MS-samtökin í Bandaríkjunum og Kanada hafa ákveðið að leggja samtals 2,4 milljónir Bandaríkjadala til styrktar sjö nýjum rannsóknarverkefnum, sem beinast að því að afla meiri þekkingar á blóðrennsliskenningunni, CCSVI, sem greint hefur verið áður frá vef MS-félagsins. Lyfjanefnd MS-félagsins telur fulla ástæðu til að rannsaka frekar þessa nýju og byltingarkenndu kenningu um hugsanlegan þátt æðaþrengsla í MS.

CCSVI (chronic cerebrospinal venous insufficiency) er samkvæmt fyrstu rannsóknum krónískur galli í blóðstreymi frá heilanum og mænunni og kann að valda skemmdum á taugakerfi MS-sjúklinga. Það var dr. Paolo Zamboni við Ferrara háskóla á Ítalíu, sem setti tilgátuna fram og byggði hann hana á bráðabirgðaniðurstöðum rannsóknar á 65 MS-sjúklingum. Niðurstöðurnar voru birtar opinberlega í júní í fyrra.

Þess má geta, að í vísindakálfi New York Times fyrir nokkru var sérstaklega fjallað um fráflæðikenningu Zambonis og vikið að mjög skiptum skoðunum vísindamanna um kenningu ítalska læknisins. Vísindamenn skiptist í tvo hópa, annars vegar þá sem vilji láta reyna á kenninguna og hins vegar þá sem hæðist að henni.

Fráflæðikenningin er róttæk í þeim skilningi, að samkvæmt henni er nánast horfið frá flestum eldri kenningum um rætur sjúkdómsins sem taugasjúkdóms, sem stafi af biluðu ónæmiskerfi og bólgum.

Í umræðum á Netinu hafa MS-sjúklingar einkum hent kenninguna á lofti, eins og algengt er á meðal MS-sjúklinga um nýjar hugmyndir um þennan ólæknandi sjúkdóm. Vísindamenn hafa verið varkárir í umsögnum sínum. MS-sjúklingar sem hafa tjáð sig um fráflæðikenninguna með jákvæðum hætti telja kenninguna dæmi um frumlega hugsun og nálgun, sem gæti umbylt allri meðferð MS-sjúkdómsins. Gagnrýnendur hennar segja, að um sé að ræða fráleita hugmynd, sem muni koma til með að kosta bæði óþarfa tíma- og peningaeyðslu – og kunni jafnvel að skaða sjúklinga.

Með nýju rannsóknarverkefnunum verða stigin mikilvæg skref til að sannreyna þetta fyrirbæri, sem Zamboni lýsir og fá skorið úr um það hvort skert frárennsli blóðs sé orsök MS eða eigi einhvern þátt í MS-sjúkdómnum á annan hátt.

MSIF, alþjóðasamtök MS félaga hafa tekið saman greinargerð um frárennsliskenninguna. 

Lesið yfirlýsingu MSIF um CCSVI – á ensku
 

 

                                                                                                                                 - hh