Miðvikudaginn 7. október heimsóttu fulltrúar MS-félagsins, þær Berglind Guðmundsdóttir, Sigurbjörg Ármannsdóttir og Ingdís Líndal Norðlendinga heim. Á Akureyri er öflugt hópastarf meðal MS fólks. Hópurinn hittist yfir vetrarmánuðina fyrsta miðvikudag í mánuði á veitingastaðnum Greifanum og borðar saman.

Á fundunum er að sögn þeirra Norðanmanna rætt um hitt og þetta, daginn og veginn og þá einnig um MS eins og þörf er á. Jón Ragnarsson heldur utan um hópinn og sótti hann okkur, sendinguna að sunnan, á flugvöllinn. Við fengum að kynnast vetrinum því þennan dag snjóaði sjö sentimetra á Akureyri. Það var því vel við hæfi að heimsækja Jólahúsið og skoða þá fallegu muni sem þar er að finna. Við komumst svo sannarlega í jólaskap.

Fundurinn var haldinn á Greifanum og var vel mætt af MS fólki og aðstandendum. Á fundinum fórum við yfir þjónustu MS félagsins og minntum m.a. fólk á að nýta sér íbúðina og þjónustu félagsráðgjafa. Fulltrúar félagsins kynntu það helsta sem er að gerast í lyfjamálum. Mikið var spurt um MS pilluna eða Gilenyu. Því miður er ekki byrjað að gefa hana, en vonadi styttist í það. Mikið var rætt um hvort ekki væri að koma lyf fyrir þá sem eru í svokallaðri síversnun, þ.e. eru ekki að fá ekki bein köst en eru á hægri á niðurleið. Þessi hópur er mjög ósáttur við að fá ekki að reyna nýrri lyf eins og Tysabri og svo Gilenyuna þegar hún kemur. Því miður virðist ekkert í sjónmáli fyrir þennan hóp.

Mynd frá fundi á AkureyriSverrir Bergmann okkar ágæti taugalæknir átti ekki heimangengt, en við kunnum ráð við því. Við notuðum okkur tæknina og hringdum í Sverri á skype og fengum hann í beinni. Hann miðlaði til okkar á fundinum sinni miklu þekkingu á sjúkdómnum og lyfjameðferðum. Fundarmenn gátu svo lagt fyrir hann spurningar. Mikil ánægja var á fundinum með innlegg Sverris og kunnum við honum bestu þakkir fyrir, því eins og endranær er hann ávalt tilbúinn að aðstoða MS fólk og uppfræða. Við kynntum svo jólakortið okkar og hvöttum fundarmenn til að vera duglegir við söluna fyrir jólin. Við stöllur þökkum góðar móttökur og þá sérstaklega Jóni fyrir að taka á móti okkur og verja deginum með okkur.

BG, SÁ, IL