09.06.2011
Stjórnvöld hafa greint frá því, að bætur almannatrygginga verði hækkaðar um 8,1% á flesta bótaflokka til samræmis við nýgerða kjarasamninga, framfærsluuppbót verði hækkuð úr úr 184.140 í 196.140 og allir lífeyrisþegar sem fengu greiddan lífeyri á tímabilinu 1. marz-31. maí á þessu ári fái 50 þúsund króna eingreiðslu. Stefnt er að reiða fram eingreiðsluna ásamt leiðréttingu vegna júní sem fyrst. Dagsetningin hefur ekki verið kynnt.
Frá þessu var greint á blaðamannafundi í velferðarráðuneytinu fyrr í vikunni og er gripið til þessara aðgerða, að sögn Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra, til að samræma kjarabætur örorkuþega og launafólks í dúr við nýgerða kjarasamninga. Eftir að Guðbjartur Hannesson varð velferðarráðherra hefur hann lofað að lífeyrisþegar fái sambærilegar kjarabætur og fólk á vinnumarkaði.
Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalagsins, og Lilja Þorgeirsdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna, sögðu, að eftir að heildarsamningar ASÍ og SA tókust hafi blasað við sá vandi hvernig útfæra skyldi frágang og skipan bótahækkunar í flóknu almannatryggingakerfi, þannig að hækkanir skiluðu sér til lífeyrisþega. ÖBÍ hafi lagt áherslu á að lífeyrisþegar fengju hækkanir sem fyrst og að þær yrðu ekki teknar strax tilbaka með skerðingum annars staðar í kerfinu.
Guðmundur og Lilja sögðu í yfirlýsingu, að mikilvægt væri, “að öll viðmið s.s. uppbótarflokkar og frítekjumörk hækkuðu til samræmis við kjarabætur.” Í yfirlýsingu þeirra er minnt á að kjör lífeyrisþega hafi verið skert í tvígang árið 2009 og þau Guðmundur og Lilja áréttuðu, að lífeyrisþegar hefðu ekki fengið neinar leiðréttingar á kjörum síðan um mitt ár 2009 eða í 2 ár.
“ÖBÍ áréttar að hækkanir til lífeyrisþega komi til framkvæmda sem allra fyrst og minnir á að kjör lífeyrisþega voru skert með lögum 1. janúar 2009 á undan öðrum og enn frekar þann 1. júlí sama ár með nánast engum fyrirvara.”
Í tilkynningu Velferðarráðuneytisins um leiðréttingar á kjörum lífeyrisþega segir svo um leiðréttingarnar:
Allir lífeyrisþegar sem fengu greiddan einhvern lífeyri á tímabilinu 1. mars – 31. maí 2011 munu fá 50.000 krónu eingreiðslu.
Eftirtaldir bótaflokkar almannatrygginga hækka um 8,1% frá 1. júní 2011:
Elli- og örorkulífeyrir, endurhæfingarlífeyrir, aldurstengd uppbót, tekjutrygging, barnalífeyrir,
heimilisuppbót, uppbætur á lífeyri og sérstök uppbót til framfærslu.
Aðrar bætur félagslegrar aðstoðar hækka einnig um 8,1% frá 1. júní 2011, þ.e. mæðra- og feðralaun, umönnunargreiðslur, maka- og umönnunarbætur, barnalífeyrir vegna menntunar og dánarbætur
Viðmið framfærsluuppbótar hækkar úr 184.140 í 196.140 frá sama tíma, þ.e. 1. júní,
orlofsuppbót til örorkuþega hækkar úr 24.374 í 34.489 og desemberuppbót til örorkuþega hækkar úr 37.786 í 52.901.
Einnig mun uppbót vegna rekstrar bifreiðar (bensínsstyrkur) hækka um 8,1% frá 1. júní og fer úr 10.828 í kr. 11.705 jafnframt því sem uppbótin mun ekki skerða framfærsluuppbótina eins og verið hefur til þessa.
Greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna hækka um 8,1% sem og fæðingarstyrkur til foreldra og ættleiðingarstyrkir.
Stefnt er að því að greiða eingreiðsluna ásamt leiðréttingu vegna júní sem fyrst samkvæmt upplýsingum sem ÖBÍ hefur fengið. Dagsetning hefur þó ekki verið gefin upp ennþá.
Halldór Halldórsson