hefðbundinn MS hafði skemmdir í hvíta efni heilans en báðir hóparnir höfðu dæmigerðar MS-skemmdir í mænu og í heilaberki. Þrátt fyrir að heilar MCMS-einstaklinganna höfðu ekki dæmigerðar MS-skellur í hvíta efninu mátti sjá þar minni þéttleika taugafrumna og þynnri heilabörk, eins og við dæmigerðan MS.
MCMS er óaðgreinanlegt frá dæmigerðum MS á þeim MRI-tækjum sem nú eru til, því í hluta taugafrumna hjá MCMS-einstaklingum má finna bólgur, sem líta út eins og dæmigerðar MS-skellur á MRI, en eru án niðurbrots mýelíns. Með nútímatækni er því aðeins hægt að greina MCMS eftir andlát.
Niðurstöðurnar gefa til kynna að taugaskemmdir (neurodegeneration) og niðurbrot mýelíns (demyelination) í hvíta efni heilans eru óháð hvort öðru, sem er ný nálgun á almennum skilningi á því hvað gerist við MS.
Vísindamennirnir segja uppgötvunina því sýna fram á hvað MS er margbreytilegur sjúkdómur, sem kalli á einstaklingsmiðaða lyfjameðferð. Þörf sé á betri greiningartækjum (næmari MRI-skanna) til að auðvelda nákvæmari greiningu, ásamt því að fylgjast betur með sjúkdómsþróun einstaklingsins og því hvernig hann svarar lyfjameðferð.
Aðalmynd hér