Heilsa einstaklinga er ekki aðeins einkamál þeirra, heldur eigum við að gera  kröfu um að þjóðfélög sinni sjúkum einstaklingum sínum sameiginlega, sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í ræðu sem hann flutti á Bessastöðum s.l. sunnudag, þegar hann efndi til móttöku fyrir þátttakendur á 32 landa Lífsgæðaráðstefnu Evrópusamtaka MS félaganna um liðna helgi. Ráðstefna EMSP og MS félagsins stóð helgina 24.-25. maí. MS-Félagið gegndi hlutverki gestgjafans.í fyrsta skipti og á fertugusta afmælisári félagsins. 

Forsetinn lýsti því hversu ánægjulegt það væri fyrir  Íslendinga að halda ráðstefnur af þessu tæi og það væri fagnaðarefni að fá erlenda gesti til Íslands víða að frá Evrópu. Það væri metnaðarmál Íslendinga að halda fróðlegar og viðamiklar ráðstefnur og Íslendingar væru stoltir af því að hafa staðið að þessari ráðstefnu um sjúkdóminn MS, sem enn væri ráðgáta læknavísindanna hvað varðaði lækningu þótt þekking á sjúkdómnum hefði stóraukizt.

Ólafur Ragnar lagði ríka áherzlu á samstarf þjóða í baráttunni við erfiða og flókna sjúkdóma og sagði að heilsa fólks snerti ekki bara einstaklingana sjálfa, heldur bæri samfélögum, s.s. bæjum, borgum og þjóðum skylda til að leggjast á sveif með samborgurum sínum; heilsa þjóða væri alþjóðlegt vandamál og verkefni, ábyrgðin hvíldi á herðum allra.  

Það væri sammannleg krafa, að allir einstaklingar fengju notið sín og þannig væri það alþjóðleg skylda samfélaga heimsins að lækna og líkna, og vinna að rannsóknum og þekkingaröflun til þess, að allir þjóðfélagsþegnarnir nytu sömu lífsgæða og ættu þess kost að taka virkan þátt í þjóðfélaginu.

Forsetinn vék að því öfluga heilbrigðiskerfi sem Íslendingar byggju nú við. Ekki væri langt síðan Ísland hefði verið fátækt land og heilsubrestur tíður. Það hefði breytzt, þjóðinni hefði fjölgað og nú væri Ísland orðið velferðarríki. En Íslendingar hefðu orðið fyrir áföllum, t.d. sjúkdómsfaröldrum. Nefndi hann sérstaklega til sögunnar berklana sem riðið hefði yfir þjóðina. Til dæmis hefði móðir hans fengið berkla. Sumir hefðui náð sér en aðrir ekki og mannfellir orðið mikill. Læknum hefði loks tekizt að vinna bug á þessum vágesti. Ólafur minnti á, að berklum hefði verið úthýst að mestu hérlendis, en þeim hefði ekki verið útrýmt í heiminum og væru sönnun þess, að aldrei mætti sofna á verðinum gagnvart illvígum sjúkdómum. 

Þá minnti forsetinn á að stórkostlegar framfarir hefðu orðið í læknavísindum s.l. 50 ár og beindi því sérstaklega til gesta sinna að þessu sinni, að þeir væru að einhverju leyti að njóta þessara framfara og vonandi bæri framtíðin meiri úrbætur fyrir MS sjúklinga í skauti sér. 
Sigurbjörg Ármannsdóttir, form. MS félagsins, Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og Dorohea Pitschnau-Michel, forseti EMSP

 

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, bauð ráðstefnugestum til móttöku að Bessastöðum. Hér er hann í góðum félagsskap þeirra Sigurbjargar Ármannsdóttur, formanns MS félagsins, gestgjafa ráðstefnunnar, og Dorothea Pitschnau-Michel, forseta Evrópusamtaka MS félaga.

