Kristján Einar Einarsson, ljósmyndari, lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Hann hefur haft MS í mörg ár og er einn af félögunum á MS-Setrinu. Þegar fréttist að hann hefði farið í fallhlífarstökk á dögunum var hann beðinn um að deila sögu sinni með veflesurum okkar. Hann tók vel í það og sendi inn ferðasöguna.

 

 

*******

 

 

Þegar ég varð 56 ára fór ég að skoða það sem ég hafði áorkað á árunum. Ég var að skoða gamla bók sem ég skráði öll fallhlífarstökkin mín í og komst að því að þetta sumar voru liðin 40 ár frá því að ég stökk mitt fyrsta fallhlífarstökk.

 

Það kallaði á að taka eitt „afmælisstökk“. Ég hafði hitt félaga mína í Fallhlífarklúbbi Reykjavíkur (FKR) og nefndi við þá að taka eitt „jubelium“stökk í ár. Skemst er frá því að segja að þeir tóku þessu mjög vel og var það úr að ég mundi gera þetta í sumar. Það var mjög gaman hvað þeir töku vel í þessa hugmynd mína en jafnframt setti það þrýsting á mig að það væri nú undir mér komið að gera eitthvað í málinu.

 

 

Ég brunaði því austur á Hellu einn daginn og hitti þar nokkra stökkvara sem voru með mér í stökkinu á sínum tíma. Þar sem langt var síðan ég stökk síðast fannst mér öruggara að fara á „level 2“. Þá eru tveir vanir kennarar sem halda í mig og eru tilbúnir að opna aðalfallhlífina hjá mér. Áður en við fórum á loft fórum við í gegnum gunnþjálfunina, þ.e. að skilgeina mögulegt hættuástand og fara yfir hvað ég mundi gera ef eitthvað kæmi upp á í stökkinu. Þetta gekk allt vel en rétt er að geta þess að ég er með rúm 200 fallhlífarstökk að baki en rúm 10 ár síðan ég stökk síðast.

 

Að hafa þessa vönu stökkvara og kennara með mér í stökkinu gaf mér öryggistilfinningu sem gerði þetta afmælisstökk mögulegt fyrir mig. Það sem olli mér hinsvegar mestum áhyggjum var að mér fannst þetta ekkert mál. Það er alltaf gott að hafa smá áhyggjur því þá er maður á varðbergi og tilbúinn að takast á við óvæntar uppákomur.

 

 

Þegar við vorum komnir í loftið fór ég að slaka á fyrir stökkið og láta hugann reika. Mér fannst hurðin á vélinni vel hönnuð og flugvélin hentug og þægileg í stökk. En hins vegar var ýmislegt frábrugðið því sem ég var vanur í gamla daga. Til dæmis var þrepið á vélinni, til að stíga á rétt fyrir stökkið, bara mjótt þrep fyrir aðeins einn fót en í vélinni sem ég stökk úr í gamla daga var þrep þar sem ég gat tyllt báðum fótunum á. Eins var opnunarbúnaðurinn á öðrum stað á aðalfallhlífinni heldur en ég var vanur.

 

Þegar kom að því að klifra út fann ég vel fyrir því að MS-ið var farið að taka af mér og var ég klaufalegur við að brölta um í vélinni. Það varð til þess að þegar kom að stökkinu klikkaði ég á ýmsu. Til dæmis taldi ég vitlaust og stökk aðeins fyrr en ég átti að gera. Mér til mikillar blessunar voru vanir stökkvarar með mér sem voru tilbúnir öllum frávikum. Það eru fáar sekúndur til umhugsunar fyrir fallhlífarstökkvara sem stefnir á 200 km hraða á mót jörðu. Ekki er hægt að tala saman í stökkinu og allar aðgerðir þarf að sýna með bendingum.

 

 

Fyrir stökkið hafði annar kennaranna sagt að hann mundi opna fallhlífina fyrir mig en ég bað hann að gefa mér eitt tækifæri á því að opna sjálfur en ef það gengi ekki þá ætti hann að gera það.

 

Það var eins gott að við höfðum rætt þetta áður því ég fann ekki opnunarbúnaðinn og því þurfti kennarinn að grípa inn í og opna fallhlífina fyrir mig.

 

Flugið undir fallhlífinni gekk vel og lendingin var mjúk. Ég lýsi því að þetta hafi verið eins og að hoppa niður af símaskrá.

 

Eins og við MS-ingar erum vanir, þá var ég búinn að semja við einn sem var á svæðinu um að sækja mig á bílum mínum þegar ég var lentur. Þarna kom sér vel að gera áætlanir um það sem við erum ekki jafn færir um að gera, eins og að labba frá þeim stað sem við lendum á.

 

Það var ánægjulegt að stökkva eftir 40 ár (eða eftir þessi rúm 10 ár frá síðasta stökki) en ég ætla ekki að leggja þetta fyrir mig og læt mér nægja þetta „afmælisstökk“.

 

 

Ekki hugsa um það sem við teljum okkur trú um að við getum ekki gert, heldur gleðjast yfir því sem við höfum gert og getum gert núna með MS-ið.

 

 

Kær kveðja,

Kristján