Sigurður Sölvi Svavarsson, sjúkraþjálfari hjá Styrk, hefur sett upp dagatal með fjölbreyttum æfingum fyrir hvern dag mánaðarins: 

Ágúst byrjar á morgun eftir frábæran júlí mánuð og best er að byrja mánuðinn á því að setja sér ný markmið. Ég vona að þið haldið áfram að hreyfa ykkur úti á meðan veðrið er svona frábært en í ágúst ætlum við að einbeita okkur að því að styrkja miðjuna okkar þ.e. kviðinn og bakið.
 
Þennan mánuðinn bæti ég við nýju dagatali en þar eru myndir af æfingunum í stað texta. Sömu æfingar eru á báðum dagatölunum svo það má einnig nota þau saman til þess að átta sig betur á verkefnum dagsins.
 
Ég þakka þeim sem sendu mér mynd af dagatalinu sínu. Sumar, þar sem búið var að merkja við þær æfingar sem búnar voru en aðrar svo stút fullar af markmiðum að búið var að fylla alla reit með texta. Þið megið endilega halda áfram að senda mér myndir eða fyrirspurnir á: sigurdur@styrkurehf.is.

 


Blöðin með ágúst-æfingunum eru þrjú núna - tvö með fyrirfram ákveðnum æfingum, en á það þriðja getur þú sett upp þitt eigið æfingaplan.

 

Hér getur þú nálgast æfingaprógrammið fyrir ágúst; með mynd, með texta, autt

 

 

Ert þú til í áskorunina?

Þú prentar æfingaplanið út, hengir það upp eða setur á áberandi stað. Á hverjum degi gerir þú æfingu dagsins – þessa fyrirfram ákveðnu eða þá sem þú ert búin að skrifa á þitt eigið æfingaplan.

Í hvítu reitina getur þú skráð þín eigin persónulegu markmið. 

Í lok mánaðarins getur þú litið stolt/ur yfir mánuðinn og hlakkað til að byrja á æfingum þess næsta. Þeim verður deilt mánaðarlega á fésbókinni.

 

Sigurður Sölvi er annar tveggja sem sér um hina geysivinsælu hópþjálfun fyrir fólk með MS hjá Styrk, Höfðabakka 9. 

 

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi