Í MS húsinu í dag kl. 13-16 verður haldið upp á 40 ára afmæi MS félags Íslands. Boðið verður upp á kaffisopa og kökubita. Landsfrægur tónlistarmaður flytur tónlist sína og önnur merk atriði verða á dagskrá. MS félagar, aðstandendur og velvildarmenn MS félagsins eru hvattir til að mæta.

MS félag Íslands átti afmæli fyrir einni viku, þ. 20. september. Og í dag höldum við upp á þessi merku tímamót.

Sérstök afmælisútgáfu af blaði MS félagsins kemur út í dag með alls kyns fróðlegu og kræsilegu efni.

Í tilefni af afmælinu hefur útliti og efnisþáttum MS-vefjarins verið breytt. Fyrst er að nefna, eins og sjá má, að forsíðu vefjarins (heimasíðunnar) hefur verið breytt og er meginhugsunin að breytingunni sú að gera vefinn gagnsærri og um leið aðgengilegri og jafnframt læsilegri.

Meginvinnu við breytingu útlits- og uppbyggingar er lokið, þótt örugglega megi gera ráð fyrir lagfæringum eftir tiltekinn reynslutíma auk þess MS vefurinn verður ávallt í þróun.

Mikil vinna er hins vegar eftir vegna uppfærslu á núverandi efni vefjarins og gömlu efni sem er byrjað að setja aftur inn á vefinn. Þessi vinna er hafin. Við vonum að lesendum vefjarins falli breytingin í geð. Allar athugasemdir eru vel þegnar. Þeim er hægt að koma á framfæri við skrifstofu félagsins eða beint til vefritstjóra á póstfangið halldorjr@centrum.is.

Þá hefur verið gefinn út handhægur bæklingur um MS sjúkdóminn, sem nefnist Það sem þú þarft að vita um MULTIPLE SCLEROSIS.

Loks er vert að geta þess að hér á vefnum birtum við þýðingu á útgáfu EMSP á Siðareglum góðra starfshátta um réttindi og lífsgæði fólks með MS-sjúkdóminn  sem hafa verið lengi til umræðu á vettvangi Evrópusambandsins og MS félaga í Evrópu.  - h