                                            ______________________

Að lokum fluttu Dorothea Pitschnau-Michel, forseti EMSP, og Sigurbjörg Ármannsdóttir stutt ávörp, þar sem þær þökkuðu Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, fyrir móttökurnar. Í upphafi og í lok heimsóknarinnar voru forsetanum færðar gjafir og blóm sem þakklætisvottur.

Til þess var tekið á meðal erlendu gestanna að komið hafði verið fyrir sérstökum römpum fyrir þá sem voru í hjólastólum og var starfsfólk á staðnum til að aðstoða þá sem þurftu. Þá vakti það athygli útlendinganna hversu Bessastaðir væru opnir fyrir umferð en þó þótti þeim sérstaklega merkilegt, að ekki sást neinn öryggisvörður á sveimi við forsetasetrið. Margir höfðu orð á því hversu hlýlegur og fróður íslenzki forsetinn væri og Íslendingar væru lánsamir að eiga slíkan þjóðhöfðingja.

Hluti erlendu ráðstefnugestanna var bókaður í flug strax að ráðstefnunni lokinni og misstu af boðinu. Um 80 gestir komu á Bessastaði og ríkti mikil ánægja með heimsóknina og var gerður góður rómur að stuttri ræðu forsetans. - h 

FJÖLMIÐLARNIR UM MS-RÁÐSTEFNUNA 

Morgunblaðið greindi mjög ítarlega frá MS lífsgæðaráðstefnunni og efni hennar í blaðinu  laugardaginn  24. maí, Yfir tilvísun á forsíðu sagði Hver mánuður getur skipt sköpum. Á bls.13.eru birt viðtöl við prófessor Alan Thompson, heimskunnan taugasérfræðing á sviði "multiple sclerosis" sem segir lyfið tysabri auka bjartsýni MS sjúklinga og við Sigurbjörgu Ármannsdóttur, formann MS-Félagsins, sem segir að á ráðstefnunni hafi "lífsgæði fólks með MS" verið sett í brennidepil. 

Aðstöðuleysi tefur MS lyfið Tysabri
Viðtal við Sigurbjörgu Ármannsdóttur í hádegisfréttum Stöðvar 2, 24. maí 2008

MS-sjúklingar fá ekki þjónustu
Viðtal við Ólöfu H. Bjarnadóttur í hádegisfréttum Útvarpsins 24. maí 2008

FRÉTT með sömu fyrirsögn MS-sjúklingar fá ekki þjónustu, birtist einnig í annarri gerð á rituðu máli á vef fréttastofu Útvarpsins sama dag.

Aðstöðuleysi tefur MS lyfið Tysabri

Viðtal við Sigurbjörgu Ármannsdóttur í hádegisfréttum Stöðvar 2, 24. maí 2008

MS-sjúklingar fá ekki þjónustu
Viðtal við Ólöfu H. Bjarnadóttur í hádegisfréttum Útvarpsins 24. maí 2008

FRÉTT með sömu fyrirsögn MS-sjúklingar fá ekki þjónustu, birtist einnig í annarri gerð á rituðu máli á vef fréttastofu Útvarpsins sama dag.

FJARFUNDIR – MS-ráðstefnan á Netinu

Áfram ve
rður hægt er að fylgjast með ráðstefnuhaldinu laugardaginn 24. maí,, þegar merkustu fyrirlestrarnir voru haldnir,bæði fyrir og eftir hádegi, með því að smella á krókinn FJARFUNDIR á forsíðu vefjarins eða einfaldlega með því að smella á neðangreinda króka:

 MS ráðstefnan 24.5. 2008 - f.hádegi

 MS ráðstefnan 24.5. 2008 - e, hádegi 

TAKIÐ EFTIRUpptökurnar hafa ekki verið snurfusaðar og því geta liðið allt að 10-12 mínútur áður en setning Lífsgæðaráðstefnu MS og fyrirlestrahaldið hefst.