Í dag, 22. júlí, er alþjóðlegur dagur heilans (World Brain Day - WBD) og er hann tileinkaður MS sjúkdómnum að þessu sinni.

Að deginum standa alþjóðleg samtök taugalæknafélaga (The World Federation of Neurology - WFN) og í samstarfi við Alþjóðasamtök MS-félaga (MS International Federation - MISF) er kastljósinu nú beint að MS sjúkdómnum með það að markmiði að auka vitneskju og vitund um MS.

MS er taugasjúkdómur sem hefur áhrif á alla þætti tilverunnar. Einkennin geta verið allt frá hugrænum skerðingum til verulegrar líkamlegrar fötlunar.

„Á hverju ári notum við alþjóðlegan dag heilans til að varpa ljósi á svið taugalækninga sem þarfnast athygli heimsins,“ segir prófessor Tissa Wijeratne, formaður WBD. „Á fimm mínútna fresti fær einhver greiningu á MS-sjúkdómi sem umbyltir öllu í lífinu, svo þetta gæti ekki verið brýnna mál.

MS er bólgusjúkdómur sem veldur skemmdum á taugum, heila og mænu. Einkenni MS eru margvísleg, þar með talin þreyta, verkir, sjóntruflanir, vandamál með samhæfingu og hreyfanleiki sem og hugræn og tilfinningaleg vandamál. Snemmgreining og aðgangur að sjúkdómsbreytandi meðferðum skiptir miklu máli til að bæta lífsgæði sjúklinga og hægja verulega á framgangi sjúkdómsins.

„Við erum ánægð með samstarfið við alþjóðleg samtök taugalæknafélaga til að varpa kastljósinu á MS-sjúkdóminn á þessum alþjóðlega degi heilans, “segir Rachel King hjá alþjóðasamtökum MS-félaga. „Þó engin lækning sé til við MS-sjúkdómnum, hafa miklar framfarir orðið á undanförnum árum í að bæta meðferðarúrræði fyrir fólk með MS. Við leggjumst nú á eitt til að tryggja að allir hafi aðgang að réttri meðferð á réttum tíma."

„Yfir 2,8 milljónir manna á öllum aldri eru með greiningu um MS-sjúkdóm í heiminum og sérhver á sér sína sögu, vini, fjölskyldu og drauma,“ segir forseti WFN, prófessor William Carroll. „Markmið okkar er að vekja athygli á MS sjúkdómnum og áhrifum hans á einstaklingana sem lifa með honum, ástvini þeirra og samfélag til að bæta aðgengi að góðri umönnun og lífsbreytandi meðferðum.“

Til að fræðast frekar um MS endilega heimsækið vefsíðuna https://wfneurology.org/world

 

#WorldBrainDay2021