Um sexleytið í gær var skrifað undir kjarasamninga. Ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig til að hækka bætur í almannatryggingakerfinu í samræmi við kjarasamningana, þ.e. hækkun bóta um allt að 20% . Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem birt var í gærkvöld kemur fram, að stjórnvöld munu endurskoða bætur almannatrygginga með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninganna, þannig að lífeyrisþegar og atvinnulausir njóti hliðstæðra kjarabóta og um var samið í kjarasamningunum.
Þetta ákvæði í yfirlýsingunni um bætur almannatrygginga var eitt af áhersluatriðum Alþýðusambands Íslands. Í Vísi.is segir í frétt um samningana, að eftir því sem vefritið komist næst þýði þetta ákvæði að bætur í almannatryggingakerfinu gætu hækkað um allt að 20% á því þriggja ára tímabili sem kjarasamningarnir ná til. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra kynntu yfirlýsinguna á blaðamannafundi í Alþingishúsinu eftir að skrifað var undir kjarasamningana.
ASÍ segir almennar launahækkanir á næstu þremur árum verða 11,4% en hækkun lágmarkslauna verði þó mun meiri eða 23,6%. 50.000 króna eingreiðsla komi til útborgunar þegar samningarnir hafa verið samþykktir í atkvæðagreiðslu og aðrar 25.000 krónur í tveimur greiðslum síðar á árinu. Samningurinn gildir til 31. janúar 2014 með endurskoðun í janúar 2012 og janúar 2013. Jafnframt eru ákveðnir fyrirvarar er varða stjórnvöld og aðgerðir á vegum þeirra.
Samhliða kjarabótum fela kjarasamningarnir í sér ásetning ríkisstjórnarinnar um aðgerðir sem ætlað er að efla velferðarkerfið og örva hagkerfið.
“Óhjákvæmilegt að hækka örorkulaun” Launþegar munu fá 4,25% almenna launahækkun í júní, 3,5% hækkun í febrúar á næsta ári og 3,25% launahækkun í febrúar árið 2013. Sérstök áhersla er lögð á hækkun lægstu launa með hækkun launataxta um allt að 21% og lágmarkstekjutryggingar um 23,6%. Þá verður persónuafsláttur verðtryggður frá og með næstu áramótum.
Verðtrygging persónuafsláttar verður lögfest og hækkar persónuafsláttur samkvæmt því í ársbyrjun 2012. Þar til viðbótar munu stjórnvöld í samráði við aðila vinnumarkaðarins skoða möguleika á hækkun krónutölu persónuafsláttar eða ígildi hennar í formi lækkunar skatthlutfalls á lægsta skattþrepi frá árslokum 2013.
Hækkun bóta öryrkja er ákaflega mikilvæg og mikilvægt að ríkisstjórnin standi við loforð sín frá því í gærkvöld.
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, sagði raunar fyrir nokkrum dögum, að það væri algjörlega óhjákvæmilegt að hækka örorkulaun. Yfirlýsingin kom í kjölfar frétta um bága stöðu öryrkja og viðtala við forystufólk ÖBÍ í lok aprílmánaðar.
Haft hefur verið eftir
Guðmundi Magnússyni, formanni ÖBÍ, að ástandið meðal öryrkja sé skelfilegt og stór hluti þeirra búi við raunverulega fátækt. Guðmundur segir, að fólk leiti til bandalagsins vegna þess að það sjái ekki fram á að peningarnir endist út mánuðinn. “Ástandið’ hefur farið hríðversnandi síðan hrunið varð,” sagði Guðmundur við Morgunblaðið 26. apríl s.l.
Það er ekki hægt að lifa á þessu
Í fjölmiðlum hafa verið tekin dæmi af öryrkjum, sem hafa um 160 þúsund krónur á mánuði til umráða eftir skatta og raunar eru til dæmi um öryrkja, sem hafa jafnvel enn minna fé milli handanna á mánuði. Það segir sig sjálft, að það er enginn leikur að komast af með svona lágar fjárhæðir, að ekki sé minnzt á einstæða foreldra með eitt til tvö börn.
Guðmundur Magnússon sagði í samtali við MS-vefinn, að ástandið væri óþolandi og stjórnvöld yrðu að grípa til haldbærra aðgerða. Þá benti hann á, að aðgerðir, sem gripið hefði verið til, dygðu ekki og í raun hefðu lítilvægar en mikilvægar úrbætur reynzt gagnslausar, því þær væru hrifsaðar burtu úr höndum öryrkja með öðrum aðgerðum. “Þetta er sýndarmennska og fólki er haldið í fátæktargildru. “Ég þekki mörg dæmi um fólk, sem hefur um 60 þúsund krónur á mánuði eftir að hafa staðið í skilum með fastar greiðslur og kostnað. Hvernig á fólk að geta lifað á þessu smáræði? spyr Guðmundur og svarar sjálfur: “Það er ekki hægt.”
Minna má á, að um miðjan marzmánuð kynnti velferðarráðuneytið ný íslenzk neyzluviðmið. Samkvæmt þeim eru kjör öryrkja langt undir þessum viðmiðum vegna lágra bóta og vanmats á kostnaði fólks, sem þarf að draga fram lífið á lágmarksbótum.
halldorjr@centrum.is