Sverrir Bergmann, taugafræðingur, og Helgi Seljan, fv. alþingismaður og félagsmálafrömuður, voru gerðir að heiðursfélögum MS félags Íslands á 40 ára afmælisfagnaði félagsins, sem haldinn var  í MS húsinu í gær, laugardaginn 27. september. Þá gaf Landsbankinn félaginu 150 þ.kr. styrk, myndlistarmaðurinn Tolli gaf félaginu málverk og Bubbi Morthens, bróðir hans, tók lagið fyrir viðstadda. MS félagið er eitt öflugasta sjúklingafélagið á Íslandi í dag, sagði Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður félagsins í ávarpi.

Um 160 manns mætti á afmælisfagnaðinn, sem var á milli kl. 13-16, en MS félagið varð fertugt fyrir röskri viku, þ. 20. september.

Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður félagsins bauð gesti velkomna  í stuttu ávarpi.

Hún minntist Kjartans heitins Guðmundssonar, yfirlæknis taugadeildar Landspítalans, sem hefði haft frumkvæði að stofnun MS félagsins með því að fá til liðs við sig framsýnt fólk, sem lét sig MS sjúkdóminn varða.

Sigurbjörg fjallaði um þróun félagsins, eflingu þess og þær breytingar sem orðið hefðu á starfinu s.l. 40 ár með auknu kynningarstarfi og öflugri hagsmunagæzlu í þágu MS félaga og aðstandenda. Hún minnti jafnframt á, að MS félagið hefði stofnað dagvist fyrir MS-sjúklinga fyrir 22 árum og ráðist í byggingu húsnæðisins að Sléttuvegi 5.

Sigurbjörg sagði: “Á þeim 40 árum sem liðin eru hefur félagið vaxið og eflzt undrahratt og óhætt er að segja að það sé í hópi öflugustu sjúklingafélaga landsins í dag.”

Að ávarpinu loknu kallaði hún á þá Sverri Bergmann og Helga Seljan og tilkynnti, að á stjórnarfundi í sumar hefði verið ákveðið að gera þá tvo að heiuðursfélögum félagsins á þessum hátíuðisdegi. Sigurbjörg gat þess, að bæði Helgi og Sverrir hefðu verið á stofnfundi MS félagsins árið 1968.
Helgi Seljan þakkaði fyrir sig meðal annars með ljóði, eins og hans var von og vísa. Hún hljóðar svo:

       AFMÆLISKVEÐJA TIL MS FÉLAGSINS 40 ÁRA - HELGI SELJAN

Þið horfið nú til baka á heillaríkri göngu
og haldið fram á veginn með bjartsýni í för
Á vegferð þeirri oftlega staðið mjög í ströngu
í stríði við þann ógnvald er skerðir margra kjör.
En ykkur er það gefið að starfa bæði og stríða
og stefna fram á veginn og æðrast ekki hót,
það hafa unnist sigrar og hetjulund er víða
og horsk er ykkar liðssveit er gengur sólu mót.

 Með aðdáun ég hefi með ykkur fylgst svo lengi
og undrast það um leið hverju samtök megnað fá.
Á lífshörpunni ykkar þið eigið marga strengi
og ofar hverju meini er viljans sterka þrá.
Þið eigið metnað ríkan svo dáðum prýdd að duga
og degi hverjum mætið þið vonardjörf og keik.
Þið virkið allt það bezta með vorsins djarfa huga
og vissa mín er sú að þið eigið næsta leik.

 Sverrir Bergmann velti vöngum yfir framþróun rannsókna og lækninga, kleift væri að greina sjúkdóminn fyrr, lyf bötnuðu stöðugt, en enn væri ósvarað spurningunni um orsök “multiple sclerosis”. “Enn vitum við ekki ástæðuna,” sagði Sverrir en bjartsýnin leyndi sér ekki í orðum hans.

Bubbi Morthens söng tvö lög við mjög góðar undirtektir og afhjúpað var fallegt og kröftugt landslagsmálverk eftir Tolla, sem var forfallaður.

Sverrir Bergmann, Sigurbjörg Ármannsdóttir og Helgi Seljan

 

 

 


 



 


 





 

 


 

 


 

 



 

 

Sigurbjörg, Ósk Laufey Óttarsdóttir, Ingdís Líndal, Berglind
G. og Berglind Ó. við málverk Tolla.

Sigurbjörg Ármannsdóttir rifjaði upp, að Gréta Morthens, móðir þeirra bræðra, Tolla og Bubba, hefði verið með MS. Hún kvaðst hafa átt því láni að fagna að verða samferða þessari miklu hugsjónakonu, sem varð formaður MS félagsins 1978 og var það í tvö ár. “Gréta eignaðist fullt hús af kraftmiklum strákum eins og hún sagði við mig eitt sinn,” sagði Sigurbjörg og bætti við, að greinilegt væri að “þeir hafa erft hæfileika og baráttuanda hennar.”

Að lokum gerði Berglind Ólafsdóttir, nýr framkvæmdastjóri félagsins, grein fyrir þeim verkefnum, sem unnið hefur verið að upp á síðkastið og því sem framundan er. - h

SKÝRSLA FORMANNS 2008