Í dag er alþjóðadagur MS haldinn hátíðlegur í þriðja sinn. Alþjóðleg samtök MS félaga, MSIF, höfðu veg og vanda af því að koma þessum degi á fót. Upphafleg markmið dagsins voru að auka vitund og þekkingu fólks á sjúkdómnum og styrkja samstarfsnet MS-félaga á heimsvísu. Þema dagsins í ár er framhald af þema síðasta árs eða atvinnuþátttaka og MS, þar sem atvinnuþátttaka og aðgengi að viðeigandi vinnu er afar brýnt mál fyrir margt MS fólk.

MS-félag Íslands er aðili að alþjóðasamtökunum og skipuleggur dagskrá alþjóðadagsins hér á landi. Í tilefni dagsins stendur félagið fyrir landssöfnun meðal almennings og hafa viðtökurnar verið góðar. MS-félagið sendir hjartanlegar þakkir til allra sem styrkt hafa félagið. Fjárframlög einstaklinga gera félaginu kleift að halda úti öflugri þjónustu og námskeiðshaldi.

Skapast hefur sú hefð að vera með opið hús og sumarhátíð í húsnæði félagsins og MS Setursins að Sléttuvegi 5 á þessum degi og svo verður einnig nú. Félagið fær til sín góða gesti og boðið er upp á skemmtun og veitingar fyrir alla fjölskylduna. Veðurspáin í dag er með besta móti og vonum við að MS fólk fjölmenni og taki með sér gesti á öllum aldri.

Í tilefni dagsins útbjuggu bræðurnir Daníel Kjartan og Davíð Fjölnir Ármannssynir stutt myndband sem sýnir MS fólk í daglega lífinu, svo sem á vinnustað og við tómstundaiðkun. Daníel Kjartan er meðstjórnandi í MS-félagi Íslands og fékk hugmyndina að myndbandinu sem bróðir hans hjálpaði honum svo að gera að veruleika. Hægt er að horfa á myndbandið á fésbókinni með því að smella hér (engin þörf er á því að vera skráður notandi fésbókarinnar – allir geta horft á myndbandið). MS-félagið kann þeim bræðrum bestu þakkir fyrir.

Alþjóðasamtökin MSIF hafa einnig látið útbúa 3 stutt myndbönd sem sýna hvernig smávægilegar breytingar á vinnuumhverfi og vinnustöðum geta hjálpað MS fólki að vera lengur virkt á vinnumarkaði. Myndböndin er hægt að skoða með því að smella hér.

En hvað er MS?

MS er...
• langvinnur sjúkdómur í miðtaugakerfinu (heila, sjóntaugum og mænu)
• óútreiknanlegur – einkenni eru mismunandi frá manni til manns og frá einum tíma til annars hjá sömu manneskjunni
• hnattrænn sjúkdómur sem herjar á meira en tvær milljónir manna um allan heim
• hægt að meðhöndla - nú eru til alþjóðlega viðurkennd lyf sem geta 'breytt' eða hægt á framvindu sjúkdómsins. Það eru líka til margar meðferðir og lyf sem virka á tiltekin einkenni sjúkdómsins.

MS er ekki...
• banvænn sjúkdómur – ævilengd flests fólks með MS er sú sama og hjá öðru fólki
• smitsjúkdómur – þú getur ekki 'smitast' af MS frá annarri manneskju
• arfgengur sjúkdómur – rannsóknir benda til þess að til sé erfðafræðilegur þáttur en engin merki eru um að MS sé arfgengur
• læknanlegur sjúkdómur – en framþróun verður á hverju ári. Aukinn skilningur á MS og hugsanlegum orsökum færir okkur nær endanlegri lækningu og því að hægt verði að koma í veg fyrir sjúkdóminn hjá komandi kynslóðum.

Hver fær MS?
Allir geta þróað með sér MS, en þó eru ákveðin mynstur. Flestir greinast á aldrinum 20-50 ára, þó sjúkdómurinn hafi greinst í fólki á aldrinum 2-75 ára.

Allt að þrisvar sinnum fleiri konur en karlar hafa MS. MS fyrirfinnst hjá flestum þjóðum en er algengara hjá hvítu fólki af Norður-evrópskum ættum.

Hver eru einkennin?
MS getur valdið sjóntruflunum, skertu jafnvægi, lélegri samhæfingu, óskýru tali, skjálfta, dofa, mikilli þreytu, verkjum, vandamálum með minni og einbeitingu, lömun og fleiri einkennum.
Flest fólk með MS fatlast ekki alvarlega. Tveir þriðju þeirra sem búa við MS eru færir um að ganga, þótt margir þurfi hjálpartæki eins og staf eða hækjur.

Hvað veldur einkennunum?
Sérfræðingar telja að MS sé sjálfsónæmis sjúkdómur. Það þýðir að ónæmiskerfið ræðst á heilbrigðan líkamsvef eigin líkama – í þessu tilviki hlífðar slíðrið (myelin) sem umlykur taugaþræðina. Það leiðir svo til truflana í taugaboðum.

Hvers vegna er erfitt að greina MS?
Snemma í MS sjúkdómsferlinu geta einkenni komið og farið. Sumir hafa einkenni sem er mjög erfitt fyrir lækna að túlka. Það er engin ein rannsókn sem getur sannað eða útilokað MS sjúkdóminn. Segulómun (MRI) er mjög mikilvæg greiningaraðferð í MS – en er alls ekki aðgengileg í öllum löndum.

Allar nánari upplýsingar um alþjóðadag MS og uppákomur í öðrum löndum er að finna á vefsíðunni www.worldmsday.org

---
Myndin er tekin á alþjóðadaginn í fyrra og er af Lalla töframanni.