Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Árlegt áheitamaraþon Íslandsbanka verður n.k. laugardag. Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá skrifstofu MS-félagsins hafa hvorki fleiri né færri en 133 einstaklingar skráð sig í maraþonið fyrir hönd MS-félagsins. Vegalengdin, sem MS-hópurinn ætlar að hlaupa er samtals 1682 kílómetrar. Hringvegurinn er 1339 km þannig að okkar hlauparar munu hlaupa hringinn í kringum landið og gott betur. Enn er tími til að skrá sig og heita á hlaupara og MS-félagið. Sláum í klárinn!
Reykjavíkurmaraþonið er einhver stærsti íþróttaviðburður, sem efnt er árlega til á Íslandi enda er boðið upp á hlaupavegalengdir eftir getu hvers og eins. Um er að ræða heilmaraþon sem er 42 kílómetra hlaup, hálft maraþon, 21 kílómetri, 10 kílómetra maraþon og skemmtiskokk upp á 3 kílómetra o.fl. Í MS-hópnum verða 5 einstaklingar sem ætla að hlaupa heilt maraþon og 30 taka hálft maraþon.
MS-félagið hvetur alla velvildarmenn félagsins til að taka þátt og heita á hlauparana og styrkja um leið gott málefni. Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður MS-félagsins sagði í viðtali við þáttinn Ísland í dag á Stöð 2 á dögunum, að félagið hefði ”eyrnamerkt peningana til útsendingar á fundum til að jafna aðstöðu landsbyggðarfólks” og bætti við, að það væri á vissan hátt táknrænt ef við næðum að fá fólk til að hlaupa samtals hringinn í kringum landið fyrir MS-félagið.
MS-félagið hefur nokkur síðustu ár lagt áherzlu á að opna leið fyrir landsbyggðarfólk á fræðslufundi og aðra atburði með því að nýta nútíma samskiptatækni. Þannig hafa fundir sem haldnir eru í Reykjavík verið sendir beint út á vef MS-félagsins og gert MS-fólki á landsbyggðinni kleift að fylgjast með á sama hátt og höfuðborgarbúum. Fundirnir eru svo áfram aðgengilegir á vefnum.
Hægt er að heita á hlaupara HÉR:
og skrá góðgerðarfélag á “Síðunni minni”
Reykjavíkurmaraþonið fer meira og minna fram í miðborg Reykjavíkur. Á vef Íslandsbanka segir að tvær “nýjar hlaupaleiðir í 3 km skemmtiskokki og Latabæjarhlaupi (verði) teknar í notkun”. Latabæjarhlaupið hefur farið fram á grassvæðinu við Háskóla Íslands undanfarin tvö ár en verður nú fært í Hljómskálagarðinn. Boðið verður uppá þrjár mis langar hlaupaleiðir í kringum Tjörnina og um Hljómskálagarð fyrir mismunandi aldurshópa. Nánari upplýsingar um Latabæjarhlaupið má finna hér.
Skemmtiskokk Reykjavíkurmaraþonsins hefur einnig verið fært nær miðbænum. Hlaupið verður ræst eins og áður í Lækjargötu en hlaupið verður í kringum Tjörnina og Hljómskálagarð. Hlaupið er 3 km og því hentugt fyrir alla aldurshópa. Smelltu hér til að skoða kort af hlaupaleiðinni.
Ekki hafa verið gerðar breytingar á öðrum vegalengdum Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka 2009.
Þeir sem vilja glöggva sig á hlaupaleiðum geta kíkt á þessi kort:
Keppnisvegalengdir
http://www.marathon.is/images/stories/kort/hlaupaleid09.jpg
3ja km. Skemmtiskokk
http://www.marathon.is/images/stories/kort/skemmtiskokk_kort.pdf
Latabæjarhlaup
http://www.marathon.is/images/stories/kort/lazy_hlaupaleid.pdf
Á Maraþonsíðunni er hægt að skoða fleiri kort:
http://www.marathon.is/index.php?option=com_content&view=article&id=63&Itemid=258&lang=is
Nánari upplýsingar er einnig að finna á
Maraþon - vefur Íslandsbanka
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka er einstakt á sinn hátt. Með því að hlaupa styrkir þú gott málefni um leið og þú gerir líkama þínum gott til og um leið gefst almenningi kostur á að heita á hlauparana. Við hjá MS-félaginu förum ekkert dult með hvaða málefni er verðugast og þökkum þeim, sem hafa þegar skráð sig í nafni MS-félagsins eða heitið á MS-hlaupara eða eiga eftir að gera það. Enn er nægur tími, því hægt er að skrá sig í hlaupið til kl. 19 á föstudag og skrá áheit fram til miðnættis mánudaginn 24. ágúst.
Hafið samband við skrifstofu MS-félagsins, ef einhverjar spurningar vakna. Síminn er 568-8620.