Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Alþjóðadagur MS er laugardaginn næstkomandi þann 30. maí. Okkar árlega sumarhátíð hér á Sléttuveginum fellur niður í ár en þess í stað færum við hátíðahöldin yfir á samfélagsmiðlana. Þar má nefna netlistasýningu sem enn er tækifæri til að taka þátt í og alþjóðlega MS kórinn sem mun flytja lagið "Lean on Me" (Bill Withers) í beinni útsendingu þann 30. maí.
Einn liður í hátíðahöldunum er tónlistarveisla með Unni Malín Sigurðardóttur tónlistarmanni. Í næstu viku mun Unnur Malín flytja fyrir okkur eitt lag á dag á samfélagsmiðlum félagsins, facebook og instagram. Unnur Malín hefur verið mjög virk í facebook hópnum Syngjum veiruna í burtu í samkomubanninu og flutt þar fjölmörg lög við góðar undirtektir.
Unnur Malín brást vel við beiðni okkar um að segja sína sögu og fylgir hún hér á eftir.
Ég heiti Unnur Malín og er tónlistarmaður. Ég er fædd og uppalin í Reykjavík, í vesturbænum. Ég fór að læra á trompet þegar ég var níu ára, en skipti svo yfir á baritónhorn, og lék með Skólalúðrasveit Vesturbæjar og Lúðrasveit Reykjavíkur undir stjórn Lárusar H. Grímssonar. Ég var líka alltaf að syngja og var í Kór Melaskóla. Ég fór svo að læra söng 16 ára, fyrst hjá Sverri Guðjónssyni, seinna hjá Jóhönnu Linnet í tónlistarskóla FÍH og svo hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur í Söngskólanum í Reykjavík.
Ég hætti í söngnámi þegar ég eignaðist son minn, sem er að verða tíu ára í nóvember. Um svipað leiti gekk ég í raðir reggí hljómsveitarinnar Ojba Rasta, sem lúðrablásari og bakraddasöngkona. Áttum við góðu gengi að fagna og gáfum út tvær breiðskífur. Árið 2014 flutti ég svo með fjölskyldu minni upp í Biskupstungur, þar sem ég hef búið síðan. Það var þá sem ég fékk í hendurnar rafgítar og fór að æfa mig á hann. Ég hafði aldrei áður spilað á strengi, en féll fyrir hljóðfærinu á örskammri stundu, því loksins var mér fært að syngja um leið og ég spilaði - og ekki leið á löngu þar til ég var farin að semja sönglög.
Ég hélt mína fyrstu sólótónleika í Alþýðuhúsinu á Siglufirði 2017. Síðan þá hef ég komið fram um allt land og fengið ágætar viðtökur.
Í lok mars, byrjun apríl í fyrra, setti heilsan strik í reikninginn. Ég fékk fyrsta MS kastið mitt. Það lýsti sér þannig að ég tapaði samhæfingunni og fínhreyfingum, auk þess sem ég átti erfitt með að stjórna þindarhreyfingum og varð þvoglumælt. Svo ég gat hvorki spilað á gítarinn né sungið. Sem betur fer gengu einkennin til baka, því ég átti bókaða tónleikaferð um Ítalíu í maí. Fyrstu tónleikaferð mína utan landsteinanna. Þó einkennin hafi gengið til baka, var ég í smá vanda stödd. Ég hafði ekkert getað æft mig í þrjár til fjórar vikur, meðan kastið reið yfir, og aðeins var rúm vika í brottför. Auk þess var ég hrædd um að finna mig ekki aftur í tónlistinni. En ég tók þá ákvörðun að ég ætlaði ekki að láta þetta stoppa mig. Með miklum æfingum og elju tókst mér að ná upp aftur nægri færni. Ég fór til Ítalíu og hélt tónleika í níu borgum þar. Ég var ansi stressuð fyrir fyrstu tónleikana mína á Ítalíu, fyrstu tónleikana eftir MS kastið, en þeir gengu vel - og með hverjum tónleikunum öðlaðist ég æ meira öryggi aftur við spilamennskuna.
Fljótlega eftir að ég kom heim lést pabbi minn. Ég hélt nokkra tónleika heima á Íslandi um sumarið. MS greiningin lúrði alltaf yfir mér og ég fann fyrir mikilli depurð og sorg, bæði vegna hennar og auðvitað fráfalls pabba míns. Óvissan hvort ég fengi fleiri köst, hvenær og hvernig var mjög óþægileg.
Ég fékk annað kast í nóvember, og var eftir það sett á lyf. Nýtt lyf sem heitir Mavenclad og er krabbameinslyf og virkar þannig að það drepur hvít blóðkorn sem kallast eitilfrumur. Þeim fylgir sú hætta að maður fái sýkingar, þar sem varnir manns eru brotnar niður, áður en þær byggjast svo upp aftur - og þá er vonin sú að ónæmiskerfið gleymi því að það hafði ráðist á miðtaugakerfið og geri það ekki aftur.
Aðeins um tveimur mánuðum eftir að ég tók fyrst lyfið kom heimsfaraldurinn til Íslands, einmitt þegar ég var með hvað veikasta ónæmiskerfið. Ég lokaði mig því af heima. Þá komu samfélagsmiðlar í staðinn fyrir félagslíf, og tók ég upp á því, eins og margir aðrir reyndar, að syngja og spila og deila því á facebook. Fljótlega var mér boðið í hópinn Syngjum veiruna burtu, þar sem ég hef fengið mjög góðar viðtökur með mína tónlist. Ég get ekki lýst því hversu gott tónlistin gerir mér. Ég get gleymt stað og stund, öllum áhyggjum og stressi. Það er ómetanlegt að eiga sér skjól í tónlistinni.
Nú er ég komin á þann stað að ónæmiskerfið er aftur orðið nokkuð gott. Reynsla mín af lyfinu er mjög góð, allt hefur gengið vel og ég er bjartsýn á að eiga kastalaust ár 2020. Óvissan er auðvitað enn til staðar, en ég er búin að ná sátt við MS greininguna, og finnst ég hafa öðlast nýja sýn á lífið - mér finnst ég njóta þess mun betur en áður - ég veit betur hvað er mikilvægt í lífinu.
Við þökkum Unni Malín kærlega fyrir og hlökkum til að njóta tónlistarinnar í næstu viku. Fylgist með á samfélagsmiðlunum.
BÓ