VIÐBYGGING við hús MS-félags Íslands á Sléttuvegi 5 í Reykjavík verður

tekin í notkun 1. desember næstkomandi, að sögn Sigurbjargar Ármannsdóttur,

formanns félagsins. Viðbyggingin er um 180 m2 að stærð og mun bæta mjög

aðstöðu til dagvistunar, sjúkra- og iðjuþjálfunar og umönnunar.

 

Dagvistin rýfur einangrun

MS-félagið opnaði fyrst dagvist í Álandi 13 fyrir 21 ári. Sigurbjörg sagði

að í upphafi hefðu 12 til 14 manns komið og sótt dagvistina. Á hverjum

virkum degi koma nú um 40 manns til að njóta ýmissar þjónustu í MS-húsinu,

en þangað koma um 70 einstaklingar á aldrinum 28-67 ára í viku hverri í

þeim erindum. Rúmlega 65% þeirra eru MS-fólk og það fær forgang að

dagvistinni. Um 320 einstaklingar hér á landi hafa greinst með

MS-sjúkdóminn. Einnig nýtur þarna þjónustu yngra fólk sem sökum sjúkdóma

eða fötlunar þarf aðstoð við daglegar athafnir og/eða endurhæfingu. Reynt

er að veita sem víðtækasta þjónustu í dagvistinni. Þar starfa

sjúkraþjálfarar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, iðjuþjálfar,

listmeðferðarfræðingur, félagsráðgjafi og læknir.

 

"Þeir sem njóta dagvistar hér eru einstaklingar sem ekki geta lengur verið

á vinnumarkaði vegna sjúkdómsins," sagði Sigurbjörg. "Áður en dagvistin var

opnuð var fólkið oft eitt heima í félagslegri einangrun og átti ekki völ á

neinum úrræðum. Okkur MS-fólki þótti mjög brýnt að koma upp dagvist eða

samastað þar sem fólk fengi ákveðna þjónustu og félagsskap. Það er

mikilvægt fyrir alla, að hver dagur hafi tilgang, eitthvað til að hlakka

til, hitta fólk eða glíma við margvísleg viðfangsefni."

 

Gjörbreytt aðstaða

Viðbyggingin mun gjörbreyta aðstöðunni í MS-húsinu. Sigurbjörg sagði að

plássleysi hefði staðið starfseminni fyrir þrifum síðustu árin. Með stækkun

húsnæðisins myndu kraftar starfsmanna nýtast mun betur en áður og hægt yrði

að bæta þjónustuna enn frekar. Með viðbótarhúsnæðinu batnar mjög aðgengi

þeirra sem ferðast um á rafskutlum. Innan við innganginn verða stæði á

upphituðu gólfi fyrir rafskutlurnar og þar geta ökumenn þeirra fært sig

yfir í hjólastóla. Í húsinu verður lyftubraut sem Svölurnar, félag

fyrrverandi flugfreyja, gáfu. Með henni verður unnt að flytja fólk á

þægilgan hátt milli herbergja í húsinu. Þannig auðveldar lyftubúnaðurinn

mjög aðstoð við alla umönnun og þjálfun. "Við hér segjum að gamni okkar, að

um loftflutninga verði að ræða með tilvísun til gefanda brautarinnar,"

sagði Sigurbjörg.

 

Mikilvægur stuðningur

Viðbyggingin mun kosta um 60 milljónir króna, að sögn Sigurbjargar. Hún

sagði að félagið hefði fengið rausnarlega styrki sem hefði gert

framkvæmdina mögulega. Mest hefði munað um höfðinglegt framlag

Minningarsjóðs Margrétar Björgólfsdóttur að upphæð 20 milljónir króna. Það

hefði gert MS-félaginu kleift að hefjast handa af krafti. Stjórnarnefnd um

málefni fatlaðra lagði fram 10 milljónir króna og MS-félagið hefur safnað

um 10 milljónum sem varið verður í verkefnið. Sigurbjörg sagði að einnig

yrði leitað til fjárveitinganefndar Alþingis og heilbrigðisráðherra um

aðstoð við að ljúka verkefninu. Þá nefndi Sigurbjörg að Svölurnar,

Oddfellowreglan ásamt fleiri félagasamtökum og Reykjavíkurborg hefðu stutt

starf MS-félagsins dyggilega í gegnum árin.

 

MS-félagið stendur fyrir fjölbreyttu félagsstarfi. Haldnir eru

fræðslufundir og námskeið, bæði fyrir fólk sem nýlega hefur greinst með MS

og þá sem hafa lengur vitað af sjúkdómnum, aðstandendur MS-fólks, hjón og

pör. Veglegir styrkir sem söfnuðust í Glitnis-maraþoninu hafa gert kleift

að miðla mörgum fræðsluerindum með fjarfundabúnaði. Eins er hægt að horfa á

fræðsluerindin með því að fara inn á heimasíðu félagsins (www.msfelag.is).

Mörg hundruð manns hafa nýtt sér þessa þjónustu. Sigurbjörg segir fræðsluna

ákaflega mikilvæga til að hjálpa einstaklingum og fjölskyldum að takast á

við það þegar MS-sjúkdómurinn kemur inn í líf fólks. Í MS-húsinu eru

jógaæfingar fimm sinnum í viku. Þar er einnig starfandi félagsráðgjafi sem

MS-fólk getur leitað til.

 

Sigurbjörg taldi stækkun MS-hússins skapa mikil sóknarfæri fyrir starfsemi

MS-félagsins. Hún sagði stjórn félagsins mjög áfram um að efla enn frekar

starfsemina í húsinu fyrir MS-fólk utan hefðbundins dagvinnutíma, þ.e. á

kvöldin og um helgar.

 

"Það gefur augaleið að aukið húsnæði býður einnig upp á fleiri möguleika á

félagslega sviðinu og munum við bráðlega fara í hugmyndavinnu og

skipulagningu í því sambandi," sagði Sigurbjörg.

 

www.msfelag.is