Þessi misseri er verið að prófa ýmis lyf, svo sem Tysabri og Gilenya, fyrir síversnunarform MS en þau hafa hingað til einungis verið ávísuð til MS-sjúklinga með kastaform sjúkdómsins. Einnig eru ný lyf í þróun og prófunum fyrir þessa tegund sjúkdómsins. Augu vísindamanna og lækna eru að opnast fyrir því að enn sé bólguvirkni í sjúkdómnum hjá MS-sjúklingum í síversnun og því sé ekki útilokað að sömu eða svipuð lyf virki á báða sjúklingahópa.

Í frétt inn á vefsíðu danska MS-félagsins er haft eftir Finn Sellebjeg, yfirlækni á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn og formanni rannsóknateymis danska MS-félagsins, að hingað til hafi almennt verið talið að síversnunarform MS (engin skýr köst en sjúklingi fer jafnt og þétt aftur í getu) stafi af rýrnun taugaboðleiða í heila en ekki af bólgum þar sem sýking berst úr blóði í heila eins og gerist hjá sjúklingum með kastaform MS.

Sellebjeg kynnti áhugaverðar niðurstöður rannsóknar sem unnin var undir handleiðslu  hans á ársfundi ECTRims í vetur. Rannsóknir doktorsnema Sellebjergs sýndu að meðferð MS-sjúklinga í síversnun með Tysabri minnkaði bólgur í heila og skemmdir á heilavef á sama hátt og hjá sjúklingum sem fá köst (Tysabri virkar á bólgur í blóði þannig að lyfið hindrar hvítu blóðkornin í að komast út úr æðaveggjunum og inn í heilann). Því sé nú hægt að leiða líkum að því að sjúklingar í síversnun hafi samskonar bólgnuvirkni í blóði og sjúklingar í kastaformi og að sú bólga tengist virkni sjúkdómsins sem hægt er að finna í heila MS-sjúklinga.

Það þýðir að raunverulegur möguleiki er á því að meðhöndla síversnun með lyfi sem ræðst á bólgur í blóði. Sellebjerg undirstrikar þó í frétt danska MS-félagsins að ekki hafi verið um stóra rannsókn að ræða og því er ekki hægt að setja alla MS-inga í síversnun á Tysabri hér og nú. Enn sé ekki hægt að lækna þá skaða sem þegar hafa komið fram í taugakerfi sjúklingsins en hins vegar megi hugsanlega fyrirbyggja frekari skaða og hægja á eða stöðva framgang sjúkdómsins með Tysabri fyrir þennan sjúklingahóp. Niðurstöðurnar gefi því góða ástæðu til bjartsýni.

Annar rannsakandi á vegum Sellebjeg hefur einnig getað sýnt fram á líkindi milli MS í kastaformi og MS í síversnun þannig að ekki sé lengur hægt að tala um tvo ólíka sjúkdóma eða sjúkdómstegundir. Það þýðir að sömu eða svipuð lyf ættu að gagnast báðum sjúklingahópum. Niðurstaða þessarar rannsóknar styður því niðurstöðu fyrrnefndu rannsóknarinnar.

 

Það er því að birta til fyrir MS-fólk í síversnun – enda vor í lofti J

 

Bergþóra Bergsdóttir