Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Hér birtir MS-vefurinn athyglis- og umhugsunarverða grein Ingibjargar Snorradóttur Hagalín, póstnúmer 400, í heild sinni: Greinin ber fyrirsögnina
LYFJAGJÖF EFTIR PÓSTNÚMERUM?
“Í stjórnarskrá Íslands segir m.a. að það séu mannréttindi hvers sjúklings að fá bestu fáanlegu lyf og þjónustu á hverjum tíma. MS-sjúkdómurinn er lítið gleðiefni frekar en aðrir sjúkdómar, en hingað til hafa einu lausnirnar verið lyfjagjöf sem á að gera lífið bærilegra þrátt fyrir MS. Alltaf hafa verið vonir um að lyf kæmi á markað sem stöðvar eða læknar sjúkdóminn, en aldrei datt nokkrum í hug að ef slíkt lyf finndist yrði það gefið sjúklingum eftir póstnúmerum? Nú er nefnilega komið lyf á markaðinn sem kallast Tysabri sem hefur sýnt að stöðvar sjúkdóminn og sjúklingar geti jafnvel sleppt hækjum eða staðið upp úr hjólastólum. Sótt var um lyfjagjöf fyrir undirritaða í febrúar 2008 til Taugadeildar Landspítalans, enn er umsókn ósvarað, margir aðrir MS-sjúklingar hafa sömu sögu að segja.
Landspítali gefur þau svör að lyfið verði að gefa á Taugadeildinni í Reykjavík til að hafa eftirlit með sjúklingnum við lyfjagjöfina. Ég þyrfti sem sagt að mæta fjórða hvern föstudag til Reykjavíkur til að fá lyfið, en mætti fara strax heim að því loknu. Ég þarf þó ekki að hafa neinar áhyggjur af ferlinu, þar sem það er svo mikið að gera á Taugadeildinni að það virðist ekki vera hægt að sinna sjúklingum sem búa í hærra póstnúmeri en 270?
Ég veit að læknar og hjúkrunarfólk hér fyrir vestan treysta sér fyllilega til að sjá um þessa lyfjagjöf. En Taugadeildin segir það ekki ganga upp þar sem lyfjagjöfin kallar á svo mikið eftirlit? Hvað gerir lyfið það sérstakt að vel menntaðir læknar teljast ófærir um að gefa það? Hversu merkilegt eftirlit er hægt að hafa með sjúklingi sem kemur í lyfjagjöf klukkan rúmlega níu að morgni og er farinn úr bænum fyrir klukkan fimm samdægurs? Er Taugadeildin að hamstra verkefni til að sýna þörf á hærri fjárveitingu vegna húsnæðis, aukinnar þjónustu og starfsmannahalds ?
Sjúklingar með aðra taugasjúkdóma hafa líka fengið að heyra að minnka verði þjónustu við þá vegna aukinnar þjónustu við MS-sjúklinga. Því spyr ég aftur. Er ekki hægt að minnka þetta mikla álag með því að senda okkur landsbyggðarfólkinu lyfið heim í hérað? Spara örlítið og nýta rýmri tíma til að veita ÖLLUM taugasjúklingum sína þjónustu?
Að mínu mati er ekki bara verið að brjóta á mínum mannréttindum, heldur er þetta bruðl á fjármunum almennra skattborgara og þessi aðferð að senda sjúkling fram og til baka í staðinn fyrir lyfið, er ekki sparnaður skv. mínum barnaskólalærdómi. Ég eins og allir aðrir vil verkefni heim í hérað og hér á Ísafirði er heilbrigðisþjónusta, aðstaða, kunnátta og starfsfólk til fyrirmyndar og fullkomlega tilbúið að létta byrðar þjóðarinnar ef því er að skipta !
Getur einhver svarað mér?”
Ingibjörg Snorrad. Hagalín – MS-sjúklingur – 400 Ísafirði.