Alþjóðasamtök MS, MSIF, hófu á dögunum alþjóðlega könnun, sem ætlað er að kanna hvaða áhrif MS-sjúkdómurinn hefur á atvinnuþátttöku og starfsframa MS-sjúklinga. Könnunin fer fram á netinu og er sett saman úr nokkrum einföldum spurningum. Spurningarnar eru af tvennum toga, annars vegar fyrir MS-sjúklinga og hins vegar aðstandendur. Texti könnunarinnar hefur nú verið þýddur fyrir báða hópana yfir á íslenzku sem stoðgögn.

Í fréttabréfi frá MSIF segir, að hvati rannsóknarinnar sé alþjóðadagur MS árið 2010 og ætlunin að gera rannsókn um heim allan á því hvaða áhrif MS-sjúkdómurinn hafi á atvinnuþátttöku og starfsframa MS-greindra einstaklinga. Niðurstaða rannsóknarinnar verður birt á alþjóðadegi MS 26. maí 2010. Könnunin er aðgengileg á 10 tungumálum, þegar ný vefsíða alþjóðadags MS sem verður að mestu á ensku verður opnuð í næsta mánuði.
Könnunin er á nokkrum tungumálum, m.a. ensku, en ekki á íslenzku. Nú hefur Bergþóra Bergsdóttir þýtt könnunina yfir á íslenzku. Þannig geta þeir sem eiga í vandræðum með að svara könnuninni á t.d. ensku opnað annað hvort fylgiskjalanna með þessari frétt og notað íslenzku þýðingarnar og haft þær til hliðsjónar, þegar þeir svara.

Ein af ástæðunum fyrir könnuninni er sú að veigamesti kostnaðarþátturinn vegna MS er efnahagsleg áhrif þeirrar staðreyndar að MS-sjúklingar neyðast til að hverfa af vinnumarkaði, sumir hverjir, tiltölulega ungir að árum.

Fólk er hvatt til þess að taka þátt í könnuninni. Hún er einföld í uppsetningu og tekur vart meira en fimm mínútur að klára hana.

Því miður er ekki kleift að fylla könnunina sem slíka út á íslenzku. Smellið á íslenzku skjölin hér að neðan, ef þið lendið í vandræðum með enskuna eða önnur tungumál sem þið notið.

Könnun MSIF um atvinnumál MS-greindra er HÉR. 

Stuðningsskjöl – könnunin á íslenzku
Könnun á atvinnuþátttöku – FYRIR MS-GREINDA
Könnun á atvinnuþátttöku – FYRIR AÐSTANDENDUR

Ef lesendur þurfa svör við einhverjum spurningum er þeim velkomið að hafa samband við Bergþóru Bergsdóttur í síma 861 4587 eða Halldór Halldórsson í síma 896 1295 eða hringja í skrifstofu MS-félagsins í síma 568 8620.

hh