“Benjamín, þú veist .” sagði Kata “að mamma þín er með sjúkdóm sem ekki er hægt að lækna, hann hverfur ekki.” Á alþjóða MS-deginum í lok maí kom út bókin “Benjamín, mamma mín og MS” á íslenzku í þýðingu Berglindar Ólafsdóttur. Hún er einkum ætluð börnum og um leið foreldrum til að fræða unga fólkið um MS-sjúkdóminn á einfaldan hátt í söguformi. Búið er að dreifa bókinni til félaga í MS-félaginu. Höfundar eru Stefanie Lazai og Stephan Pohl.

Bókin um Benjamín mömmu hans og MS (“Benjamin – My Mum is Special” á ensku), er einkar lipurlega skrifuð og aðgengileg bók fyrir börn. Hún er kjörin til að gera börnum, læsum og ólæsum, allglögga grein fyrir MS-sjúkdómnum og í hverju hann felst. Hún er kjörin fyrir foreldra til að lesa fyrir börn sín, börn aðstandenda og vini barna sinna og ræða um sjúkdóminn í framhaldi af því. Raunar kemur í ljós við lestur bókarinnar, að hún getur verið þarft hjálpartæki fyrir fullorðna, sem þó kunna skil á MS, því í bókinni tekst höfundunum nefnilega að gera flókna hluti einfalda.

Bókin um Benjamín nýtist einnig hiklaust almenningi til að fræðast um “multiple sclerosis” vegna einfaldrar orða- og hugtakanotkunar. Í bókinni er MS-sjúkdómurinn útskýrður á einfaldan og aðgengilegan hátt með augum barnsins.

Efnislega eru ef til vill mikilvægustu upplýsingarnar í bókinni þær “að börnin viti að mamma, pabbi, afi, amma, vinur eða ættingi deyr ekki úr MS,” eins og Berglind Guðmundsdóttir, formaður MS-félagsins segir í kveðju til félagsmanna, sem fylgir bókinni.

Í bréfi sínu segir Berglind formaður:

Við hvetjum félagsmenn MS félagsins til að nýta bókina vel og fræða börn og aðra ættingja. Félagið hvetur líka börnin til að vera dugleg að fræða aðra um sjúkdóminn. Börn sjá hlutina oft í öðru ljósi og við sem erum fullorðin eigum að leyfa börnunum að tjá sig og segja frá MS. Fræðsla og umræður eru alltaf af hinu góða og efla vitund almennings um sjúkdóminn.

MS félagið sendir öllum félagsmönnum eintak af bókinni “Benjamín – Mamma mín og MS” auk þess, sem hún fer á öll almenningsbókasöfn landsins. Hún verður jafnframt send til sjúkrastofnana. Lyfjafyrirtækið Bayer Schering Pharma kostar íslenzku útgáfuna og kann MS-félagið því beztu þakkir fyrir.

Óskir þú nánari upplýsinga um bókina getur þú haft samband við skrifstofu MS-félagsins í síma 568-8620.   - hh