MS-félagið mun halda Alþjóðadag MS hátíðlegan með sumarhátíð í MS-húsinu að Sléttuvegi 5, miðvikudaginn 25. maí. Dagskráin verður auglýst nánar síðar en í boði verða skemmtiatriði, tónlist og veitingar. Við lofum skemmtilegri sumarhátið, jafnvel veðurblíðu.

 

Alþjóðadagurinn 2016 er tileinkaður sjálfstæði.  

Almennt getur MS fólk lifað góðu og sjálfstæðu lífi, þökk sé nýjum lyfjum og betri greiningu. Um þriðjungur fólks með MS hafa væg eða engin einkenni sjúkdómsins eftir mörg ár með sjúkdóminn og þrír af hverjum fjórum lifa virku og sjálfstæðu lífi í mörg ár eftir greiningu.

Viðfangsefni alþjóðadagsins í ár er að finna leiðir til að bæði sjá og skapa möguleika MS-fólks til sjálfstæðis og um leið leggja áherslu á að sjálfstæði getur haft mismunandi þýðingu fyrir hvern og einn. Fyrir suma er mikilvægt að geta unnið þrátt fyrir sjúkdóminn, einhverjum finnst mikilvægt að geta ferðast óhindrað um og öðrum finnst eitthvað allt annað.

 

Sendið okkur sögu

Í tilefni Alþjóðadagsins er MS-fólk um allan heim hvatt til að deila reynslu sinni af því hvernig það getur lifað sjálfstæðu lífi þrátt fyrir sjúkdóminn og hvernig það hefur fundið leiðir til að yfirvinna hindranir sem sjúkdómurinn getur skapað og komið auga á möguleikana.  

Við viljum því eindregið hvetja ykkur til að senda okkur fáein orð eða fleiri um hvað gefur ykkur sjálfstæði undir yfirskriftinni MS stoppar mig ekki..... á netfangið helgak@msfelag.is en einnig er hægt að deila sögum á twitter, fésbókinni eða á öðrum samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #strongerthanMS.

Sögurnar munum við svo setja inn á viðburðarsíðu (sjá hér neðar) og hafa sýnilegar á sumarhátíð félagsins. Vonandi geta þær gefið öðrum hugmyndir og innblástur um hvernig hægt er að lifa skemmtilegu og sjálfstæðu lífi með MS.

Saman mun fólk um allan heim búa til þúsundir af skilaboðum sem fagna stuðningi, deila árangri, auka vitund og brjóta niður hindranir.

 

Búið er að búa til viðburð á fésbókarsíðunni þar sem þið getið fylgst með fréttum og lesið sögur af öðrum - og vonandi ykkur - í aðdraganda sumarhátíðarinnar. Sjá hér.

 

Lesa má sögur MS-fólks víðsvegar að úr heiminum hér.

Vefsíða Alþjóðadagsins er hér.

 

 

HK/BB