Í tilefni af Degi sjúkraþjálfunar sem er í dag, 8. mars, hvetur MS-félagið félagsmenn sína til að gera eina eða fleiri líkamsæfingar, allt eftir getu hvers og eins. Með þessari frétt eru tveir hlekkir á vefsíðu Landlæknis með líkamsæfingum.

Sú fyrri er með teygjuæfingum sem eru góðar fyrir alla, unga sem aldna, ekki aðeins börn og unglinga, en þær þarf að hlaða niður í tölvuna. Æfingarnar eru bæði myndrænar og með texta og eiga að vinna gegn álagsmeiðslum á stoðkerfi. Slóðina á forritið er að finna hér. Velja þarf hnappinn Sækja forritið og fara svo eftir leiðbeiningum um niðurhal. Þegar forritið er byrjað að vinna og æfingaskjárinn birtist má breyta stillingum á fjölda æfinga og tíðni þeirra með því að velja Valkostir. Þessar æfingarnar henta öllum, hvort sem fólk er bundið í hjólastól eða ekki.

Þá er er einnig að finna á vefsíðu Landlæknis kennslumyndbönd með styrk- og teygjuæfingum, sjá hér. Síðan vísar á hlekki sem þarf að tvísmella snöggt á og opnast þá stutt myndband inn á YouTube og æfingarnar þar sýndar og útskýrðar í máli og myndum. Um er að ræða æfingar sem leiðbeina um rétta framkvæmd styrk- og teygjuæfinga fyrir helstu vöðvahópa líkamans. Æfingarnar eru mismunandi og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

 

Í nýútkomnu blaði MS-félagsins, MeginStoð, er að finna mjög góða grein á blaðsíðum 41-44 eftir Sif Gylfadóttur MSc, sjúkraþjálfara á Reykjalundi, sjá hér. Hún hefur víðtæka þekkingu og reynslu í sértækri þjálfun fólks með MS. Í grein sinni fer hún yfir fræðin, reynslu sína og annarra og spáir í framtíðina.

Í niðurlagi greinar hennar kemur fram að rannsóknir sýni að hægt sé að hafa áhrif á heilann með þjálfun og þannig sé hægt að nýta aðlögunarhæfni hans til aukinnar líkamlegrar getu til athafna. Sif telur að sértæk líkamleg þjálfun hafi sýnt sig skila árangri til að viðhalda og bæta göngugetu, bæta jafnvægi og auka jafnvægisöryggi MS-fólks.

Sif hefur þróað og haldið utan um námskeið fyrir MS-fólk í MS-heimilinu, sjá frétt hér. Aldrei er of seint að hringja í skrifstofu MS-félagsins í síma 568 8620 og athuga hvort til sé laust pláss.

 

Gangi ykkur vel með æfingarnar !

 

Bergþóra Bergsdóttir