Það er skemmtilegt að skipuleggja ferðalög og að mörgu að hyggja. Þegar maður fer í ferðlag er tilhlökkunin jafnan mikil og allt á að ganga snurðulaust fyrir sig. Það gerir það líka í flestum tilvikum.

Á greinasíðu MS-vefsíðunnar um ferðalög má finna slóðir á vefsíður sem geta komið að gagni við skipulagningu á ferðum innanlands og utan.

 

Við skipulagningu á ferðum innanlands

er gott að fletta upp á vefsíðu Þekkingarmiðstöðvar Sjálfsbjargar þar sem finna má góðar og gagnlegar upplýsingar um aðgengilega ferðamannastaði og gististaði, bílaleigur, flug, ferjur, leigubíla, rútur og strætisvagna.

Einnig má lesa um þá góðu aðstöðu sem ferðafélagið Útivist býður upp á í Básum (Þórsmörk).

 

Við skipulagningu á ferðum erlendis

má á vefsíðu Þekkingarmiðstöðvarinnar meðal annars finna upplýsingar um bílaleigubíla, flugrútur og Leifsstöð, afslátt til öryrkja á gjaldi við útgáfu vegabréfa auk notkunar á P-merki og ökuskírteini erlendis.

Svo er hægt að smella á erlenda síðu sem hefur að geyma upplýsingar um aðgengi, t.d. að hótelum og skipulögðum ferðum í hinum ýmsu borgum víðs vegar um heim.

Ef hugurinn stendur til Danmerkur er hægt að leigja virkilega flott 75 m2 smáhýsi í Dronningens Ferieby við Grenaa á austurströnd Jótlands í lengri eða skemmri tíma. Einnig er hægt að leigja smáhýsi í Mättinge sem liggur á dásamlega fallegum stað á austurströnd Svíþjóðar í um 80 km suður af Stokkhólmi.

 

Geta hjálpartæki gert ferðina þægilegri?

Ef fólk á við gönguerfiðleika eða mikla þreytu að stríða getur verið gott að huga að fleiru en aðgengi þegar ferðir eru skipulagðar. Til dæmis gæti verið fýsilegt að leigja hjólastól eða göngugrind fyrir ferðina, fyrir þá sem ekki eiga slíkt og ef pláss er í bílnum.

Fyrir þá sem ekki eru vanir að nota hjálpartæki eins og hjólastól og vilja ekki gera sjúkdóminn sýnilegan, getur verið efitt að taka skrefið og setjast í stólinn.  Hins vegar getur stóllinn gert ferðalagið mun þægilegra og skemmtilegra, bæði fyrir notendann og samferðafólkið. Jafnvel verður hægt að sjá mun meira og gera fleira en ella og það án þess að klára alla orkuna. Hjálpartækið verður þá eins og góður ferðafélagi sem gerir góða ferð enn betri.

Til að minnka umfang hjólastóla er hægt að taka dekkin undan þeim, auk þess sem margir eru á einhvern hátt samanbrjótanlegir. Göngugrindur eru einnig margar hverjar samanbrjótanlegar.

Auðvelt er að taka stól/grind með í flug innanlands og erlendis. Það kostar ekki aukalega og telur ekki í kílóum. Það þarf bara að láta vita af stólnum/grindinni þegar flugið er bókað.

Þá er víða erlendis hægt að leigja rafskutlur. Hægt er að spyrjast fyrir á hótelum eða gúggla á netinu.

Fyrir þá sem eiga við einhvern þvagleka að stríða eru til þvagbindi fyrir konur og karla. Þvagbindi eru ósýnileg hjálpartæki sem gera ferðalögin mun afslappaðri og þægilegri þar sem ekki þarf alltaf að svipast um eftir salerni eða hafa áhyggjur af því að finna þau ekki. Þvagbindin er hægt að fá niðurgreidd að langmestu leyti (90%) með uppáskrift frá lækni sem sækir um úttektarheimild til Sjúkratrygginga. Þau er einnig hægt að kaupa í apótekum eða í miklu úrvali hjá Rekstrarvörum eða Rekstrarlandi.

Fleiri hjálpartæki gætu komið að gagni við að gera ferðalög auðveldari.

 

Vefslóðirnar

um ferðalög, sjá hér og

um hjálpartæki, sjá hér og hér

 

Gott sumar og góða ferð :-)

 

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi