Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Frumlegri aðferð þeirra Andrei Floroiu og Keith Silats til þess að vekja umheiminn til meðvitundar um MS sjúkdóminn lauk á Íslandi í gær. Félagarnir frá New York komu til Reykjavíkur í 6 manna Cessna flugvél sinni og þar með lauk 30 landa Evrópuferð þeirra á 60 dögum. Lokapunkturinn var flugferð austur til Þingvalla með Berglindi Guðmundsdóttur, formann MS-félagsins, Daníel Kjartan Ármannsson og fréttamann og tökumann frá Íslandi í dag. Ferðin og viðtöl verða send út á miðvikudag eða fimmtudag.
Nokkrum mánuðum fyrir brottförina þ. 31. ágúst hófst skipulagning “Fly for MS”, Flogið í þágu MS-ferðarinnar, og lagði hópur sjálfboðaliða frá ýmsum löndum í New York drjúga hönd á plóginn til þess að þessi einstaka áheita- og kynningarferð mætti verða að veruleika.
Margrét Kjartansdóttir, námsmaður vestan hafs, tók virkan þátt í undirbúningnum og sá sérstaklega um Íslandsþátt ferðarinnar. Ásamt Andrei Floroiu og Keith Silats var með í för á bakaleiðinni ung kona, Andrea Jarabakova, frá Slóvakíu.
Þegar hin eiginlega Evrópureisa hófst þ. 31. ágúst flugu þeir félagar Keith og Andrei ásamt félögum sínum til Kanada og Grænlands áður en þeir lentu á fyrsta eiginlega Evrópuviðkomustaðnum, sem var Ísland. Hingað komu þeir þ. 3. september og tylltu “Fly for MS”-Cessnunni á Reykjavíkurflugvelli. Hópur MS-sjúklinga og aðstandenda var mættur til að taka á móti þessum baráttumönnum fyrir aukinni meðvitund um MS-sjúkdóminn.
Dasaðir í ferðalok
Andrei og Keith voru vissulega dasaðir í gær eftir þessa 60 daga ferð. Andrei sagði við MS-vefinn, að þeir væru mjög ánægðir með ferðina, en alls var um að ræða 47 þúsund kílómetra flug. Hvarvetna sem þeir komu var þeim vel tekið, hittu MS-sjúklinga og lærðu af eigin raun ýmislegt um ólíka stöðu mála hjá MS fólki eftir löndum. Þá má nefna sem dæmi, að þeim var boðið á alþjóðlega ráðstefnu MSIF, alþjóðasamtaka MS-félaga, sem haldin var í Gautaborg.
Með langfluginu “Flogið í þágu MS” slógu þeir félagar met. Aldrei áður hefur átak í þágu MS staðið jafnlengi, náð til fleiri landa og verið jafnumfangsmikið, eins og MS-flugið, sem samsvarar rúmlega vegalengdinni í kringum hnöttinn eða 4100 klifurferð á Mount Everest!.
Flogið í þágu MS er lengsta flugferð, sem nokkru sinni hefur verið farin í velgjörðarskyni og umfangsmesti einstaki viðburður, sem skipulagður hefur verið í sögu baráttunnar fyrir eflingu vitundar um MS-sjúkdóminn. Í löndunum 30, sem voru heimsótt býr 1,2 milljarður manna og þar eru 1,4 milljónir manna með MS eða um 70% allra MS-sjúklinga í heiminum.
Náðu til milljóna manna
Með því að beita þessari óhefðbundnu leið til kynningar á MS tókst þeim að vekja athygli fjölmiðla í viðkomandi löndum og ná þannig til milljóna sjónvarpsáhorfenda og blaðalesenda. Stöð 2 mun fjalla um “baráttuflugið” um Evrópu, ræða við Berglindi formann, Andrei, Daníel og sýna myndir úr flugferðinni til Þingvalla í þættinum Ísland í dag.
Andrei sagði m.a. í samtali við okkur, að fyrirfram hefði hann verið allfróður um MS-sjúkdóminn, m.a. að um væri að ræða sjúkdóm sem legðist einkum á ungt fólk. Engu að síður hefði það komið honum á óvart hversu margir af þeim MS-sjúklingum, sem þeir hittu í ferðinni hefðu verið innan við 25 ára gamlir.
Á hverjum viðkomustað buðu þeir MS-sjúklingum og fjölmiðlafólki í flugferðir og var mikil ásókn í þær. Tilgangurinn með Fly for MS átakinu var að efna til eins konar MS-vitundarhreyfingar og í því skyni tókst þeim að virkja dægurtónlistamenn, sem Andrei og Keith segja mjög mikilvæga áhrifamenn á almenningsálitið. Þá er hafinn undirbúningur að því að mynda öflugan hóp ungs fólks með MS, sem séu virkir talsmenn MS-vandans. Þetta unga fólk hafi sögur að segja, sem líklegt sé að nái eyrum almennings.
Keith Silats og Andrei Floroiu ásamt ónefndum samherjum þeirra eiga þakkir skildar fyrir þetta magnaða átak í þágu MS og óneitanlega blása þessir hugsjónamenn þeim sem eru með MS, aðstandendum og áhugamönnum um málefnið baráttuanda í brjóst.
MS-félagið þakkar þeim Andrei og Keith fyrir komuna hingað til lands.
TENGLAR:
Heimasíða MS-flugsins “Flogið í þágu MS”, sem enn sem komið nær aðeins til fyrri helmings ferðarinnar, er mjög fróðleg. Þar gefst fólki kostur á að lesa um ferðina. Slagorð vefsins er “the sky is not the limit”.
Kaupa Fly for MS stuttermaboli
Daginn sem lagt var upp í ferðina skrifaði Andrei Floroiu fína grein í vefritið Huffington Post.
Á vefnum er sérstök bloggsíða með myndum úr ferðinni.
Írska sjónvarpið (TV3) birti eftirfarandi frétt um komuna til Írlands, 28. landsins.