Halldóra Björnsdóttir, framkvæmdarstjóri BEINVERNDAR, hélt frábæran fyrirlestur um beinvernd  og beinþynningu 14. apríl sl. Beinþynnig er einkennalaus þar til bein brotna. Máltækið „Betra er heilt en vel gróið“ á vel við.

Beinþynning er sjúkdómur í beinum sem einkennist af rýrnun á beinmagni og uppbyggingu beinvefsins með þeim afleiðingum að styrkur beinanna minnkar, þau verða stökk og hætta á beinbrotum eykst.

 

ALGENGUR OG ALVARLEGUR SJÚKDÓMUR

Beinþynning er mjög algengur sjúkdómur – ein af hverjum þremur konum og einn af hverjum fimm körlum eftir fimmtugt munu brotna síðar á ævinni. Hjá konum er áhættan á beinþynningu meiri en samanlögð áhætta á krabbameini í brjóstum, eggjastokkum og móðurlífi og hjá körlum er hættan meiri en á blöðruhálskrabbameini.

Áhættan er því mikil og afleiðingarnar geta verið alvarlegar. 20% þeirra sem verða fyrir mjaðmabrotum deyja innan við 6 mánuðum eftir brot.

Beinþynning eykst með aldri og eru konur eftir tíðarhvörf í aukinni hættu.

 

 

ÁHÆTTUÞÆTTIR

Áhættuþættir beinþynningar eru margvíslegir, svo sem:

         Aldur

         Kyn

         Ættarsaga um beinþynningu

         Hvítur kynstofn

         Saga um beinbrot

         Langvinnir sjúkdómar

         Lyf

         Ótímabær tíðahvörf

         Grannholda fólk, undir kjörþyngd

         Kalk og/eða D-vítamínskortur

         Hreyfingarleysi og/eða ofþjálfun

         Reykingar

         Óhófleg áfengisneysla

 

Einstaklingar með MS er útsettari en margir aðrir. Það er þá helst:

         Aldur

         Kyn

         Fjölskyldusaga

         Hvítur kynstofn

         D-vítamínskortur

         Reykingar

         Minni hreyfing

         Sterar.

 

LYFJANOTKUN - STERAR

Sykursteralyf, Corticosteroids, sem oft eru notuð við meðhöndlun á MS-köstum eru þekkt fyrir að eyðileggja beinin. Fleiri lyf geta einnig haft áhrif á niðurbrot beina.

Þegar MS-fólk fær stera er mikilvægt að ræða við lækni um hættu á beinþynningu, sjá hér og íhuga mótvægisaðgerðir.

Ýmsir sjúkdómar geta haft áhrif á beinþynningur, eins og t.d. meltingafærasjúkdómar.

 

 

HVAÐ ER HELST TIL RÁÐA?

Heilbrigður lífsstíll, þ.e. regluleg hreyfing og gott mataræði, er mikilvægur til að minnka líkur á beinþynningu. Huga þarf að kalkríku fæði og D-vítamín inntöku.

Líkamshreyfing sem felur í sér þungaberandi æfingar eins og  göngur og skokk, leikfimiæfingar, pilates, styrktaræfingar, jafnvægisæfingar, jóga og tai chi gerir kraftaverkt

Mikilvægt að vera í góðum tengslum við lækni sinn og ræða við hann um heilbrigði beinanna og hvort lyfin sem tekin eru hafi áhrif á beinin.

Þá er hægt að láta mæla D-vitamin- styrk í blóðinu og fara í beinþéttnimælingu ef ástæða er til. Hægt er að taka nokkurs konar áhættupróf á vef Beinverndar til að meta áhættu þess að vera með eða fá beinþynningu.

Til eru beinþéttnilyf sem hafa þau áhrif að bein geta þést þannig að lyfin stöðva eða hægja á beinþynningu.

Til að fræða okkur um orsök, einkenni og ráð fengum við. Hér er í stuttu máli sagt frá efni fyrirlestursins og lesendur hvattir til að skoða glærur frá fundinum.

 

BEINÞÉTTNIMÆLING

Mikilvægt er að fara í beinþéttnimælingu ef grunur er um beinþynningu. Á vefsíðu Beinverndar er hægt að taka tvö próf til að meta áhættuna.

ÁHÆTTUPRÓF hér og

ÁHÆTTUREIKNIR hér.

Einnig geta litlir beinþéttnimælar sem fást t.d. í Lyfju gefið vísbendingar um þörf á frekari mælingu á beinþéttni.

Ef prófin koma illa út er gott að fara í beinþéttnimælingu.

Hægt er að fá upplýsingar um beinþéttnimælingu á næstu heilsugæslustöð og einnig á Landsspítala háskólasjúkrahúsi í Fossvogi og á Fjórðungssjúkrahúsi Akureyrar þar sem mælingar fara fram.  Eins og staðan er í dag þarf ekki tilvísun frá lækni fyrir konur sem eru 40 ára og eldri. Sjúklingur greiðir kr. 1500.- fyrir mælinguna. Röntgentæknir framkvæmir mælinguna og getur sagt viðkomandi strax eitthvað um ástand beina en síðan fer læknir yfir allar mælingar

 

GAGNLEGAR VEFSÍÐUR OG HEIMILDIR ÞESSARAR GEINAR

Beinvernd er með vefsíðuna beinvernd.is og fésbókarsíðu sem fólk er hvatt til að skoða og líka við.

Hægt er að nálgast ýmsa bæklinga hér.

Glærukynningu Halldóru Björnsdóttur frá fræðslufundinum má nálgast hér.

 

 

Bergþóra Bergsdóttir og Berglind Guðmundsdóttir