Í dag, miðvikudaginn 23. maí milli kl. 16 og 18 verður árleg sumarhátíð MS-félagsins á Sléttuveginum haldin í tilefni af alþjóðadegi MS. Flutt verða ávörp og boðið upp á skemmtun fyrir bæði börn og fullorðna. Þá verður MS Setrið með opið hús að venju.

Hoppukastalinn sívinsæli verður á staðnum
Snillingar frá Sirkus Íslands koma í heimsókn
Stebbi og Eyfi koma og taka lagið

Grillaðar pylsur og ýmislegt góðgæti verður á boðstólum.

Pylsur og gos eru að þessu sinni í boði Atlantsolíu, en fulltrúar Atlantsolíu verða á staðnum með dælulykla fyrir þá sem vilja.

Yfirskrift alþjóðadagsins að þessu sinni er ‘1000 andlit MS’ og er ætlað að vekja athygli á því hversu óútreiknanlegur sjúkdómurinn er og einkenni hans margbreytileg.

Að lesa bók með lopavettlinga á höndum

Lopavettlingar hafa ekkert með sjón og lestur að gera, en það þarf að fletta misþykkum blaðsíðum. Þessi setning er sett fram til að lýsa því hvernig er að vera með dofnar hendur. Dofi er eitt af fjölmörgum einkennum MS-sjúkdómsins.

MS er sjúkdómur í miðtaugakerfi (heila og mænu). Sjúkdómurinn einkennist af köstum með bata á milli. Kast er oftast tímabundin versnun á einkennum eða ný einkenni láta á sér kræla. Þreyta er það einkenni sem flestir finna alltaf fyrir. Einkenni þeirra sem eru með MS (MULTIPLE SCLEROSIS) fara eftir því hvaða taugar verða fyrir skaða, hvaða hluta heilans eða mænunnar sjúkdómurinn ræðast á hverju sinni. MS-sjúkdómurinn er oft kallaður sjúkdómurinn með 1000 andlit vegna þess að einkennin eru svo mismunandi eftir því hvað taugar verða fyrir skaða. Sjóntruflanir er annað algengt einkenni sem og spasmar, kraftleysi, jafnvægistruflanir og verkir.

Enn hefur ekki fundist lækning við MS og orsök sjúkdómsins er ekki þekkt þó nokkrar kenningar séu á lofti. MS er ekki arfgengur sjúkdómur og er ekki banvænn. Engin lyf lækna MS, en á undanförnum 15-20 árum hafa komið fram svo kölluð bremsulyf sem hægja á framgangi sjúkdómsins með því að stöðva köst.

Á Íslandi eru um 430 einstaklingar með MS og flestir greinast fyrir 35 ára aldur. MS-félag Íslands er hagsmunafélag MS-sjúklinga og aðstandenda þeirra. Félagið stendur fyrir öflugu kynningarstarfi, heldur námskeið fyrir félagsmenn og aðstandendur, stendur fyrir fræðslufyrirlestrum og útgáfu blaða og bæklinga. MS-félagið reiðir sig á stuðning almennings, fyrirtækja og líknarfélaga til að geta haldið úti starfsemi sinni.

Í tilefni dagsins var viðtal við formanninn okkar, Berglindi Guðmundsdóttur, á Bylgjunni í Bítið um einkenni sjúkdóminn og lyfjamál. Með því að smella hér er hægt að hlusta á viðtalið

Nú leitum við eftir stuðningi þínum við okkar góða og þarfa starf. Með því að hringja í eitt af eftirtöldum númerum styrkir þú félagið um ákveðna fjárhæð:

901 5010 – 1000 kr. styrkur
901 5030 – 3000 kr. styrkur
901 5050 – 5000 kr. styrkur

Stuðningur ykkar eflir okkar starf!