MS-félag Íslands á afmæli í dag, fagnar heilum 53 árum. Helsti hvatamaður að stofnun félagsins var Kjartan R. Guðmundsson, yfirlæknir taugasjúkdómadeildar Landspítalans, og var helsti tilgangur félagsins að veita aðstoð þeim sjúklingum sem haldnir væru MS-sjúkdómnum. Félagið hefur æ síðan verið málsvari fólks með MS, veitt þeim og aðstandendum stuðning og stuðlað að öflugri fræðslustarfsemi. Áhugasamir geta fræðst nánar um sögu félagsins hér.

 

Stór þáttur í starfsemi félagsins er einmitt fræðslustarfsemi. Það er okkur mikil ánægja að tilkynna í dag um útgáfu bæklings um næringu og mataræði í MS sjúkdómi. Í gegnum tíðina hefur mikið verið rætt um næringu og mataræði í tengslum við MS-sjúkdóminn en enn hefur ekki verið vísindalega sannað að ákveðið mataræði hafi áhrif á MS, þótt skýrar vísbendingar séu um að ákveðið mataræði geti hjálpað, eins og Sóley Guðrún Þráinsdóttir, yfirlæknir tauga- og hæfingarteymis á Reykjalundi minnist réttlega á í formála bæklingsins. Guðlaug GísladóttirThelma Rún Rúnarsdóttir

Hér er komið heildstætt fræðsluefni á íslensku um næringu og mataræði sem sérsniðið er að fólki með MS-sjúkdóminn.  Það erunæringarfræðingarnir Guðlaug Gísladóttir á Landspítala og Thelma Rún Rúnarsdóttir á Reykjalundi sem eru höfundar efnisins sem tekur einnig til þátta eins og þarmaflóru og ofvirkrar þvagblöðru. Þá koma þær fram með góð ráð við undirbúning máltíða og upplýsingatöflur um fæðutegundir.   

Við fengum svo matreiðslumeistarann Steinar Þór Þorfinnsson á Krúsku í lið með okkur við þróun uppskrifta. Hann setur fram spennandi uppskriftir að sósum og kryddlögum ásamt meðlæti, sem hentar bæði með kjúklingi og fiski og hægt er að setja saman á mismunandi vegu. Þessar uppskriftir eru einungis til að gefa fólki hugmyndir að matreiðslu og hvetjum við lesendur til að prófa sig áfram með samsetningar og deila með okkur á samfélagsmiðlum.

Útlitshönnun, myndir og umbrot bæklingsins var svo í traustum höndum Högna Sigurþórssonar, grafísks hönnuðar sem á einnig heiðurinn af hönnun merkis félagsins sem og fræðslubæklingapakka félagsins.

Berglind Guðmundsdóttir, fyrrum formaður félagsins, hefur mikinn áhuga á málefnum sem tengjast næringu og mataræði í tengslum við MS-sjúkdóminn. Hún fékk bæklinginn til yfirlestrar og vildi óska félaginu til hamingju með einkar fallegan, aðlaðandi og mjög fróðlegan bækling. „Hér er kominn bæklingur sem inniheldur mikið af góðum upplýsingum, allt það sem skiptir máli er hér komið í einn bækling sem er hnitmiðaður og auðlesinn til enda.“

Mynd úr bæklingi„Ég hef fylgst með mataræði í 35 ár og það sem hefur reynst mér best er að vera ekkert að flækja hlutina of mikið heldur leggja áherslu á hreinan óunninn mat og sleppa sykri og þeirri fæðu sem einstaklingurinn hefur óþol fyrir. Fólk með MS hefur ekki of mikla orku, á oft erfiðara með að elda sérstaklega fyrir sig eða hlaupa hingað og þangað í heilsubúðir til að kaupa inn.  Þær stöllur Guðlaug og Thelma Rún taka á mörgum þáttum sem skipta okkur MS-fólk svo miklu máli á einfaldan hátt svo allir ættu að geta tileinkað sér þessi góðu ráð án mikillar fyrirhafnar. Til dæmis að fara einu sinni í viku í búðina til að spara orku og borða reglulega yfir daginn sem minnkar þreytu. Þá er frábært að fá umfjöllun um beinþynningu, þarmaflóru, D-vítamín inntöku og þvagblöðruvandamál, svo eitthvað sé nefnt. Uppskriftirnar eru líka frábærar, ekki svo flóknar, en hægt að búa til spennandi mat án þess að það sé svo mikil fyrirhöfn.“

Félagsmenn geta pantað bæklinginn hér og fengið hann sendan í pósti, en hann er einnig aðgengilegur á rafrænu formi hér á heimasíðunni

Þeir sem höfðu forpantað bæklinginn mega eiga von á að fá hann í pósti í vikunni.  

Til hamingju við öll með afmælisdaginn og þennan fróðlega bækling!

 

Berglind Ólafsdóttir,
Framkvæmdastjóri MS-félags Íslands

 Merki Heilbrigðisráðuneytisins

 

Heilbrigðisráðuneytið styrkti útgáfu bæklingsins. 

 

Smelltu hér fyrir rafræna útgáfu bæklingsins

 

Smelltu hér til að panta eintak í pósti